17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í D-deild Alþingistíðinda. (3808)

134. mál, Borgarnesbátur

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg hygg, að það sje varla rjett leið, sem hv. þm. Mýr. var að benda á hjer. Þegar till. um strandferðaskipið var hjer á ferðinni, þá var mjög um það deilt, hvort ætti að leggja út í að byggja nýtt strandferðaskip, eða leggja meiri áherslu á vegina. En það varð úr að samþykkja áskorun til stjórnarinnar um að athuga um byggingu á nýju strandferðaskipi. Jeg álít, að það sje vafaatriði, hvort á að leggja meiri áherslu á að bæta samgöngurnar yfirleitt á sjó eða landi og færi eftir því um hvaða landshluta er að ræða. Jeg veit þó, að í nágrenni Reykjavíkur eru allar óskir almennings í þá átt, að leggja sem mesta áherslu á vegalagningar, og sjerstaklega er það óhjákvæmileg nauðsyn fyrir Sunnlendinga að fá vegasamband við Borgarfjörð og þar með Norðurland. Það er enginn vafi á því, að undir eins og komið er bifreiðasamband milli Reykjavíkur og Borgarness, þá verða þeir harla fáir, sem fara sjóleiðina upp í Borgarnes. Ýmiskonar varningur verður líka fluttur með bifreiðum þessa leið milli Reykjavíkur og uppsveitanna í Borgarfirði. En þótt mönnum þyki sjóferðin styttri, þá er það samt svo, að bifreiðarnar flytja fólkið alla leið á sinn stað, þangað sem ferðinni er heitið, í stað þess að ef það er flutt

sjóleiðina til Borgarness, þarf að koma bæði fólki og farangri aftur fyrir á bifreiðum. Nú er kominn bílfær vegur úr Borgarnesi suður í Hvalfjörð og úr Reykjavík til Hvalfjarðar, svo að ekki er annað eftir en að koma á bifreiðaferju yfir fjörðinn. Að vísu er þessi vegur yfir Dragháls ekki vetrarvegur, en hægt mun vera að fá góðan vetrarveg yfir Leirársveitina og fram með Hafnarfjalli upp í Borgarfjörð.

Hv. þm. Mýr. benti rjettilega á það, að þegar höfn væri komin í Borgarnesi myndu allar þungavörur verða fluttar beint frá útlöndum þangað. En það er þá því minni ástæða til að byggja nýtt skip til þess að sigla milli Reykjavíkur og Borgarness til að flytja smávarning einan þangað, og sjerstaklega nú, þegar svo stutt er þangað til fullkomið bifreiðasamband kemst á milli Borgarness og Reykjavíkur. Jeg held að það sje rangt að leggja út í það að kaupa eða byggja skip í þessum tilgangi, áður en það sjest, hver áhrif bættir vegir milli þessara staða hafa. Það er engin ástæða fyrir till., að langan tíma þurfi til að athuga þetta, því að ekki er verið lengi að því að gera teikningu af slíku skipi og leita tilboða. Jeg vil leggja algerlega á móti því, að till. þessi verði samþykt.