11.05.1929
Efri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í D-deild Alþingistíðinda. (3799)

137. mál, rannsókn brúarstæðis á Lagarfljóti

Flm. (Páll Hermannsson):

Mjer þykir gott að heyra, að það liggja fyrir meiri upplýsingar en jeg hafði búist við. Hinsvegar verð jeg að segja það, að jeg óska samt sem áður eftir enn ákveðnari rannsóknum um þetta atriði en fyrir liggja nú. Jeg efast ekki um, að mælingar og kostnaðaráætlun verksins hafi verið gerð að fengnum nægum upplýsingum, enda þótt mjer þyki einkennilegt, að jeg skyldi ekkert um þetta vita. Jeg átti einmitt tal við þann mann, sem að þessu hefir unnið, Hannes verkfræðing Arnórsson, og veit um það, að hann hafði ekki aðstöðu til að gera nægilegar mælingar; hann komst aldrei yfir fljótið, heldur fór aðeins meðfram því annarsvegar. Líka væri það æskilegt, að verkfræðingur ákvæði, hvar brúin yrði sett, og þá með hliðsjón af því, hvar hún yrði best sett fyrir umferð alla og vegalagningar. Það vill stundum verða svo, að sjeu hlutaðeigendur látnir einráðir um slíkt, þá hlýtst af því óheppilegur reipdráttur.

Sem sagt: Jeg tel það gott, að þessar upplýsingar skuli liggja fyrir, en tel þó æskilegt, að þáltill. verði samþ.