18.05.1929
Efri deild: 76. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í D-deild Alþingistíðinda. (3789)

148. mál, skólasjóður Herdísar Benediktsen

Ingvar Pálmason*):

*) Ræðuhandr. óyfirlesið. Jeg veit ekki, hvort hv. 2. landsk. skilur sig sjálfur, en það eitt er víst, að jeg fæ ekki skilið, við hvað hann á. Mjer skilst, að hann vilji ekki láta taka endanlega ákvörðun um, hvar skólinn skuli standa, fyr en samþykkis sýslunefnda hefir verið leitað. Ef svo er, þá á þessi dagskrá fyllilega við, en ef það er eitthvað annað, sem hv. þm. á við, þá getur það verið rjett hjá honum, að dagskráin eigi ekki við. Jeg hygg, að það megi líta svo á, að með samningum hafi verið ákveðið, að skólinn skyldi standa á Staðarfelli, en það má vel vera, að það sje ekki endanleg ákvörðun. Ef Alþingi vill hinsvegar taka aðra ákvörðun, verður það að gera það, en það verður ekki gert með þáltill. um að bera það undir þennan og þennan. Ef Herdísarskólinn verður ekki látinn vera á Staðarfelli, þá verður gjöfin tekin aftur, en jeg lít þannig á, að með því að gera þennan samning við Staðarfellshjónin hafi sjóðnum verið ráðstafað. Ef hv. þm. segir svo, að þessi dagskrá komi málinu ekki við, þá skil jeg ekki, hvert hann er að fara.