08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (3648)

44. mál, innflutningur á lifandi dýrum

Halldór Stefánsson:

Það var þegar vitanlegt og hefir líka komið skýrt fram við umr., að till. þessi er alveg óþörf, þar sem heimildin er áður til í lögum. (GunnS: Stj. vill ekki leyfa innflutning, nema hún fái til þess beina heimild þingsins). Hv. landbn. leggur nú til, að þessari þáltill. sje breytt í áskorun til stj. um að gefa leyfi til innflutnings, en vill þó undanskilja loðkanínur þessari áskorun. Jeg tel nú meira en vafasamt, að rjett sje að skora á stj. að gefa leyfi til að flytja inn refi, enda þótt silfurrefir sjeu nefndir. Bæði mun nú vera svo, að hagnaður að slíku mun vera mjög tvísýnn, og svo er það heldur ekki með öllu áhættulaust. Bæði getur verið um sýkingarhættu að ræða, þótt jeg vilji nú reyndar ekki gera mikið úr henni, og svo er erfitt að tryggja það, að varslan sje fullkomlega örugg. Það gengur nógu erfiðlega að fást við okkar eigin viltu refi, þótt ekki sje við bætt. En það eru dæmi til, að refir hafa sloppið úr girðingu, og kann enn svo að fara. Það kemur fram bæði í grg. og nál., að þessu er ábótavant.

Þá heyrðist mjer hv. flm. líka vera farinn að draga nokkuð úr væntanlegum arði af refainnflutningi í síðustu ræðu sinni. Reynslan í Noregi bendir líka í þá átt, að ábatavonin sje ekki alveg skýlaus. Það er og sjáanlegt, að slík bú, með einu pari eða svo, yrðu mjög dýr í rekstri. Og við mikinn stofnkostnað og dýran rekstur bætist svo stundum það, að dýrin tímgast alls ekki. Að öllu athuguðu virðist mjer ábatavonin svo tvísýn og innflutningur þó ekki hættulaus, að það sje meira en vafasamt, hvort rjett sje að fara að skora á stj. að leyfa slíkan innflutning.

Þá er nú ekki annað eftir en moskusnautin. En vegna þeirra er þessi þáltill. allsendis óþörf. Nú liggur fyrir frv. til 1. um innflutning og ræktun sauðnauta og allstór upphæð er nú í fjárl. um sama. Mjer virðist því liggja fyrir yfirlýstur skilningur og vilji þingsins, að minsta kosti hv. Nd., um innflutning sauðnauta. Þessi þáltill. er því að mínu viti allsendis óþörf.