08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (3660)

93. mál, útrýming fjárkláða

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Hv. þm. Borgf. heldur því fram, að ef þessi till. verði samþ., sje öllum framkvæmdum slegið á frest í þessu efni. Jeg fæ ekki sjeð, að þetta þurfi endilega að vera eða að það leiði beint af þessari till., þó að það gæti vel farið saman, að skerpa eftirlitið með þrifaböðunum

til bráðabirgða og jafnframt að undirbúa þetta mál til endanlegrar lausnar. Jeg get því ekki fallist á, að þetta geti verið nein ástæða á móti þessari till.

Hv. þm. Borgf. drap á það, að það hefði áður verið ákveðið að rannsaka baðlyf. Jeg man eftir því máli, og var það þannig, að ákveðið var að framleiða baðlyf í landinu sjálfu, en ekki að rannsaka þau baðlyf, sem notuð voru áður. Hinsvegar er jeg sammála hv. þm. Borgf. um það, að þessi tilraun mistókst og baðlyfið reyndist óhæft. Jeg gat um það í minni fyrri ræðu, að í Eyjafjarðarsýslu hefði það reynst ónýtt, vegna þess að það hafði frosið. En jeg fæ með engu móti sjeð, að þótt þessi tilraun hafi mistekist í eitt sinn, þurfi að leggja árar í bát og gefast upp við að finna nothæft baðlyf. Þó að eftirlitið með böðunum væri skerpt, eins og hv. þm. Borgf. vill, og jeg hefi heldur ekkert á móti, að gert verði, kemur það ekki að neinum notum, nema það baðlyf, sem notað verður, sje hæft til þess að drepa kláðann. Jeg fæ því ekki sjeð, að hv. þm. Borgf. hafi á nokkurn hátt hrakið, að nauðsynlegt sje að rannsaka þetta mál. Jeg vil ennfremur benda á það — og það mælir óneitanlega með þessum lið till. —, að það hefir spurst, að nú sje farið að nota nýtt baðlyf, sem talið er óyggjandi, bæði í Englandi og Skotlandi.

Þá sagði hv. þm. Borgf., að hann hefði litla trú á íhlutun stj. um að koma upp sundþróm. Og mjer skildist á honum, að hann hjeldi jafnvel, að allar sauðkindur á landinu væru nú þegar baðaðar í sundþróm. Það er álit mitt, að meiri hluti sauðfjárins sje, sem betur fer, baðaður svo. Og einmitt vegna þess að svo lítið vantar á, að hægt sje að baða alt sauðfje landsmanna í sundþróm, álít jeg það duga, að stj. leggi fyrir sveitarstjórnirnar að beita sjer fyrir, að þeim verði komið upp, þar sem þær vantar, því þær vantar áreiðanlega sumstaðar. Er enginn efi á, að sveitarstjórnirnar gætu miklu áorkað í þessu efni, með því að hvetja bændur til framkvæmda, þó enginn styrkur væri veittur.

Jeg vil endurtaka það, að jeg get ekki sjeð, að samþykt þessarar till. geti á nokkurn hátt spilt fyrir, að gerðar sjeu bráðabirgðaumbætur á lögunum um sauðfjárbaðanir. Sú leið stendur opin eftir sem áður. En hitt er satt, að landbn. hefir látið það duga að bera fram þessa till. og ekki borið fram neitt frv. um sauðfjárbaðanir, en öðrum hv. þm. stendur sú leið opin, og jafnt fyrir því, þó þessi till. verði samþ.