16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í D-deild Alþingistíðinda. (3744)

100. mál, rýmkun landhelginnar

Ólafur Thors:

Jeg vissi, að jeg þarf í engu að leiðbeina hv. þm. Borgf. í þessu máli, heldur þeim, sem stjórna framkvæmdahlið þess, nefnilega ríkisstj., og enda þótt hæstv. stj. hafi ekki sýnt málinu þá virðingu að vera viðstödd umr., ætla jeg að gera ráð fyrir, að ráðherrarnir lesi það, sem um þetta mál kemur í þingtíðindunum.

Jeg þakka hv. flm. fyrir, að hann áleit leiðbeiningar mínar rjettar. Ef við bærum fram ósk um að friða alla firði landsins, mundi það láta illa í eyrum útlendinga, sem hlut eiga að máli, og því síður er ástæða til slíkrar kröfu, sem víst er, að við hefðum lítið gagn af því, þó að stór svæði, sem þar heyra undir, yrðu friðuð, en hinsvegar er hin mesta nauðsyn að friða önnur svæði. Það er rjett að bera þetta mál fram í því formi, sem hv. þm. Borgf. hefir borið það fram í, því að það er gott og hentugt fyrir ríkisstj. að hafa slíkt á bak við sig. En auk þess þurfa þessu máli ókunnugir menn, svo sem skipstjórar, að fá leiðbeiningar frá sjer fróðari mönnum um það, hvað sjerstaklega ber að leggja áherslu á, þegar til samninga kæmi, og hverju svo aftur mætti slá af.

Í tilefni af því, sem hv. þm. Borgf. sagði um Dani og skilning þeirra á landhelgismálum okkar, skal jeg taka það fram, að það er ekki annað eða verra en það, sem við höfum átt að venjast, og er alveg eðlileg afleiðing af því að fela annari þjóð málefni sín. Að sjálfsögðu verða Íslendingar að vera einráðir um skipun landhelgismála sinna. Við gœtum látið sendiherra okkar eða annan fulltrúa Íslendinga fara með málið á rjettan vettvang. Það er hin eðlilega meðferð málsins.