08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (3672)

104. mál, fiskimat

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil geta þess, að stj. mun láta framkvæma þessa vinnu, og ekki síst fyrir það, að að gefnu tilefni hafa þegar verið gerðar nokkrar ráðstafanir málinu til undirbúnings. Hinu hefi jeg enga vissu fyrir, að þessi vinna verði alveg ókeypis af hendi leyst. Skrifstofustjórinn í atvmrn., sem hv. flm. ætlaðist til, að ynni þetta starf ásamt öðrum, hefir verið vanheill undanfarið og siglt sjer til heilsubótar til útlanda og mun ekki vera fær um að bæta á sig neinum aukastörfum. Ekki getur stj. heldur skipað forseta Fiskifjelagsins að vinna þetta verk fyrir ekki neitt. Jeg segi þetta vegna þess, að oftlega er lagt fyrir stj. að gera hitt og þetta, og á eftir er hún skömmuð fyrir að hafa varið fje til þess. En mjer heyrðist á hv. flm., að þetta starf væri svo mikils virði, að ekkert aðalatriði væri, að það væri ókeypis af höndum leyst.

Hv. flm. sagði, að ástæðan til þess, að athuga þyrfti fiskimatið af nýju, væri sú, að allháværar kvartanir hefðu borist frá Spáni yfir matinu hjer. Býst jeg við, að það sje og rjett hjá hv. 3. þm. Reykv., að vöruvöndun sje að fara aftur. En eins og jeg gat um áður, hefir þegar verið hafinn nokkur undirbúningur þessa máls. Yfirfiskimatsmennirnir verða allir staddir hjer eftir nokkra daga og munu þá taka til athugunar þær kvartanir, sem fram hafa komið á Spáni, enda kemur einn fiskimatsmannanna þaðan beint á fundinn. Jeg vil benda á þetta vegna þess, að hv. 3. þm. Reykv. var að tala um, að fiskimatsmenn hefðu ekki getað fylgst með kröfum neytenda eða mati hvers annars innanlands. Núv. stj. vill ráða bót á þessu og lítur svo á, að ekki sje horfandi í þó að lagt sje í nokkurn kostnað í því skyni. Jeg tek því mjög vel í þær áskoranir að láta framkvæma þetta starf fyrir næsta þing.