08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í D-deild Alþingistíðinda. (3650)

44. mál, innflutningur á lifandi dýrum

Gunnar Sigurðsson*):

*) Ræðuhandr. óyfirlesið. Jeg hefi litlu að svara hv. 1. þm. N.-M. Hv. þm. var að tala um, að hætta gæti verið á því, ef silfurrefir væru fluttir inn, að þeir slyppu úr girðingum. Jeg held því fram, að á þessu sje engin hætta. Þeir einir mundu flytja silfurrefi inn, sem hefðu fullan skilning á að hafa þá í öruggri geymslu. Og jeg fyrir mitt leyti held nú, að þótt silfurrefir slyppu, þá mundu þeir ekki lifa viltir hjer á landi. Þeir eru orðnir of mikið ræktaðir til þess. Hv. þm. talaði um, að hætta gæti verið á því, að þeir tímguðust ekki. Það held jeg að sje ekki rjett. Þeir tímgast einmitt betur en mórauðir refir, sem eru minna ræktaðir.

Þá sagði hv. þm., að jeg hefði í ræðu minni dregið úr þeirri arðsvon, sem væri af innflutningi refa. Þetta er ekki rjett. Jeg vildi ekkert gylla þetta og sagði bara, að Norðmenn hefðu grætt alment. Hjá sumum þessum 300 búum, sem til eru í Noregi, hefir gróðinn orðið mjög mikill, jafnvel yfir 100%. En það er rjett, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði, að þeir lentu fyrst á slæmum stofni. En það er áríðandi, að sem allra best sje til stofnsins vandað, eins og er með öll undaneldisdýr. Það er að vísu rjett að fara varlega af stað með þetta eins og alt annað. En ef einhver vill byrja á þessu og leggja fram til þess fje, þá finst mjer ekki rjett að banna það. Í Canada hefir þetta reynst mjög gróðavænlegur atvinnuvegur. En þar hygg jeg, að skilyrði hvað landslag og loftslag snertir sjeu mjög lík því, sem hjer er. Hvað það snertir stöndum við síst ver að vígi en Norðmenn. Og við höfum það skilyrði fram yfir Norðmenn, að við höfum ódýra og góða fæðu handa dýrunum, þar sem hrossaketið er. Þá aðstöðu hafa Norðmenn ekki.