18.05.1929
Efri deild: 74. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í D-deild Alþingistíðinda. (3733)

142. mál, dýralæknissetur í Vestfirðingafjórðungi

Ingvar Pálmason:

Jeg geri ráð fyrir því, að nokkrar ástæður liggi að baki þessarar þáltill. En það er auðsjeð, að hjer er litið tvennum augum á málið. Reyndar geri jeg ráð fyrir, að stj. geri í þessu máli sem öðrum það eitt, sem hún telur heppilegast fyrir viðkomandi hjeruð. Jeg hefi ekki heyrt aðrar ástæður fyrir till. en þær, að læknirinn væri betur settur í Stykkishólmi en í Borgarnesi. Nú hefir hæstv. dómsmrh. fært allmikil rök að því, að svo er ekki. Mig brestur kunnugleika til þessa máls, en jeg tel það vandkvæðum bundið fyrir þingið að ráða þessar till. til lykta með því að fella hana eða samþ., því að hvorttveggja myndi vera skilið sem yfirlýsing af þingsins hálfu um, að það teldi annan staðinn betur fallinn til þess að vera dýralæknissetur en hinn. Við þetta væri nú í sjálfu sjer ekkert að athuga, ef þessi úrskurður þingsins væri bygður á fullkominni þekkingu á öllum staðháttum. Jeg tel óráð hið mesta, að þingið taki þegar ákveðna afstöðu til málsins, að ekki meir könnuðu máli. Vildi jeg leggja til, að það væri látið bíða betri athugunar. Leyfi jeg mjer því að leggja til, að málinu sje vísað til ríkisstj. Þess má og geta, að fleiri staðir geta komið til greina en Stykkishólmur eða Borgarnes.