11.05.1929
Efri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í D-deild Alþingistíðinda. (3684)

139. mál, fátækralög

Jón Jónsson:

Jeg vildi segja hjer fáein orð út af því, að hv. flm. fór að blanda hjer inn í brjefi frá húnvetnskum konum. Eins og menn heyrðu, er það brjef var lesið upp, þá ræðir þar um alt annað mál en það, er hjer liggur fyrir. En það á sinn rjétt á sjer fyrir því. Það var um að tryggja ekkjum og fátækum mæðrum ákveðinn lífeyri, eins og komið er á í löndunum í kring og rjett og skylt er að koma einnig á hjer. Jeg býst við, að það verði einn liðurinn í þeirri tryggingalöggjöf, sem ráðgert er, að hjer verði sett bráðlega. Því hefi jeg ekki viljað beita mjer fyrir því, þótt það sje gott mál og rjett.

En till. ræðir um alt annað. Hún ræðir um það atriði, að tryggja það, að börn verði ekki tekin frá foreldrum sínum, þótt heimilið verði flutt fátækraflutningi. Nú er það svo, að það er nýleg löggjöf, sem um þetta fjallar, löggjöf, sem hv. flm. hefir sjálf átt þátt í að setja, löggjöf, sem hún þá ekki hreyfði neinum aths. við. Jeg veit alls ekki, hvort nokkur nauðsyn er á þessari till., því jeg hefi skilið lögin svo, að ekki væri heimilt að taka börn frá foreldrum þeirra, sjeu þau hæf til að ala þau upp. Í Húnavatnssýslu, þar sem jeg er kunnugastur, mun alstaðar vera litið svo á. Nýverið var fátæk ekkja hjeðan úr bænum flutt sveitarflutningi norður, en henni var þar fengið heimili fyrir sig og börn sín, en þau voru ekki tekin frá henni. Jeg býst því ekki við, að till. sje nokkur þörf; eigi það sjer stað, sem hún á að fyrirbyggja, þá er það lagabrot, er kæra mætti.