17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í D-deild Alþingistíðinda. (3812)

134. mál, Borgarnesbátur

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Nú hafa þegar talað fjórir hv. þdm. á móti till., og má því með sanni segja, að ekki blási byrlega fyrir þessu skipi hjer í hv. deild. Jeg verð því að svara þeim nokkrum orðum.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði á móti till. á þeim grundvelli, að aðaláherslu bæri að leggja á bættar samgöngur á landi. Þetta er að vísu á nokkrum rökum reist alment, en það á ekki við í þessu sambandi. Allir þeir, sem þekkja til staðhátta í þessum hluta landsins, vita, að miklum örðugleikum er bundið að leggja landveg frá Reykjavík til Borgarfjarðar, enda yrði sá vegur varla fær nema nokkurn hluta ársins. Og þrátt fyrir það, þó vegur þessi væri fær, þá yrði skipið að ganga milli Reykjavíkur og Borgarness eigi að síður. Slíkt skip sem hjer ræðir um yrði aldrei ónýtt, þótt landsamgöngurnar kæmust í fullkomnara horf. Mestur hluti allra vöruflutninga milli Reykjavíkur og Borgarness yrði ávalt sjóleiðis, því það mun reynast ódýrara en landleiðis. Ennfremur verð jeg að líta svo á, að þessi fyrirheitni Hvalfjarðarvegur eigi mjög langt í land. Bryggjur beggja vegna fjarðarins, ásamt ferju eða ferjum, myndu kosta of fjár, og auk þess lítt á slíkt treystandi, ef veður eru óhagstæð. Loks er það aðgætandi, að þótt í þessar framkvæmdir verði ráðist einhverntíma í framtíðinni, þá þarf eigi að síður að bæta úr hinni brýnu og mjög aðkallandi þörf bættra samgangna á sjó milli Borgarness og Reykjavíkur. Þess vegna er þetta hin rjetta leið til þess að bæta úr samgönguþörfinni nú þegar.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði um, að hjeraðsbúar sýndu lítinn áhuga á þessu máli, þar sem þeir hefðu ekkert af mörkum lagt til þessa máls. En þetta er ekki að öllu leyti rjett, og mun það koma í ljós síðar. En það er hjer sem annarsstaðar, að „varðar mest til allra orða, að undirstaða rjett sje fundin“. Hjeraðsbúar þurfa að fá að vita, hvers stuðnings þeir megi vænta frá Alþingi í málinu og hvað slíkt skip mundi kosta o. s. frv. Fyrsti vísir áhuga hjeraðsbúa á þessu máli kemur fram í þessari till. Suðurlandið heldur ekki uppi samgöngum um Borgarfjörðinn til eilífðar. Það er nú þegar orðið gamalt og farið að feyskjast og fullnægir ekki til lengdar þeim kröfum, sem breyttar aðstæður gera til samgangna á þessu svæði. Það er því ærin nauðsyn þess, að hefja rannsókn um það, hvernig þessum málum verði haganlegast háttað á komandi árum. En sú rannsókn tekur nokkurn tíma, og þessi till. er fram flutt meðal annars til þess að koma skriði á málið. Hv. þm. talaði um, að sú rannsókn, sem till. fer fram á, væri ekki mikils virði. Jeg get ekki verið honum sammála um það. Að mínu áliti er með henni lagður framtíðargrundvöllur málsins. Að vísu getur rannsóknin verið lítils virði, ef kastað er til hennar höndunum. En jeg vil enganveginn ætla núverandi ríkisstj. slíkt, nje heldur það, að hún láti rannsóknina undir höfuð leggjast. Hv. þm. talaði um, að hjer væri um að ræða harðari kröfur til þæginda og nútímaútbúnaðar en svöruðu til íslenskra staðhátta og fjárhagslegrar getu landsins. Þessu vil jeg einnig mótmæla, með þeim rökum, að ef rannsóknin leiðir í ljós, að hægt er að koma á fót ódýrari en þó fullkomnari samgöngum milli þessara tveggja staða, þá er stórmikið við slíkt unnið. En engum getum skal að því leitt, hvort sú verði niðurstaða rannsóknarinnar, en ekki þætti mjer það ósennilegt.

Þá vildi hv. þm. N.-Ísf. helst, að máli þessu væri vísað til samgmn. Jeg get ekki látið hjá líða að tjá honum þakkir mínar fyrir hinn mikla áhuga hans, sem birtist í þessari till. hans. Slíkt er nefnilega alveg sama og að drepa till., það veit hv. þm. ósköp vel. Með því væri henni einungis valinn kvalafyllri dauðdagi en ella, ef henni væri leyft að koma til atkv. og feld þar hreinlega. Jeg vil vona, að hvorug þessi örlög liggi fyrir þessari þörfu till. minni. Þess má líka geta, að hingað til hefir það ekki verið venja að vísa þáltill. til nefnda, enda þótt slíkt sje formlega rjett. Ef hv. þm. hefði gengið áhugi til, þá hefði hann sennilega komið fyr með þessa bendingu, en úr þessu er slíkt einungis grímuklædd tilraun til þess að tortíma málinu. Reyndar get jeg ekki skilið, að þessi till. sje svo stórvægileg, að hún þurfi sjerstaka nefndarathugun. Hjer er einungis farið fram á að rannsaka, en ekki að framkvœma neitt beinlínis.

Viðvíkjandi ummælum hv. þm. um það, hvað skipið mundi kosta, þá skal jeg taka það fram, án þess þó að neinu leyti að gera lítið úr þekkingu hv. þm., að jeg vildi nú óska að fá einhverjar staðbetri upplýsingar um það atriði, enda fer slíkt eftir því, hvaða stærð og gerð verður valin. Um slíkt er ekkert hægt að segja með vissu, fyrr en ábyggileg rannsókn er fyrir hendi. (JAJ: Vill hv. þm. spyrja Nielsen?). Það er þýðingarlaust að fara til einhvers ákveðins manns og ætla að fá slíkar upplýsingar á svipstundu.

Þá var hv. 3. þm. Reykv. að tala um það, að hjeruðin ættu að fórna einhverju fyrir þetta mál. Eins og jeg drap á áðan, er þetta ekki að marka ennþá. Hinsvegar skal jeg benda hv. þdm. á það, að hjer er ekki einungis um hjeraðsmál að ræða, heldur miklu fremur mál, sem varðar mörg hjeruð landsins. Samgangnakerfi Norður- og Vesturlands við Reykjavík liggur í gegnum Borgarnes; þar er að verða einhver mesta samgöngumiðstöð þessa lands inn á við.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. Árn. sagði um þetta, vil jeg láta nægja að vísa til þess, sem jeg hefi svarað hv. 3. þm. Reykv. Þó skal jeg taka það fram, að breyt. sú, sem hann vill gera á till., er mjer engan veginn á móti skapi, ef hv. deild þykir till. aðgengilegri þannig. Mun það ekki standa í vegi þess, að samkomulag náist um till.