08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (3668)

104. mál, fiskimat

Flm. (Ólafur Thors):

Jeg hefi ásamt hv. þm. Borgf. borið fram þáltill. um það, að ríkisstj. verði falið að láta endurskoða fiskimatslögin og leggja frv. til slíkra laga fyrir nœsta þing. Jeg sje ekki ástæðu til að láta fylgja þessu ítarlega grg. Jeg vil aðeins benda á það, að við Íslendingar verðum að gera okkur far um að vanda meðferð á fiskinum sem mest og fylgjast vel með kröfum tímans. Lögin frá 1922 komu að góðu liði, og sumpart þeirra vegna mun íslenskur fiskur hafa unnið sjer það álit meðal neytenda, að hann er talinn betri en annar fiskur á heimsmarkaðinum. Hitt er einnig vitanlegt, að við eigum í höggi við hættulega keppinauta, sem sitja um færi til að læra aðferðirnar af okkur og semja sig að okkar siðum með fiskverkun, og ef við stöndum ekki vel á verði, getum við átt það á hættu, að þessir framleiðendur fari fram úr okkur hvað vörugæði snertir og ryðji okkur burt af markaðinum. Þess vegna verðum við Íslendingar að fylgjast með öllum nýjum kröfum neytenda og verða á undan öðrum þjóðum með að fullnægja þeim. Jeg álít, að lögin frá 1922 sjeu á eftir tímanum, og sú reglugerð, sem gefin var út í sambandi við þau, er alveg ótæk eins og sakir standa nú. Það er nú komið svo margt nýtt fram, sem ekki rúmast innan þessarar reglugerðar, að við verðum að breyta henni. Við höfum t. d. tekið upp nýjar aðferðir í fiskverkun, eins og við hinn svokallaða pressufisk, og nú ræða menn ekki eingöngu um Spánarmat á fiski, heldur einnig Bilbao-mat, Barcelona-mat, portugalskt mat og Suður-Ameríku-mat. Alt þetta hefir komið til eftir 1922 og síðan reglugerðin var sett. Jeg ætla ekki að benda á einstök ákvæði, sem eiga ekki lengur við, en vil aðeins sýna hv. þdm., hvað reglugerðin er ófullkomin, og vil þá lesa upp 1. gr. hennar, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir (fiskimatsmennirnir) skulu einnig kynna sjer þær breytingar, sem verða á kröfum þeim, er útlendir kaupendur eða umboðsmenn þeirra hjer á landi gera til fiskjarins á hverjum tíma, og haga mati sínu samkvæmt óskum þeirra, að svo miklu leyti, sem unt er“.

Hjer eru fyrirmæli um það, að útlendir kaupendur og umboðsmenn þeirra hafi rjett til að skipa fiskimatsmönnum fyrir, en ekkert tillit á að taka til hinna íslensku kaupenda, þótt þeir hafi meiri sambönd við fiskkaupmenn en hinir. Óskir þeirra innlendu eru einskis metnar, en útlendingar eru settir skör hærra, og það er hreint öfugmæli, sem þarf að laga. Í þessu er fólgin bein hætta, sem jeg ætla ekki að skýra hjer, en sú nefnd, sem yrði skipuð í málið, tæki það auðvitað til athugunar. Þá er það ákvæði í 7. gr., að matsmenn geti neitað að meta fisk til útflutnings á höfnum, sem liggja opnar fyrir sjógangi eða af öðrum ástæðum eru illa fallnar til útflutnings. Þetta er ríkt vald, sem þeim er sett. Þá kemur 12. gr., sem ákveður, að hverri fisksendingu fylgi prentuð vottorð á tveimur málum, íslensku og ensku, og er svo fyrir mælt, að vottorðin sjeu nákvæmlega samhljóða fyrirmyndum, sem prentaðar eru með reglugerðinni. En nú er það svo, að vegna breyt., sem orðið hafa á kröfum neytenda, rúma þessi vottorð ekki alt það, sem þyrfti að taka fram. Eins og jeg sagði í byrjun, tel jeg ástæðu til að lagfæra þá smíðagalla, sem eru bæði á löggjöfinni og þeirri reglugerð, sem gefin hefir verið út um þetta efni, og hefi jeg þar bent á ein stök atriði, sem nauðsyn er á, að verði bætt. Jeg vil leggja áherslu á það, að íslendingum er nauðsynlegt að haga sjer eftir kröfum tímans, að svo miklu leyti sem hægt er, ef þeir eiga að fullnægja þeim kröfum, er neytendurnir gera til vörunnar, og standast samkepni við aðra hættulega keppinauta á þessu sviði. Að endingu vil jeg geta þess, að jeg ætlast til, að sú n., sem skipuð verður í málið, starfi kauplaust, og hefir mjer dottið í hug, að í henni verði: skrifstofustj. atvmrh., forseti Fiskifjelagsins, yfirmatsmaðurinn, einn maður frá togaraeigendum og einn maður frá fiskútflytjendum. Vona jeg, að hv. d. geti fallist á skoðun mína og að stj. verði falið að skipa n. í málið og beri fram brtt. hennar á næsta þingi.