17.05.1929
Sameinað þing: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í D-deild Alþingistíðinda. (3715)

144. mál, gengi gjaldeyris

Jón Þorláksson:

Hv. þm. V.-Ísf. hóf nú hjer umr. um tvö frv., sem liggja fyrir Nd. Jeg veit ekki, hvort það er eiginlega rjettur vettvangur til þess, og jeg skal ekki fara langt út í það mál. En jeg verð þó að leiðrjetta þá missögn, sem hann flutti um það verðfestingarfrv., sem þeir hv. 2. þm. G.-K. og hv. þm. N.-Ísf. hafa borið fram, að það feli í sjer uppbót til einhverra manna, sem eiga innistæður, sem eru eldri en frá 1914. Þetta frv. felur ekkert slíkt í sjer, eins og hver maður getur sjeð, sem les það. Frv. felur aftur á móti hitt í sjer, að verðfesta þær kröfur, sem stofnaðar eru á lággengisárunum.

Annars lýsti hv. þm. sinni skoðun um afstöðu þingsins til þessara frv. á þann hátt, að hvort þeirra, sem kæmi til atkvæða, myndi falla. Og mjer finst sú lýsing ekki gefa neinn sjerstakan grundvöll fyrir þeim dómi, að stefna þingsins komi fram í þessum frv. Jeg held þess vegna, að hv. þm. hefði gert vel í því að halda umr. um þessa vonarpeninga fyrir utan málið, sem er á dagskrá. Það hefði máske mátt draga þá ályktun af orðum hv. þm., þó að hann segði það ekki beint, að þessir tveir stærstu flokkar þingsins, Framsóknarflokkurinn og Íhaldsflokkurinn, hefðu tekið þá afstöðu að vilja verðfesta krónuna, sem hann kallaði.

Jeg veit ekki, hvaða ákvarðanir Framsókn kann að hafa tekið. En það get jeg sagt fyrir hönd Íhaldsflokksins, að þótt tveir flokksmenn hafi flutt frv. um verðfestingu, þá hefir flokkurinn sem slíkur ekki gert það að flokksmáli á neina lund, fremur en önnur þingmál, því það er ekki vani hans.

Að því er snertir efni till., þá get jeg ekki annað sagt en að mjer finst óþarft að bera hana fram og óþarft að samþ. hana. Hv. þm. V.-Ísf. tók það rjettilega fram, að stj. vildi halda föstu gengi pappírsgjaldeyrisins. En það hafa þó verið þeir tímar, er þeir menn, sem núv. stj. skipa, vildu byrja á nýju gjaldeyrishringli, hafa viljað fella krónuna í verði. Mjer skildist, að það væru þeir nú hættir við, samkv. yfirlýsingu hv. þm. Það er góðra gjalda vert. En hin heilbrigðasta úrlausn væri sú, að þjóðin sýndi það þreklyndi, er önnur ríki, sem ekki hafa lent í styrjöldinni, hafa sýnt, að koma gjaldeyri sínum í löglegt horf. Árið 1926 urðu atvinnuvegirnir fyrir erfiðu árferði, og það dró ekki úr, að þá var nýlega um garð gengin töluverð hækkun á krónunni. Það er því ekki nema sannleikur, að atvinnuvegir landsmanna þurftu þess með að fá að njóta góðæris nokkra stund, án þess að byrðar hækkunar væru á þá lagðar. En síðan hefir staðið einmuna góðæri, og ef þjóðin væri svo djörf að hugsa þá hugsun að geta staðið jafnfætis öðrum þjóðum og hækka sinn gjaldeyri upp í löglegt horf, þá finst mjer óþarfi að ýta undir hæstv. stj. að standa á móti eðlilegri tilhneigingu þjóðarinnar. Jeg mun því láta mjer till. þessa í ljettu rúmi liggja, en tel óþarft að samþ. hana.