16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í D-deild Alþingistíðinda. (3740)

100. mál, rýmkun landhelginnar

Ólafur Thors:

Jeg ætla ekki að lengja umr. um þetta mál. Aðeins vildi jeg benda á það, að jeg álít, að besta leiðin til þess að ná því marki, sem felst í þessari till., sje sú, að við einbeitum kröftum okkar og málaumleitunum í hvert skifti að tilteknu svæði. Þessi till. er þess efnis, að farið verði fram á að fá landhelgina alla rýmkaða, en jeg þori hiklaust að fullyrða, að eins og nú stendur á er slíkt algerlega vonlaust. Þess vegna held jeg, að best sje að byrja með því að fá samþ. hlutaðeigandi þjóða til þess að loka vissum svæðum. En vitanlega er sú leið jafnt fær fyrir því, þó þessi till. sje samþ. Jeg vildi aðeins gefa þeirri stj., er með þetta fer, bendingu um, hvað heppilegast muni vera að gera í þessu máli, þegar til framkvæmda kemur. Annars get jeg aðhylst margt af því, er hv. flm. sagði um nauðsyn þess að friða fiskimiðin. Sje jeg svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta.