18.05.1929
Efri deild: 76. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (3786)

148. mál, skólasjóður Herdísar Benediktsen

Jón Þorláksson:

Það er eins og vant er, að þegar hæstv. ráðh. á að verja sig og sínar gerðir, reynir hann altaf að leiða athyglina frá sjer og að öðrum, en svo er hann illa að sjer, að hann virðist ekki vita, að konungleg tilsk. er eins bindandi og gildandi landslög, og er hann brýtur slíka tilsk., er það hið sama og að hann brjóti lögin. (Dómsmrh.: Það hefir engin konungleg tilsk. verið brotin, nema þá helst af Jóni heitnum Magnússyni). Jón Magnússon gerði sig aldrei sekan í slíku, því að það var ekki hann, sem tók Herdísarsjóðinn til afnota, en þar sem nú er farið til þess, verður að fullnægja því ákvæði, sem krefur samþykki sýslunefnda, og mjer virðist hæstv. ráðh. haga sjer mjög óviturlega, er hann neitar að gera þetta. Einkanlega ætti hann að finna hvöt hjá sjer til þess, þegar ný ástæða er komin fram, nefnil. sú, að skólinn nýtur annarar gjafar, ef samþykki sýslunefnda fæst.

Þá vildi hæstv. ráðh. halda því fram, að verið væri að gera Jón heit. Magnússon ómerkan gerða sinna, en það er auðvitað hin mesta fásinna, því að hjer er ekki farið fram á annað en að núv. stj. fylgi lögunum. Jeg get ekki skilið, að stj. þurfi að taka það illa upp, þótt henni sje lögð sú skylda á herðar að hlýða lögunum eins og öðrum.

Þá sagði hæstv. ráðh., að sýslunefndir væru ekki nefndar í gjafabrjefinu. Það er auðvitað alveg rjett, en stj. og stjórnarráð eru ekki heldur nefnd þar, enda hefði hann mátt vita, að eins og t. d. ráðh. kom í stað landshöfðingja, eins komu sýslunefndir í stað amtsráðs. Annars er leiðinlegt að þurfa að eyða orðum að öðru eins og þessu, því að það ætti öllum að vera ljóst.