07.05.1929
Sameinað þing: 4. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í D-deild Alþingistíðinda. (3769)

35. mál, einkasala á steinolíu

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Það er að sjálfsögðu altaf gott að fá nokkurn veginn greinileg svör við því, sem maður spyr um. Og þó að ekki verði sagt, að svarið, sem hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) greiddi hjer við spurningu minni, væri greinilegt, þá má þó nokkurn veginn komast að meiningunni, og sennilega talar hann í umboði síns flokks. Hann telur ekki ástandið þannig, að ástæða sje til að neyta heimildarlaganna, m. ö. o. flokkurinn vill ekki að heimildarlaganna verði neytt og upp tekin ríkiseinkasala á olíunni. — Svo skil jeg svar hans. Það var alveg óþarfi af þessum hv. þm. að skýra frá því, að heimildarlög væru til um þetta efni.

Ef hann hefir lesið till., þá hlýtur hann að hafa sjeð, að við vissum það fullvel, því að þar stendur:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að neyta heimildarlaga nr. 77, 14 nóv. 1917 ...“.

Okkur flm. var því ljóst, að lögin voru til, enda gat jeg þess ósjaldan í fyrri ræðu minni.

Hv. þm. viðurkendi, að það hefði verið misráðið að leggja einkasöluna niður 1925. Þetta undrar mig ekki. Jeg hefi hjer fyrir framan mig ræðu flokksbróður hans, hv. 1. þm. S.-M., sem jeg skal lesa eina setningu úr, með leyfi hæstv. forseta:

„Jeg vil yfirleitt vona, að flestir eða allir hv. þm. sjeu fyrir löngu búnir að gera sjer ljóst, hvílíkt nytjafyrirtæki Landsverslunin er og hvílík fásinna er að leggja hana niður“.

Þetta er af handahófi tekið. Margir flokksmenn hans tóku miklu dýpra í árinni. Var yfirleitt ekki á annan hátt unt að skilja orð þeirra og athafnir en að þeir teldu einkasöluna sannarlegt „nytjafyrirtæki“.

En nú bregður svo undarlegu við, að eftir að Framsókn er tekin við völdum og nýtur stuðnings frá flokki, sem fylgir málinu fast og eindregið, þá er þess ekki lengur minst af framsóknarmönnum, hvílíkt „nytjafyrirtæki“ einkasalan var.

Hv. þm. A.-Sk. gat þess rjettilega, að einkasalan væri nýlega lögð niður. En er núverandi stjórn tók við völdum var hún ekki hætt störfum. Og ef þáltill. sú, sem við jafnaðarmenn bárum fram í fyrra um sama efni, hefði verið samþ., þá hefði Landsverslun getað starfað alveg óslitið. En þó nú þetta eina ár komi inn á milli, þá verður þó miklu auðveldara að byrja nú heldur en árið 1923, er einkasalan var upp tekin.

Hv. þm. A.-Sk. tók svo til orða — og það er ekkert nýtt, slík orðatiltæki hafa svo sem oft heyrst áður — að „heimildarlögin hjengju sem sverð yfir höfði olíufjelaganna“. „Það er vopnið, sem við getum beitt á fjelögin“, sagði hv. þm., og í trausti þess, að stjórnin ógni þeim með því, vill hann vísa málinu frá.

Jeg vil því spyrja hæstv. atvmrh., hvort hann álíti að ástæða sje til að neyta heimildarlaganna. Ef svo er og hann lýsir yfir, að hann muni neyta þeirra, þá get jeg tekið till. aftur. Jafnframt vil jeg beina til hans þeirri spurningu, hvort hann hafi ekki kynt sjer olíuverð hjer á landi samanborið við olíuverð annarsstaðar í heiminum. Hvort hann hafi nokkra hugmynd um, hvað fjelögin skamta sjer mikla álagningu. Það er ekki til neins að hafa heimildarlög, ef ekki er litið eftir, hvort olíufjelögin skattleggja landsmenn úr hófi fram, hvort ástæða er til að neyta þeirra. Jeg hefi bent á þá möguleika, sem fjelögin hafi til þess að skamta sjer geysigróða án þess að þurfa að óttast samkepni annarsstaðar að. Jeg er þess fullviss, að þau nota sjer þessa aðstöðu. Forsætisráðherrann hæstv. hefði löngu átt að vera búinn að láta rannsaka þetta atriði. Við þessa rannsókn dugir ekki að líta eingöngu á það, hvort fjelögin græði óhæfilega mikið. Stofnkostnaður þeirra allra er margfaldur á við það, sem þarf að liggja í olíuversluninni, eins og jeg hefi sýnt fram á. Við það á að miða, en ekki það stofnfje, sem að óþörfu er bundið í fyrirtækjunum. Það er heldur ekki nóg að bera verðið saman við verðlag hjá hinum sömu fjelögum í nágrannalöndunum. Það verður einnig að bera það saman við verð á olíu, sem seld er utan við þessi fjelög, t. d. olíu rússneska olíuhringsins. Hann hefir selt olíu sömu gæða við lægra verði nokkur undanfarin ár víða um lönd. Og sala hans eykst ár frá ári. Sagt er, að hann hafi vakið svo ugg og ótta hjá fjelögunum á Englandi, að þau hafi tekið þann kost að kaupa hann út. Þau hafi sjálf keypt af honum meira af olíu en hann hafði líkur til að geta selt, og selji hana svo sjálf, til að losna við samkeppni hans. Við rússneska hringinn skiftir spánska ríkiseinkasalan að miklu leyti.

Alt þetta hlýtur að falla undir þá rannsókn, sem stjórnin verður að fremja. En jeg get þó sagt fyrir mitt leyti, að jeg álít slíkrar rannsóknar ekki þörf. Því það liggur í hlutarins eðli, að fjelögin hafa hjer aðstöðu til að græða. Og auðvitað nota þau þessa aðstöðu til hins ýtrasta. Mikið meiri kostnaður en með þarf er við rentur olíuverslunarinnar. Það verða landsmenn að borga í viðbót við gróða fjelaganna. — Auðvitað hugsa fjelögin um það eitt, að hafa sem mestan arð af fje sínu hjer. En þann arð hljóta þau að taka af landsmönnum. Væri hann áreiðanlega betur kominn í þeirra vasa.