11.05.1929
Efri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (3683)

139. mál, fátækralög

Jón Baldvinsson:

Mjer skilst þessi till. eiga að stefna að því að fyrirbyggja fátækraflutning, svo að því leyti sje jeg ekki, að orðalagið sje óheppilegt, enda segir þetta í fyrirsögninni, svo að henni þyrfti þá að breyta líka.

Svo kemur annað. Þessi till. er flutt samkv. till. frá fundi kvenna, sem haldinn var hjer fyrir skömmu, og þar er það alveg greinilega fátækraflutningurinn, sem átt er við. Það stendur í grg.:

„Fundurinn mótmælir því, að heimilum sje sundrað vegna fátækraflutnings og skorar á Alþingi að breyta svo fátækralögunum, að slíkt geti ekki átt sjer stað“.

Mjer skilst því, að hv. flm. ætti sjerstaklega að taka þetta atriði til greina. Hinsvegar er það mál, sem hv. flm. mintist á, mæðratryggingin, alt annað mál, og það, sem hv. þm. las upp, snertir ekki þetta mál, sem liggur fyrir.

En sá galli er á þessari till., sem hjer liggur fyrir, að það er verið að hrófla við fátækralögunum, en hvergi nærri tekið nógu föstum tökum.

Viðskiftin milli sveitarfjelaga út úr sveitarstyrknum er undirstöðuatriði í fátækralöggjöfinni. Ef maður, sem dvelur í Reykjavík, á sveit norður í Húnavatnssýslu og þiggur styrk, þá á sveitin rjett á að fá hann sendan til sín, fari styrkhæðin fram úr 200 kr. Þetta er eitt grundvallaratriði laganna, og þetta er það, sem kallað er fátækraflutningur, og verði þessu meginatriði kipt burtu, þá breytist allur grundvöllurinn. Því getur hv. flm. ekki sagt, að hún vilji ekki byltingu. Það er einmitt tilgangur till. Eigi hún ekki við það, þá er till. meiningariaus. Þá held jeg, að hv. flm. fari ekki nákvæmlega eftir vilja kvennafundarins. Ályktun hans, sem hv. flm. las hjer upp, er „absolut“. Till. er með undanþágu.

Jeg þarf ekki að taka það fram, að hv. þm. getur væntst ærlegs stuðnings jafnaðarmanna, ef hún gerir ærlega tilraun til að fá fátækralögunum breytt. En káktilraunir eru tilgangslausar.

Jeg vil skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann vilji ekki bera till. upp í tvennu lagi, seinustu setninguna: — „ef þær annars eru hæfar til að ala upp börn sín“ — sjer í lagi. Sú setning á ekki að vera í till., ef ályktun kvennafundarins er í heiðri höfð.