16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (3743)

100. mál, rýmkun landhelginnar

Flm. (Pjetur Ottesen*):

*) Ræðuhandr. óyfirlesið. Jeg þakka hv. þm. fyrir góðar undirtektir í þessu máli. Út af þeim orðum hv. 2. þm. G.-K., að heppilegra mundi, til að fá góða úrlausn málsins, að snúa sjer að einu ákveðnu atriði, t. d. að fá einhvern einn flóa eða fjörð friðaðan, skal jeg geta þess, að það getur vel verið, að það sje líklega til árangurs, en þó að till. sje ef til vill ekki orðuð nákvæmlega eins vakir fyrir hv. 2. þm. G.-K., er tilgangur hennar sá, að alt verði tekið til greina, sem líklegt er að geti leitt til árangurs í þessu efni, þó að upphaflega takmarkið náist ekki til fulls. Þetta held jeg, að hljóti að verða tekið til athugunar af þeim, sem reka þetta mál af hálfu íslenskra stjórnarvalda. Jeg er alveg samþykkur hv. 2. þm. G.-K. um það, að það er ómetanlegur vinningur fyrir okkur að fá t. d. einn fjörð eða flóa friðaðan til að byrja með.

Út af orðum hv. 1. þm. S.-M. um þjóðabandalagið og það, að sendiför þess manns, sem þangað fór síðastl. sumar, hafi gefið okkur góðar vonir í þessu efni, vil jeg geta þess, að jeg hefi lesið skýrsluna og sje ekki neitt í henni, sem beinlínis gefi okkur vonir. Jeg get ekkert sjeð annað en að sendimaðurinn hefir lagt fram álitsskjal um, hve þetta sje mikið nauðsynjamál, og skýrt frá því, að þjóðabandalagið hafi einmitt tekið landhelgisgæslumálin alment til meðferðar. En að nokkuð hafi komið fram, sem beinlínis snertir okkar kröfu, hefi jeg ekki getað fundið. Sendimaðurinn bendir til dæmis á, hvort það hefði ekki þýðingu, að við ættum fulltrúa í bandalaginu, og jeg get vel fallist á, að svo sje. Að íslenska stj. snúi sjer til þjóðabandalagsins, er eins opið fyrir og hitt, að reynt sje að flytja málið á öðrum og þrengra grundvelli en í till. felst, eins og hv. 2. þm. G.-K. benti á.

Þó að hæstv. stj. hafi ekki haft svo mikið við þessa till. að láta sitt blíða auglit skína hjer í d., verð jeg að lýsa yfir því, að jeg ætlast til, að stj. landsins verði aldrei falin þeim mönnum sem ekki bera það skyn á þetta mál, að þeir búi það svo vel í hendur þeirra, sem eiga að flytja það, að ekki geti staðið fleiri leiðir opnar en í till. felast. Ef á að fela dönsku stjórnarvöldunum þetta mál, þá þarf þeim að auðnast meiri og betri skilningur á nauðsyn þess en þau hafa sýnt hingað til. Mjer hefir borist í hendur útdráttur úr blaðinu Köbenhavn, þar sem talað er um, að landhelgismálin sjeu til umr. á Englandi nú. Út frá því er talað um landhelgismál Íslands, og blaðið snýr sjer til fiskiveiðaráðuneytisins danska, og ráðherrann hefir þau ummæli, að hjer á Íslandi sjeu við og við að gjósa upp hjáróma raddir út af þessu máli. Þetta er skilningur manns, sem sannarlega ætti að vita betur, á þessari þjóðarnauðsyn okkar, að reka rjettar okkar í landhelgismálunum. Þetta vil jeg taka skýrt fram til aðvörunar fyrir íslensku ríkisstj., að því leyti, sem hún notar danska milligöngu í landhelgismálunum.