17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í D-deild Alþingistíðinda. (3815)

134. mál, Borgarnesbátur

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Hv. 8. þm. Reykv. vildi vísa þessu að öllu leyti til hjeraðsbúa, þar sem það væri aðeins hjeraðsmál. Það get jeg ekki fallist á. Og þó að hjer væri eingöngu um hjeraðsmál að ræða, geta þau verið svo mikilsverð, að þau eigi skilið stuðning hins opinbera. En hjer er um meira að ræða en hjeraðsmál, enda mun koma í ljós, að þetta er fyrst um sinn aðalúrræðið til að koma á heppilegum og góðum sumarsamgöngum við Norðurland:

Hvaða framtíðarmúsik, sem menn kunna að syngja í þessu efni, er rjett og sjálfsagt að kynna sjer nú þegar vilja og álit hjeraðsmanna um það, hvaða fyrirkomulag muni hentast. Á sínum tíma á þetta mál auðvitað að fara til samgmn. og verður áreiðanlega vísað þangað. Það verður aldrei gert neitt, sem kostar nokkuð að ráði, fyr en Alþingi er búið að láta í ljós sinn vilja. Það er alveg að óþörfu hjá hv. þm. að halda, að nokkuð verði gert að Alþingi fornspurðu.

Jeg skal ekki deila við hv. 2. þm. Reykv. um Hvalfjarðarleiðina. Jeg held, að tröllatrú hans sje af ókunnugleik sprottin. Um Hvalfjörð er það að segja, að þegar vindur stendur af hafi, er þar mjög úfinn sjór og afarörðugt að koma bílum á væntanlega ferju, nema með ákaflega dýrum útbúnaði. Bílasamgöngur koma á sínum tíma inn fyrir Hvalfjörð.

Jeg ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa till., en láta skeika að sköpuðu, hvernig um hana fer.