17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í D-deild Alþingistíðinda. (3709)

133. mál, geymslurúm fyrir innlendar kartöflur, vátrygging á þeim o.fl.

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Það væri að vísu þörf á að tala langt og ítarlega um þetta merkilega mál; en af því að lítið er eftir af fundartímanum, þá skal jeg vera stuttorður.

Eins og kunnugt er, þá stöndum við Íslendingar mjög illa að vígi um ræktun á korntegundum. Að vísu má benda á nokkrar tilraunir, sem gerðar hafa verið með kornrækt á síðari árum. Þó að þessar tilraunir hafi ekki orðið að neinu verulegu ráði til þess að byggja á ályktanir um þessi efni, þá sýna þær, að korn getur þrifist hjer í góðæri.

Hin eina jurt, sem ræktuð hefir verið með góðum árangri til þess að fullnægja mjölefnisþörf þjóðarinnar, er kartaflan. Ræktun hennar er okkar kornyrkja. Þess vegna er það leitt, að við skulum ekki geta ræktað svo mikið af henni sem kartöflueftirspurn þjóðarinnar krefst. En til þess skortir ekki ræktunarmöguleika, heldur aðstöðu til geymslu og flutninga á kartöflum innanlands. Þrátt fyrir aukna kartöfluræktun á síðari árum, hefir lítið dregið úr innfl. á útlendum kartöflum. Það er því fullkomlega þess vert að athuga, á hvern hátt við getum fengið frá íslenskum framleiðendum þær kartöflur, sem eftirspurnin heimtar. Á nokkrum undanförnum árum, sem verslunar- og búnaðarskýrslur ná yfir, hefir kartöfluuppskeran aukist ár frá ári. Eftirtalin ár var kartöfluuppskera hjer á landi þessi:

Árið 1924 24 þús. tunnur.

— 1925 34 — —

— 1926 34 — —

— 1927 42 500 —

En þessi ár var innflutningur á útlendum kartöflum þessi:

Árið 1924 20 þús. tunnur.

— 1925 23 — —

— 1926 21 300 —

Það sjest á þessum skýrslum, að þrátt fyrir aukna ræktun á kartöflum, þá stendur innflutningurinn í stað. Hvernig stendur á því, að aukin ræktun skuli ekki hafa áhrif á innflutning útlendra kartaflna og draga úr honum? Það spursmál er þungamiðja þeirrar till., sem hjer liggur fyrir til umr. Ástæðan er sú, að þeim, sem framleiða kartöflur í stórum stíl, er hjer um bil ókleift að ná til neytendanna í landinu sjálfu með vörur sínar; og skal jeg nú færa fyllri rök fyrir þessu, t. d. að því er snertir aðstöðuna austanfjalls, í Árnes- og Rangárvallasýslum, og sömuleiðis í Mýra- og Borgarfjarðarsýslum.

Jeg hefi talað við fjölda bænda, sem hafa sagt: Jeg hefi svo og svo mikið af kartöflum, sem jeg þarf ekki að nota til heimilisins, en jeg hefi engan kaupanda að þeim. Mestu vandræðin fyrir þessa menn eru þau, að geta losnað við kartöflur sínar, og aðstaðan er þannig, að þeir, sem vöruna selja í Reykjavík, hafa miklu betri aðstöðu með að fá hana frá útlöndum heldur en að kaupa sjer birgðir af bændum innanlands og festa peninga sína í þeim, því ef þeir kaupa af bændum hjer, verða þeir líka að sjá sjer fyrir góðu geymsluhúsi, sem er dýrt. En ef keypt er utanlands, þá geta þeir með hverju skipi fengið nýjar og nýjar birgðir, eftir því sem þeir þurfa, og á þann hátt losna þeir alveg við það að sjá sjer fyrir geymslu og sömuleiðis við það að binda fje í kartöflunum. En þetta verður svo ástæðan til þess, að erlendir bændur standa betur að vígi með að nota markaðinn en hjerlendir menn.

Það, sem þarf, er að koma upp góðri geymslu til þess að hafa kartöflurnar í. Og það er annað; það þarf að geta gert þessar kartöflur veðhæfar, svo að hægt sje að fá lán út á þær, til þess að þeir, sem með kartöflurnar versla, þurfi ekki að binda í þeim fje sitt. Þannig gæti íslenskur kartöflukjallari komið í staðinn fyrir útlenda kartöflusala. Þess vegna hefir okkur dottið í hug, að einfaldasta ráðið til þess að greiða fyrir þessari verslun væri það, að koma upp góðri og öruggri geymslu, ekki aðeins hjer í Reykjavík, heldur hvarvetna annarsstaðar á landinu, þar sem markaður er fyrir kartöflur, en það er í kringum kaupstaðina. Þá væri fenginn möguleiki fyrir því, að bændur gætu komið þangað með kartöflur, sem þeir hafa aflögum, og sem gætu verið þar á boðstólum, eftir því sem þörf kaupendanna krefur.

En það er allmikill annmarki á þessu, fyrir utan það að flytja vöruna á staðinn. Það er skemdahættan. Fyrst og fremst stendur það í vegi fyrir því, að kartöflurnar geti orðið veðhæfar, og þar af leiðandi er það líka töluverð áhætta fyrir menn að láta þær liggja í geymslunni. Þess vegna er það nauðsynlegt að koma upp vátryggingarsjóði fyrir innlendar kartöflur sem að allmiklu leyti stendur undir þeirri hættu, sem af því stafar að geyma kartöflurnar, og þeirri, sem stafar af því, að lánsstofnanir þora ekki að lána út á birgðirnar. Það fje, sem sjóðurinn yrði myndaður af, yrði að nokkru leyti að koma frá framleiðendunum, þannig að þeir gyldu nokkurskonar gjald í hann, en að öðru leyti mætti byggja hann upp með ákveðnum tillögum úr ríkissjóði. Okkur hefir líka dottið í hug, að ekki væri fráleitt að leggja um 2–3 ára bil toll á útlendar kartöflur, til þess að byggja hann upp með.

Við sláum engu föstu, viljum aðeins benda á þetta til athugunar fyrir hæstv. ríkisstj. Jeg skal aðeins í sambandi við þetta minnast á það, að Noregur, sem hefir miklu betri skilyrði til ræktunar heldur en Ísland, hefir kornyrkju mikla, en sem þó á örðugt uppdráttar, að minsta kosti í nyrstu hjeruðunum. En Noregur leggur svo mikla áherslu á það að verða sjálfbjarga í þessu efni, að þeir, sem rækta korn, eru styrktir af opinberu fje í landinu. Það er lagður tollur á erlent korn, og honum er varið til þess að borga með fyrir korn framleiðsluna í landinu, eftir ákveðnu kerfi. Það er því ekki út í bláinn, þótt okkur Íslendingum detti í hug að styrkja kornframleiðsluna hjer, sem verður kartöfluframleiðslan, þegar Noregur vinnur svo fyrir sína kornframleiðslu.

Við höfum ekki farið fram á eins róttækan styrk og hafður er í Noregi, en það er enginn vafi á því, að það er á ýmsan hátt mögulegt að stuðla að því, að Íslendingar verði sjálfum sjer nógir um framleiðslu á kartöflum.

Eins og jeg gat um áður, eru nú fluttar inn 20000 tn. af kartöflum árlega, og eftir því uppskerumagni, sem að jafnaði fæst úr kartöflugörðum á landinu, þá lætur nærri, að þurfi að bæta um 400 dagsláttum við kartöflugarða landsins, og jeg er ekki í nokkrum vafa um, að það, sem stendur í veginum, er ekki það, að ekki sje hægt að rækta þetta kartöflumagn, heldur hitt, að það þarf að greiða fyrir versluninni. Það, sem við þurfum að snúa okkur að, er þá það, sem felst í þessari till. til þál.

Jeg lofaði í upphafi máls míns að vera mjög stuttorður, og jeg skal enda það. — Jeg hefi reynt að setja fram í aðaldráttunum það, sem fyrir okkur vakir. Vona jeg, að hv. d. taki þessari till. með vinsemd og lofi henni að ganga sína leið til stj., til frekari athugunar hjá henni.