01.03.1929
Neðri deild: 11. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í D-deild Alþingistíðinda. (3639)

44. mál, innflutningur á lifandi dýrum

Flm. (Gunnar Sigurðsson):

Jeg get búist við, að til sjeu þeir menn, sem þyki þessi nýjung eins og allar aðrar nýjungar að einhverju leyti ískyggileg. En landbúnaðinum íslenska er það nauðsynjamál að fylgjast vel með öllum nýjungum, sem gerast með erlendum þjóðum. Í till. er meðal annars farið fram á að færa sjer í nyt reynslu Norðmanna í refarækt. Norðmenn hafa undanfarin ár flutt inn mikið af refum frá Norður- Ameríku, og hefir það gefist vel og orðið til mikilla hagsbóta fyrir landbúnaðinn. Nú munu vera þar um 300 refabú og gefa flest þeirra mikinn arð.

Jeg hefi staðið í brjefaskiftum við tvo merka Norðmenn, sem kunnugir eru refarækt og skinnasölu. Hefir annar þeirra það eftir ensku firma, Lampson & Co., sem mikið selur af skinnum, að horfur með verð á þeirri vöru sjeu mjög álitlegar. Norðmenn gæta þess stranglega, að eigi sjeu sett á nema fyrsta flokks dýr til undaneldis, og sama ættum við að gera. Jeg geri ekki mikinn mun á því, hvort dýrin verða flutt inn frá Noregi eða beint frá Canada, og getur það verið opin leið fyrir menn, frá hvoru landinu þeir flytja. Jeg veit, að refarækt Norðmanna er í miklu áliti. Er þar varla um að ræða svo ljelegt silfurrefaskinn, að ekki fáist fyrir það að minsta kosti 200 krónur, og alt upp í 2000 kr.; jafnvel dæmi þess, að þau hafa selst á 4000 kr.

Hjer eru að ýmsu leyti betri skilyrði til refaræktar en í Noregi. Má sjerstaklega minna á það, að hjer er hægt að fá nóg af ódýrum fiski og sömuleiðis hrossaketi, sem hvorttveggja er ágætt til refaeldis.

Jeg hefi tekið með tvær aðrar dýrategundir, sem jeg hygg að mundu verða til mikillar nytsemdar hjer á landi. Í fyrsta lagi eru það kanínur. Skal jeg nefna tvær tegundir, sem algengar eru í Danmörku og fleiri nálægum löndum, svonefnda Pels-kanínu, sem er ræktuð vegna skinnsins, sem hefir gefið góðan arð undanfarin ár, og Angóra-kanínuna, sem ræktuð er vegna ullarinnar.

Loks vil jeg svo minnast á Moskusnautin, eða sauðnautin, eins og þau eru stundum kölluð á íslensku. Það eru norðurheimskautsdýr, ákaflega harðgerð og mundu þrífast vel í loftslagi hjer á landi. Hefir einn mjög merkur maður, Vilhjálmur Stefánsson landkönnuður, skrifað um sauðnautarækt hjer á landi og spáð góðu um hana. Þessi dýr eru nú mjög að ganga til þurðar í sínum upphaflegu heimkynnum, Norður-Ameríku og Grænlandi.

Jeg þykist vita, að það, sem mönnum muni vera mestur þyrnir í augum í sambandi við innflutning dýra, sje smithættan. Skal jeg því taka það fram, að jeg hefi átt tal um þetta mál við Hannes Jónsson dýralækni, og telur hann eigi hættu á ferðum, þó að leyfður sje innflutningur þessara dýra, allra síst sauðnauta frá Norður-Grænlandi.

Jeg skal vekja athygli á því, að einangrun og eftirlit með refum og kanínum yrði tiltölulega mjög auðvelt, af því að þau dýr eru ávalt geymd í vönduðum girðingum. En dýralæknir telur, að af dýrum stafi engu meiri smithætta, ef eftirlit er haft með þeim, en af mönnum og ýmsum varningi, sem hingað flytst. Hæstv. forsrh. vildi halda því fram við mig áðan, að ekki hefðu verið flutt inn dýr í sinni stjórnartíð. Jeg get að vísu ekki sannað neitt um þetta, en held þó hinsvegar, að svo hafi verið um alifugla og hunda.

Sökum þess að jeg vil gæta allrar varúðar í þessu efni, hefi jeg ekkert á móti því, að till. verði vísað til hv. landbn. og umr. frestað um hana. Gefst þá n. tækifæri til að athuga, að gætt sje nægilegrar varfærni. Vildi jeg síst verða til þess að greiða veg hingað til lands munn- og klaufaveiki, en jeg sje enga sjerstaka hættu á því, þótt till. verði samþ.