17.05.1929
Sameinað þing: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í D-deild Alþingistíðinda. (3719)

144. mál, gengi gjaldeyris

Jón Þorláksson:

Það hefir verið talað um það, a. m. k. af 2 ræðumönnum, að samkomulag væri fengið um þetta mál milli Framsóknar og meiri hl. Íhaldsins. Jeg veit nú ekkert um það, en mjer finst það bera þess ljósan vott, að ekki sje neitt samkomulag fengið, þar sem komið hafa fram í hv. Nd. 2 frv. þessu viðvíkjandi, er farið hafa hvort í sína átt. Hv. þm. V.-Ísf. þreytist ekki á því að taka það fram, að 2. gr. feli í sjer samkomulag um tvö atriði. En í mínum augum er þetta ekki stærsta atriðið. Fyrir mjer er aðalatriðið það, að lággengistímabilið endi ekki á annan hátt en þann, að við fáum okkar gamla gjaldeyri. Það er samkomulag milli mín og hv. 4. landsk., en það er ekkert samkomulag milli mín og hv. þm. V.-Ísf. um það, sem í mínum augum er aðalatriðið í þessu máli. Það má vera, að hægt sje að ná því takmarki, sem jeg stefni að, á einhvern annan hátt en jeg vil, en aðalatriðið fyrir mjer er, að því takmarki verði náð, hvaða leið sem farin verður. Það er á valdi hv. þm. V.-Ísf. og Framsóknar, hvort hægt er að ná því marki með þeirri leið, er þáltill. fer fram á. Jeg játa, að hægt er að ná aftur til gullgildis krónunnar, þó að pappírskrónunni sje haldið fastri eins og þáltill. fer fram á. En jeg vil ekki binda mig við hana meðan jeg veit ekki, hvort samkomulag fæst við þá, er að henni standa, um það, sem jeg tel aðalatriðið, nefnil. að halda hinni löglegu mynt í landinu.

Þar sem hv. þm. V.-Ísf. taldi það vott um breyt. á hugarfari mínu, að eg læt mjer í ljettu rúmi liggja, hvort þessi till. verður samþ. eða ekki, vil jeg geta þess, að hann getur engin rök fært að því, vegna þess að á síðastl. þingi, er svipuð þáltill. var til umr. og atkvgr., þá sat jeg alveg hjá. Þessi till. þarf heldur ekki að fela í sjer neitt það, er jeg tel aðalatriði gengismálsins.