04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

8. mál, lendingar- og leiðarmerki

Hákon Kristófersson:

Hv. frsm. hefir misskilið orð mín, þótt ekki væru þau mörg. Það, sem fyrir mjer vakir, er það, að úr því að hreppsnefndum er gert að halda við þessum merkjum, svo framt að um neyðarlending sje að ræða, þá geti farið svo, að einhver hreppsnefnd segi sem svo: þar sem útræði hefir lagst þarna niður, er ekki heldur um neyðarlendingu að ræða, — og telur því ekki skylt að viðhalda leiðarmerkjunum.

En jeg vil ekki, að neinn geti hliðrað sjer hjá því að viðhalda öllum þeim leiðarmerkjum, sem áður hafa þekst. (SÁÓ: Þetta felst alt í frv.). Nei, eða þá að það er svo torskilið, að jeg fæ ekki gripið það.

Hv. frsm. má ekki skilja orð mín svo, að jeg sje að sýna frv. nokkra andúð. Það er síður en svo. Sje meiningin að setja lög um þetta efni, þá vil jeg gera þau svo úr garði, að nokkurn veginn örugt sje, hvar lendingarnar eru, og að hreppnum eða öðrum hlutaðeigendum beri skylda til að hafa leiðarmerkin svo mörg og glögg sem kostur er.

Annars ætla jeg ekki að fjölyrða um þetta frekar, en vildi aðeins skjóta þessu fram hv. sjútvn. til athugunar. (SÁÓ: Það verður athugað til 3. umr.).