08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (3673)

104. mál, fiskimat

Flm. (Ólafur Thors):

Jeg þakka hv. þm., sem talað hafa, undirtektir þeirra í þessu máli. Að vísu var það, sem hv. 1. þm. S.-M. sagði, mest úr huga mínum talað, enda vorum við samherjar í bardaganum 1927, þegar flokksbræður mínir, þeir hv. þm. Borgf. og hv. 3. þm. Reykv., rjeðust á móti þeim till. sjútvn. að skipa einn yfirfiskimatsmann yfir alt land. Jeg get tekið undir það með hv. 3. þm. Reykv., að við þurfum að herða á vöruvöndun og bættri meðferð fiskjar. En jeg held, að orsökin til hnignunar í vöruvöndun liggi þó meir í matinu en hann heldur. Mín reynsla er sú, að mestur skaði hljótist af því, hve lítt má treysta matsvottorðunum. Menn vita ekki, hvað þeir kaupa eða selja, enda þótt lýsing á fiskinum fylgi frá eiðsvörnum mönnum. Ef hert væri á matinu frá fyrstu hendi, myndi þetta eitthvað lagast.

Jeg get vel skilið, að þeim hv. þm. Borgf. og hv. 3. þm. Reykv. hafi þótt vera komið við snöggan blett, þegar þeir sjá nú yfirfiskimatsmanninn afturgenginn, sem þeir hjeldu, að búið væri að kveða niður um tíma og eilífð. En þó get jeg tekið undir þau tilmœli til hæstv. stj., að hún taki til athugunar ummæli frá báðum aðiljum 1927.

Í tilefni af ræðu hæstv. forsrh. skal jeg geta þess, að jeg legg ekki sjerstaka áherslu á, að verkið verði leyst algerlega ókeypis af hendi, en jeg hugði, að þeir aðilar, er jeg tilnefndi, hefðu svo mikinn áhuga á málinu, að þeir myndu ekki taka sjerstakt gjald fyrir þessa vinnu. Mjer var ókunnugt um, að skrifstofustjóri atvmrn. væri vanheill, enda legg jeg ekki sjerstaka áherslu á, að hann skipi forsæti í nefndinni. Hitt tel jeg fullvíst, að útgerðarmannafjelagið í Reykjavík myndi leggja til mann í hana og ennfremur að forseti Fiskifjelagsins og yfirfiskimatsmaðurinn í Rvík myndu vilja vinna að þessu máli, og ætti þá málinu að vera borgið.

Út af þeim ráðstöfunum, sem hæstv. forsrh. var að tala um, að stj. hefði þegar gert í þessu máli, skal jeg geta þess, að það hefir verið venja, að fiskimatsmennirnir kæmu saman hjer í Rvík, áður en þessi stj. tók við völdum, og einnig að þeir færu til útlanda til að kynnast kröfum neytenda. Hjer er því ekki um neitt sjerstakt nýmæli að ræða. En jeg vil ekki vekja neinar deilur hjer um það atriði, heldur óska þess, að málið verði fljótt og vel tekið til athugunar.