17.05.1929
Sameinað þing: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í D-deild Alþingistíðinda. (3716)

144. mál, gengi gjaldeyris

Jón Baldvinsson:

Á undanförnum þingum hafa svipaðar till. þessari komið fram og á síðasta þingi var samþ. till. um að skora á stj. að halda genginu föstu til næsta þings. Að því leyti er þessi till. víðtækari, að í henni er ekki sett neitt tímatakmark. Það segir sig því sjálft, að þeir, er greiddu atkv. gegn till. í fyrra, geta því síður greitt þessari atkv. sitt.

Jeg vil taka undir það með hv. 3. landsk., að það er óþarfi að ýta undir núv. stj. til þessara hluta. Hún mun hafa sömu ráð hjer eftir sem hingað til til að halda krónunni fastri. Alveg eins og hv. 3. landsk., sem játar sig þó hækkunarmann, hjelt krónunni fastri árið 1925, þegar hann var fjmrh. og hafði tækifæri til að koma henni upp í gullgildi. (LH: Við höfum aldrei haft tækifæri til að láta krónuna snögghækka). Þetta er misskilningur hjá hv. þm. Við höfðum þetta tækifæri 1925. Og hitt er líka sjálfsagt, að taka hækkunina í stórum stökkum; með því móti hefði hækkunin veruleg áhrif á verðlagið. En hitt væri kveljandi aðferð, að láta hækkunina koma í smáum skömtum. En sem stendur heldur stj., ásamt hinni makalausu gengisnefnd, þessu öllu í sínum höndum, og því algerður óþarfi að samþ. þessa till.

En það er sýnilegt, að það er komin stefnubreyt. í málinu. Hingað til hefir „Framsókn“ og eitthvað 1–2 menn úr „íhaldinu“ fylgt stýfingu. Nú segir hv. þm. V.-Ísf., að samkomulag sje fengið um meginatriðið, að halda krónunni fastri. Það sje einungis eftir að ná samkomulagi um aðferðina. (ÁÁ: Þskj. 601 sýnir það!). Það mun vera frv. þeirra hv. þm. N.-Ísf. og hv. 2. þm. G.-K. Það verður að taka trúanlegt, og má þá slá því föstu, að „Íhald“ og „Framsókn“ sjeu orðin sammála um að verðfesta krónuna, en eigi einungis eftir að koma sjer saman um smærri formsatriði. Þessu raskar ekki yfirlýsing hv. 3. landsk. um, að Íhaldið hefði ekki gert þetta að flokksmáli „fremur en önnur þingmál“, eins og hann bætti við. Því hafi flokkurinn ekki gert nein þingmál að flokksmálum, en fylgst þó að við atkvgr. eins og einn maður væri, þá má ganga út frá því sem gefnu, að samkomulag sje um málið innan flokksins. En jeg veit þá ekki, eftir hverju verið er að bíða. Hvað þýðir að vera að gutla við þessa þáltill.? Hví ekki að ljúka gengismálinu af í snatri? Það má afgreiða þetta á nokkrum mínútum. Það er ekki lengi gert að halda 6 fundi og afgreiða það með afbrigðum. Flokkarnir hafa nægilegt bolmagn til þessa, ef þeir treysta málstaðnum.

Það er því rjett að slá því föstu, að Íhaldið stefnir ekki lengur að því að koma krónunni í gullgildi. Það var heppilegt að fá upplýsingar um þau stefnuskifti nú. Hv. þm. V.-Ísf. lýsti yfir samkomulagi með stóru flokkunum um meginatriðið, og því hefir ekki verið beint mótmælt af hv. 3. landsk.

En jafnaðarmenn munu eftir sem áður greiða atkv. gegn till. á þskj. 643.