01.03.1929
Neðri deild: 11. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (3641)

44. mál, innflutningur á lifandi dýrum

Flm. (Gunnar Sigurðsson):

Jeg hefi í raun og veru litlu að svara hæstv. forsrh., en það er aðeins eitt, sem jeg legg aðaláhersluna á, að orðum sjerfræðinganna verður að treysta best í þessu máli. Hæstv. forsrh. taldi girðingar eigi tryggar. En jeg vil benda á, að í norður-Noregi eru refir geymdir í girðingum, sem taldar eru alveg öruggar; og yrðu refirnir fluttir þaðan, mundu þessar girðingar verða teknar með. Svo mundi og vera um kanínur; girðingar yrðu fluttar samhliða, en þær eru altryggar þar sem jeg hefi sjeð þær.

Sem sagt, jeg vona, að hv. n. athugi þetta mál með skilningi og velvild. Það er alls ekki mín meining, að jeg vilji ganga lengra heldur en trygt er, en hinsvegar álít jeg ekki neina ástæðu til að forðast þennan innflutning; ef hægt er að flytja refina inn án hættu, þá á að gera það, og það er mitt álit að hægt sje.