08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (3669)

104. mál, fiskimat

Sveinn Ólafsson:

Jeg vil lýsa ánægju minni yfir því, að þessi till. er fram komin. Get jeg tekið undir það að mestu leyti, sem hv. flm. sagði um þá nauðsyn, sem á því er að endurskoða fiskimatslögin.

Jeg vil geta þess um leið og þessi þáltill. er borin fram, að 1927 var gerð tilraun til að breyta fiskimatslögunum frá 1922. Sú tilraun var afgreidd í frumvarpsformi frá Nd., en strandaði í Ed. Jeg vil í þessu sambandi benda á niðurstöður Nd. 1927. Þá var lögð á það mikil áhersla, að skipaður yrði einn maður, sem hefði yfirumsjón og eftirlit með öllu fiskimati á landinu og færi um landið til að leiðbeina mönnum í því efni og samræma matið alstaðar. Þetta finst mjer að enn eigi við, og vænti jeg, að þær leiðir verði farnar við endurskoðun þá, sem til stendur.

Jeg vil að lokum láta þá skoðun í ljós, að mjer finst þetta mál vera svo ljóst og einfalt, að óþarfi sje að vísa því til n. Slíkt yrði aðeins til að tefja málið, enda hefir engin till. komið fram um það.