07.05.1929
Sameinað þing: 4. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í D-deild Alþingistíðinda. (3768)

35. mál, einkasala á steinolíu

Þorleifur Jónsson*):

*) Ræðuhandr. óyfirlesið. Jeg ætla ekki neitt að fara út í ræðu hv. flm. og skal ekki að neinu leyti fara að mótmæla henni. Og jeg skal játa það, að jeg álít, að það hafi verið stigið skakt spor á þinginu 1925, þegar ákveðið var að leggja niður einkasölu á steinolíu. Þá var hún nokkurn veginn komin á laggirnar. Það er svo fyrstu árin eftir að byrjað er á slíkum fyrirtækjum fyrir ríkisheildina, að maður má ekki búast við óskaplegum gróða. Það er margt til fyrirstöðu, að slík fyrirtæki geti sýnt sig á mjög skömmum tíma. Jeg fyrir mitt leyti lít svo á, að það hafi ekki verið liðinn svo langur tími frá því einkasala á steinolíu var upp tekin og þangað til henni var lokið, að hægt sje að segja um það, hve miklu hún hefði getað áorkað, ef hún hefði mátt halda áfram um lengri tíma.

Nú hefir afleiðingin af því að leggja niður einkasölu ríkisins orðið sú, að það hafa a. m. k. tvö stór erlend fjelög fengið tækifæri til að hreiðra vel um sig hjer á landi. Þau hafa bygt hjer stóra geyma og kostað ærnu fje til þess að geta haft á hendi olíusöluna. Og jeg skal alls ekki lá þeim mönnum, sem óar við því, að þessi útlendu olíufjelög geti orðið einvöld hjer til eilífðar. En það er svo fyrir þakkandi, að við höfum lög um þessi mál, sem standa í fullu gildi; Það eru lögin um einkasölu á steinolíu frá 7. nóv. 1917. Þau er hægt að nota hvenær sem svo horfir við. Samkv. þeim lögum var framkvœmd einkasala af ríkinu í þrjú ár. 10. febr. 1923 gefur stj. aðeins út auglýsingu um það, að nú taki ríkið í sínar hendur einkasölu á steinolíu samkv. 1. frá 1917. Eins og hv. flm. tók fram, var hjer áður eitt útlent fjelag, sem hafði gengið svo hart að landsmönnum hvað verðlag og okur snertir, að ekki þótti lengur sæma að una við það, og þess vegna tók stj. til þessa ráðs. Eins og menn vita, varð sú stj. ráðandi á þingi 1925, sem mótfallin var slíkum einkasölum. Meirihl.flokkurinn og stj. rjeðu þá niðurlögum einkasölu ríkisins, sem var nýkomin á. Maður hefði nú getað væntst þess af hinni marglofuðu frjálsu samkepni, að hún bæri blessunarríka ávexti og ekki mundi rísa óánægja út af henni á ný. En það getur náttúrlega farið svo, eins og hv. flm. tók fram, að þessum fjelögum komi ekki saman um annað en það að selja olíu með háu verði. En jeg hefi satt að segja ekki heyrt kvartað um það, að olíuverðið sje geipilegt.

Jeg lít svo á, að ekki sje nægur undirbúningur til þess að taka olíuverslunina í ríkisins hendur. Enda sje jeg ekki betur en stj. hafi það ætíð í sinni hendi á hverjum tíma sem er að taka þessa einkasölu að sjer aftur, ef sjeð verður, að fjelögin ætla að beita landsmenn einhverjum þrælatökum. Þá álít jeg sjálfsagt, að ríkisstj. noti sjer einkasölulögin. Jeg er og þess fullviss, að sú stj., sem nú situr, er fús til þess að taka upp einkasölu, ef olíufjelögin sýna sig í að íþyngja landsmönnum með alt of háu verði, eða þau reyni að ná óeðlilegum samböndum, eins og hv. flm. tók fram, að komið gæti fyrir, nefnil. að þau skuldbindi útgerðarmenn til þess að versla við sig.

En sem sagt álít jeg ekki þörf á þáltill. um þetta mál. Bæði vegna þess, að við höfum heimildarlög frá 1917 og við höfum þá stj. ríkjandi hjer í landi, sem er þess albúin að taka í sínar hendur einkasölu, ef útlit verður fyrir, að fjelögin ætli að íþyngja landsmönnum alt of mikið. Heimildarlögin eru hangandi sverð yfir olíufjelögunum. Þau eru vopn, sem stj. getur hæglega gripið til. Og jeg er alls ekki hræddur um, að stj. muni ekki nota sjer þau, ef í harðbakka slær og olíufjelögin ætla að okra og neyða menn til viðskifta við sig.

Af því að jeg álít ekki þörf á þáltill. í þessu máli, vil jeg leyfa mjer að bera fram till. til rökst. dagskrár, sem jeg leyfi mjer að lesa hjer upp:

Með því að ríkisstjórnin getur hvenær sem er gripið til heimildarlaganna frá 1917 um verslun steinolíu, og í trausti þess, að stjórnin hafi nánar gætur á því, að landsmönnum verði ekki íþyngt af olíukaupmönnum, tekur þingið fyrir næsta mál á dagskrá.