18.05.1929
Neðri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (3760)

145. mál, landpóstferðir

Jón Sigurðsson*):

*) Ræðuhandr. óyfirlesið. Jeg get tekið undir það, sem hv. fhn. sagði um sanngirni þessarar þáltill., en þar sem hann beindi aths. sínum aðallega að viðhorfinu í Dalasýslu, vil jeg beina hugum manna að okkur Norðlendingum. Jeg hugsa, að það sjeu ekki mörg mál, sem Norðlendingar, að minsta kosti Húnvetningar og Skagfirðingar, hugsa meira um en þessi samgöngumál, beint samband við Borgarnes. En það á ekki eingöngu að vera um fólksflutninga að ræða. Það er draumur, sem altaf er að færast nær virkileikanum, að hægt verði að halda uppi reglulegum ferðum milli þessara tveggja landsfjórðunga, og þegar snjóar hindra bílferðir yfir Holtavörðuheiði, gera menn ráð fyrir, að þeir, sem halda þar uppi gistihúsi, verði líka að leiðbeina ferðamönnum yfir heiðina, eins og gert er til dæmis í Noregi. Að mínu viti á að keppa að þessu takmarki með aukinni vegagerð, sem nú er lagt meira og meira fje til á ári hverju. Það er stórt spor aftur á bak, ef á að kippa burtu landpóstferðum. Póstferðirnar eru mikill styrkur til að fá fastar bílferðir, eins og er hjer á Suðurlandi. Og það má nærri geta, að Norðlendingar mundu sakna þess, ef engar póstferðir væru á vetrum. Þessar og fleiri ástæður mætti nefna, og vænti jeg, að þær vegi það mikið, að stj. geri ekki slíkar gagngerðar breyt., sem eru á móti vilja fjölda manna, fyr en hún hefir borið þetta mál undir sýslunefndirnar og samgmn. Alþingis.