15.05.1929
Neðri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (3697)

131. mál, hagskýrslur

Flm. (Halldór Stefánsson):

Jeg get að mestu vísað til grg. till. — Það gegnir furðu, að ekki skuli fyr hafa verið hlutast til um, að hagstofan gæfi út skýrslur um hag sveitarsjóða, þar sem svo er ástatt, að sveitarsjóðirnir inna af höndum allverulegan hluta — að líkindum ¼–1/5 hluta — af opinberum útgjöldum. En á því leikur nokkur vafi, hvernig hagur þeirra sje; víða mun hann misjafn og áreiðanlega mjög þröngur sumstaðar, og það svo, að þeir eiga erfitt með að inna af höndum lögboðnar skyldur. Með slíkum skýrslum, sem hjer er stungið upp á að gerðar sjeu og gefnar út, ættu að fást allítarlegar upplýsingar um hag sjóðanna. Jeg tel, að slíkar skýrslur sjeu ólíkt þýðingarmeiri en sumar þær, er hagstofan gefur nú út, t. d. ársfjórðungslegar verslunarskýrslur, er koma 1–2 árum á eftir tímanum.

Að því er snertir þær bendingar, sem gefnar eru í grg. um tilhögun skýrslnanna, þá er náttúrlega ekki tilætlunin, að það verði bindandi fyrir hagstofuna hvað form skýrslnanna snertir. Á þetta er aðeins bent til leiðbeiningar um það, hvaða efnisákvæði ættu að geta sjest í skýrslunum. Hagstofan hefir í höndum heimildir þær, sem með þarf til að geta gefið þessar skýrslur út. Henni eru bæði sendir reikningar sveitarsjóðanna og eins framtöl til tekju- og eignarskatts.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta; jeg vænti þess, að till. verði vel tekið. Öllum ætti að vera hugleikið að fá sem ítarlegastar og mestar upplýsingar um þetta efni.