17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í D-deild Alþingistíðinda. (3809)

134. mál, Borgarnesbátur

Jón Ólafsson:

Jeg vil fyrir mitt leyti ekki spilla fyrir þeim góða áhuga, sem fram kemur með þessari till., en jeg verð að segja það, að þegar það fer að ganga svo vítt, að ýms hjeruð koma með sín áhugamál, sem eru töluverð stórmál, þá er of langt gengið, því að það er ekki hægt að sjá annað á till. en að ætlast sje til, að ríkið framkvæmi þetta og taki það í sínar hendur, því að annars myndi málið vera miklu betur undirbúið en hv. flm. hefir gert grein fyrir. Það sýnist vera meinlaust, að ríkið láti gera áætlun og teikningu af þessu skipi; það er hægt að fá þetta án mikils kostnaðar, en það virðist ekki vera mikill áhugi fyrir málinu í hjeraði, ef hjeraðsbúar hefðu ekki getað framkvæmt þetta sjálfir.

Nú er, eins og allir vita, að það hljóta að vera mjög skiftar skoðanir um þetta mál, vegna þess að hjeraðsbúar og nokkrir fleiri menn hafa verið að „baxa“ með núverandi Borgarnesbát, og eru að því enn og í hálfgerðum vandræðum með það fyrirtæki sitt, svo að jeg geri ráð fyrir, að það myndi verða algerð eyðilegging fyrir það fjelag, sem stendur að þessum báti, ef ríkið færi að taka þetta mál að sjer og reka þarna skipaferðir. Mjer sýnist heldur ekki þetta svo aðkallandi, að það sje nein þörf á að sinna þessu eins og stendur, því að mjer er kunnugt um, að það er helst kvartað yfir því, að báturinn hafi of lítið að gera. og af þeim ástæðum bera forráðamenn hans sig heldur illa. — Ef hjeraðsbúar hefðu virkilegan hug á þessu, þá finst mjer, að þeir ættu að undirbúa málið betur.

Það hefir verið haldið fram þeirri skoðun hjer, að hjeruðin eigi að taka mikinn þátt í þeim samgöngubótum, sem þeim sjeu lagðar til af ríkisins hálfu, og það eigi jafnan að koma fram tilboð frá þeim um þátttöku, áður en nokkuð sje gert í málunum. Hjer liggur þetta ekki fyrir. Þetta eru aðeins fundarályktanir, eftir því sem hv. þm. Mýr. sagði. En hvað er það nú eiginlega orðið, sem fundir ekki samþykkja, að ríkissjóður eigi að gera fyrir þá? Þeir samþykkja auðvitað alt, sem þeir halda, að geti orðið þeim til hagsbóta, en það er nú orðið ýmislegt, sem á ríkið kemur árs árlega. Fjárhagsáætlunin er nú komin upp í 12 milj. kr., og það þarf að taka 12 milj. kr. lán til ýmsra framkvæmda fyrir þjóðfjelagið. Mjer finst það vera í byrjun að taka nokkuð fullan munninn, ef Alþingi á nú að taka atriði, sem snerta alveg einstök hjeruð, þar sem málin þar að auki eru ekki betur undirbúin en þetta er. Það má búast við því, þótt þessi rannsókn sje gerð, þá sje það ekki mjög mikils virði, því hvað þýðir rannsóknin, ef málið er ekki nokkurn veginn undirbúið undir það, að starfað sje eitthvað að því? En hjer er, eins og jeg hefi áður tekið fram, svo ástatt, að slíkt liggur alls ekki fyrir.

Jeg fyrir mitt leyti get ekki greitt þessari þáltill. atkv. mitt, því að mjer finst hjer vera komið með mál, sem hljóti að liggja lengra frammi í framtíðinni en svo, að við getum farið að eiga við það á næstu árum. Og þar við bætist, að fjöldi af hjeruðum landsins eru miklu ver sett með samgöngur heldur en Borgarfjarðarhjerað. Flest hjeruð landsins búa við mun verri samgöngur en Borgarfjörður og Mýrar, bæði á sjó og landi. Virðist því meiri þörf á því, að líta eitthvað á þeirra nauðsynjar. Það, sem hjer er um að ræða, er ekki brýn nauðsyn, heldur það, að Borgarnesbáturinn svarar ekki til fylstu nútímakrafna, eins og hv. flm. gat um. En við getum ekki veitt okkur alt, sem svarar til hinna ítrustu krafna nútímans um þægindi og allan útbúnað. Við verðum að láta okkur nægja minna. Auk þess er sá bátur, sem nú gengur á milli, vel boðlegur í alla staði svo lengi sem hann er sjófær. Ætla jeg, að sumum hjeruðum þessa lands þætti gott að hafa slíkan bát, þó hann vœri ekki „fínni“ en „Suðurlandið“ er. Jeg get, að þessu athuguðu, með engu móti fallist á nauðsyn þessa máls, og legg því til, að þáltill. verði feld.