17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í D-deild Alþingistíðinda. (3810)

134. mál, Borgarnesbátur

Jón Auðunn Jónsson*):

*) Ræðuhandr. óyfirlesið. Mjer virðist þetta mál ekki mega ná afgreiðslu áður en samgöngumálanefndir þingsins hafa fengið það til athugunar og umsagnar. Þetta mál er eitt hið stærsta samgöngumál, sem fyrir þinginu liggur. Nú vita það allir, að núverandi Borgarnesbátur fer ferðir öðruhverju til Breiðafjarðar og hefir ríkisstyrk til þess. Ef þessi bátur, sem till. ræðir um, á eingöngu að annast ferðir milli Reykjavíkur og Borgarness, þá leiðir af því það, að „skaffa“ verður nýjan Breiðafjarðarbát. Verð jeg að telja helst til mikið í sölurnar lagt, ef byggja á skip fyrir alt að 400 þús. kr. — sjerstaklega ef það á að vera með dieselvjel, sem hleypir verðinu mjög fram — fyrir ef til vill örfá ár. Rekstur skipsins ber sig vitanlega ekki, ef því er ætlað að fara svo tíðar ferðir. Með því móti verður rekstrarkostnaður þess meiri, en flutningur minni. Auk þess kostar kælirúm mjög mikið, sjalfsagt ekki undir 30 þús. kr. Svo get jeg ekki skilið, að nokkur sjerstök þörf sje á kælirúmi þessa stuttu leið, því lax eða annað, sem sent er nýtt. þarf ekki að skemmast, ef vel er um búið. Auk þess virðist svo, sem ætlast sje til, að ríkið leggi ríflega af mörkum til þessa máls, ef það á að kosta teikningar að skipinu og allan undirbúning málsins. Slíkt mun vera nálega einsdæmi. Venjan er, að aðrar sýslur verða að brjótast í öllu slíku sjálfar, upp á eigin spýtur. Ísafjarðarsýsla hefir t. d. lagt yfir 40 þús. kr. í Djúpbátinn, og tapað því öllu, auk þess sem sýslan ber árlega stórkostlegan tekjuhalla af rekstri bátsins. Þó hefir sýslan ekki fengið nema sem svarar einn fimta hluta greiddan af ríkisfje, og það undir sjerstökum kringumstæðum, nefnil. að þurfti að skifta um vjel. Jeg vil því leggja til, að málinu sje vísað til samgmn.