17.05.1929
Sameinað þing: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í D-deild Alþingistíðinda. (3724)

144. mál, gengi gjaldeyris

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Mjer skildist svo, sem hv. þm. Dal. væri að kvíða því, að hjer kæmi nú góðæri, því það mundi hleypa krónunni upp. Ef svo fer, vil jeg vona, að við sjáum hv. þm. Dal. eins hugrakkan nú eins og hann var 1925. Þá þorði hann að halda genginu óbreyttu, þó ekki fengi hann því ráðið, þrátt fyrir hið mesta góðæri og vaxandi innieignir bankanna erlendis, og þá þorði hann að láta banka þann, er hann stýrir, kaupa sterlingspund, þótt hann hefði ekki útgáfu toppseðlanna með höndum og ekkert öryggi gegn truflunum, hvorki af hálfu Landsbankans nje þáverandi landsstjórnar. Með þessu hefir hv. þm Dal. sýnt svo mikið hugrekki, að þótt við gengisnefndarmenn hefðum ekki til að bera nema 1% af hugrekki hans, þá gætum við þó verið öruggir um, að ekki muni koma truflanir á krónuna af völdum góðæris, því nú stendur bæði landsstjórnin og meiri hl. beggja bankastjórna bak við festingarpólitík gengisnefndar — auk þess þingvilja, sem bráðlega mun koma í ljós.