11.05.1929
Efri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (3679)

139. mál, fátækralög

Jón Baldvinsson:

Það er altaf góðra gjalda vert, þegar hv. þm. finna hvöt hjá sjer til að bæta úr þeim göllum, sem þeir finna á löggjöfinni. Að því leyti er jeg ánægður með till. hv. 2. landsk. um fátækraflutning. En úr þessu verður ekki bætt til hlítar nema fátækraflutningur hverfi úr sögunni. Afleiðingin hverfur ekki fyr en orsökin er afmáð. En til þess að koma í veg fyrir fátækraflutning, sem jeg geri ráð fyrir, að vera muni vilji hv. þm., þarf að breyta framfærsluskipulaginu, og verður sennilega ekki önnur leið fær til þess en sú, sem stungið hefir verið upp á af okkur jafnaðarmönnum, að gera landið alt að einu framfærsluhjeraði. Með því yrði komið í veg fyrir alla fátækraflutninga, sem eru þyrnar í augum allra, sem nokkurs meta mannrjettindin yfirleitt. Það er rjett hjá hv. þm., að það er fátt eins átakanlegt og ósamboðið siðaðri þjóð eins og það, að rífa upp heimilin með rótum og svifta foreldra börnum sínum. En þótt viljinn sje góður hjá hv. þm., er till. þó langt frá að vera þannig orðuð, að eftir henni náist sá árangur, sem þm. óskar eftir. Það, sem hv. þm. virðist vilja, er að afnema fátækraflutninginn, en með till. er verið að gefa hæstv. stj. heimild til að halda í þetta gamla skipulag. Þó hæstv. stj. tæki till. til greina og ljeti endurskoða fátækralögin í samræmi við hana, þá verður eftir sem áður hægt samkv. lögunum að leysa upp heimilin.

Þessi refsiákvæði fátækralaganna eru alveg einstök í sinni röð. Sá, sem hefir orðið sekur um það að geta ekki framfleytt fjölskyldu sinni, er í rauninni alveg rjettlaus og algerlega á valdi fátækrastjórnar. En sökudólgum, sem brjóta hin borgaralegu lög, eru skipaðir verjendur og þeim er ekki refsað fyr en dómur er fallinn. En till. bætir hjer ekki úr. Eftir sem áður geta sveitarstjórnir ráðið því, hvort heimili er sundrað eða ekki. Eru það ekki þær, sem eiga að meta það, hvort foreldrar eru færir um að ala upp börn sín eða ekki? Þetta er alveg eins og þegar verið var að leggja það undir mat sveitarstjórna, hverjir það eru, sem eiga að hafa kosningarrjett um málefni sveita og kaupstaða. Það er alveg sama handahófsmatið, sem á að gilda áfram, og þess vegna vildi jeg mælast til við hv. þm., að hann tæki málið út af dagskrá og orðaði till. ákveðnar, svo að náð yrði þeim tilgangi, sem fyrir hv. þm. vakir. Vilji hann það ekki, þyrfti að bæta við till., sem fæli í sjer ákvæði um það, að einhver tiltekin stofnun — — en ekki sveitarstj. — ákvæði, hvort heimilað skyldi að leysa upp eða ekki, og færi það eftir föstum reglum. Það, sem jeg vil leggja áherslu á, er það, að sveitar stj. yrði ekki falið þetta, því að þær eru tæplega hlutdrægnislausar í þeim úrskurðum.