17.05.1929
Sameinað þing: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í D-deild Alþingistíðinda. (3720)

144. mál, gengi gjaldeyris

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. 3. landsk. ljet svo um mælt, að þessi till. um að halda genginu föstu þyrfti ekki að fela neitt það í sjer, er hann teldi aðalatriði gengismálsins. Þetta hljóðaði nú nokkuð öðruvísi hjá honum fyrir nokkrum árum. Hans stefna hefir til þessa verið að fá aftur gömlu krónuna með gengishækkun. Hitt er aftur á móti ný stefna í gengismálinu, að fá gömlu krónuna aftur með því að taka upp nýja mynteining, þó jafngild sje gömlu krónunni, og umreikna allar núgildandi skuldbindingar.

Á síðasta þingi var rætt um meginatriði gengismálsins, hvort hækka skyldi krónuna eða festa hana. Nú er ekki lengur deilt um það, heldur aðeins hvaða leið skuli fara, hvort heldur skuli gert, að breyta myntlögum eða taka upp nýja mynt og umreikna alt til hennar. Nú er það upplýst af mjer og hv. 1. þm. N.-M., að sú leið, að umreikna núgildandi gjaldeyri til annars nýs, er í fullu samræmi við stefnu okkar í þessu máli, svona í öllum aðalatriðum. Kjarni málsins er fyrir okkur aðalatriðið, en ekki hvert formið verður. Það er síður en svo, að jeg vilji á nokkurn hátt áfellast þá, er hafa nú snúið frá villu síns vegar og horfið frá hækkun til festingar. Hækkunarrökin þverra stöðugt, og öll líkindi eru til þess, að það gengi, sem nú hefir gilt svo lengi, standi framvegis óhaggað.

Það er rjett hjá hv. þm. Dal., að hækkunarstefna hans er vonlaus, og jeg get ekki huggað hann með því, að forsjónin muni taka svo í taumana, að honum auðnist að leiða stefnu sína til sigurs. (SE: Forsjónin tekur oft í taumana, þegar menn gera mestu vitleysurnar). Forsjónin er ekki í gengisnefndinni. (SE: Það er rjett). Jeg skal skýra þetta ofurlítið fyrir hv. þm. Dal. Forsjónin ræður því, hvort mikið eða lítið aflast. En hún ræður því ekki, hvort gengið hækkar eða stendur í stað. Allir, sem þekkja grundvallaratriði gengisskráningarinnar, vita, að það er undir hinum ráðandi stjórnarvöldum komið, hvaða gengi er skráð, — nema þegar lítill afli, lágt verð og þverrandi lánstraust neyðir til lækkunar. Allar vonir um það, að forsjónin komi og setji gengisnefndinni stólinn fyrir dyrnar og neyði hana til þess að hækka gengið, eru tálvonir, bygðar á vanþekkingu. Og vonir hv. þm. Dal. um, að þingið muni kippa krónunni upp í gullgildi, eru sálaðar. Það kemur skýrt fram í nál. hans, að honum er þetta sjálfum fullljóst. Bæði hann og hv. 4. landsk. hafa viðurkent þetta og talað af meira hispursleysi um þetta heldur en hv. 3. landsk. gerir. Honum veltir allörðugt að viðurkenna það, að hin eldri stefna hans í þessu máli á sjer ekki viðreisnar von. Gengismálið verður úr þessu ekki leyst á neinn annan hátt en annaðhvort með myntlagabreytingu eða með nýrri mynt og umreiknun. Þessu verður ekki á móti mælt.