09.03.1929
Neðri deild: 18. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í D-deild Alþingistíðinda. (3830)

34. mál, rannsókn á rekstri togaraútgerðarinnar

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Jeg held að jeg verði að víkja að því fyrst, sem hv. 2. þm. G.-K. lauk máli sínu með, sem sje því, að undanfarið og alt til þessa dags hefði sífelt verið krafa okkar jafnaðarmanna: Reikningana á borðið! Þetta er alveg rjett; sú hefir krafa okkar verið, og það, sem í raun og veru er meginefni þessarar till., er einmitt sú krafa, að útgerðarfjelögin leggi reikningana á borðið fyrir þingskipaða nefnd.

Hv. 2. þm. G.-K. komst svo að orði, að það væri þýðingarlaust og eingöngu til hins verra, að reikningarnir væru lagðir á borðið, því að það yrði til þess, að þeir væru síðar notaðir til árása á útgerðina.

Hv. þm. tók það mjög skýrt fram, að hann ætti þar við útgerðina, en jeg veit, að hv. þm. meinar ekki útgerðina, heldur útgerðarmenn. — Hv. þm. óttast, að reikningarnir verði notaðir til árása á útgerðarmenn. Og hvað felst þá í orðum hv. þm.? Ekkert annað en það, að hv. þm. býst við, að hægt verði að finna að stjórn útgerðarfjelaganna, ef reikningarnir eru lagðir á borðið. Það er viðurkenning á því, að ólag sje á þessum málum, og þessi hv. þm. (ÓTh) veit það sjálfsagt manna best, að það er býsna margt, sem má finna að stjórn útgerðarfjelaganna. Vitaskuld dettur heldur engum í hug að neita þessu. En þessi ummæli hv. þm. benda ennfremur til þess hugsunarháttar, sem er mjög ríkur hjá mörgum stjettarbræðrum hv. þm. Þeir hugsa nefnilega: Útgerðin, það eruð við útgerðarmennirnir. En þetta er alls ekki rjett; útgerðin er samstarf allra þeirra manna, sem að þessum fyrirtækjum standa, í fyrsta lagi þeirra manna, sem leggja til fjáraflann, annaðhvort af eign sinni eða sem lánsfje, og í öðru lagi þess aðilans, sem veltur miklu meira á, mannanna, sem veiða fiskinn og verka hann. Þegar talað er um útgerð, er aldrei hægt að sjá, að útgerðarmenn telji verkamennina og sjómennina með; það eru aðeins eigendurnir, útgerðarmennirnir, sem þeir tala um, afkoma þeirra og hagur, en ekki sjómanna og verkafólks.

Þessi sami hv. þm. sagði í sambandi við kröfuna um að leggja reikningana á borðið, að í frv. því um vinnudóm, sem rætt hefir verið hjer, sje ákveðið, að þeir skuli lagðir á borðið. En þetta er fjarstæða; þeir verða alls ekki lagðir á borðið, þótt frv. það verði að lögum, sem jeg vona ekki verði; þeim er aðeins laumað til vinnudómsins og dómendur mega rjett skygnast í þá og lofa að þegja um efni þeirra og innihald. En það er ekki að leggja reikningana á borðið; það mætti alveg eins segja, að það að leggja fram skattskýrslu sína í skattstofunni væri að leggja reikningana á borðið. Almenningur veit alls ekkert um efnahag eða kostnað við atvinnufyrirtæki það, sem um er að ræða, þótt dómur sje kveðinn upp um kaupgjaldið. Hv. þm. sagði líka, að þýðingarlaust væri að leggja reikningana á borðið fyrir verkamenn, því að þeir færu ekkert eftir því, hver gjaldgetan væri, og minti í því sambandi á Eimskipafjelagið. Jeg skal með ánægju játa það, að Eimskipafjelagið sýndi þeim mun meiri sanngirni en aðrir vinnuveitendur, að það lagði reikningana á borðið, ljet fulltrúa sjómanna fá þá til athugunar. En einmitt þeir reikningar sýndu það, að sú upphæð, 11000 krónur, sem um var deilt, hafði svo litla þýðingu, að það gat engu breytt um hag fjelagsins, þótt gengið væri að hækkuninni. Þeir sýndu ennfremur, að það var beinlínis skaðlegt fyrir fjelagið að stöðva skipin; það munu og reikningarnir fyrir 1929 áreiðanlega sýna, því miður. Það dettur engum í hug að halda því fram í alvöru, að þær 11 þús. kr., sem deilt var um, hefðu valdið nokkru um efnahag fjelagsins, sem veltir miljónum króna árlega.

Jeg skal þá víkja að því, sem hv. þm. áleit, að myndi vera aðalástæðan til þess, að við jafnaðarmenn flytjum þessa till. hjer í d. Hv. þm. áleit, að ástæðan væri sú, að við, sem vildum þjóðnýta togaraflotann, þektum ekki rekstur útgerðarinnar nógu vel til þess að geta lagt fram slíka tillögu og rökstutt til hlítar nú, en rannsóknin myndi gefa okkur gögn í hendur til stuðnings þjóðnýtingarkröfunni. Mig furðar á því, að hv. þm. skuli vera svo ófeiminn að halda þessu fram gegn till. hjer í þessari hv. d., því að það bendir á, að hann óttist einmitt sjálfur, að rannsóknin leiði í ljós ágalla núv. fyrirkomulags og auki kröfunni um þjóðnýtingu fylgi meðal þjóðarinnar eða hljóti að minsta kosti að leiða til gagngerðra breyt. á fyrirkomulaginu. Þetta sýnir, að honum er kunnugt um ágallana, þótt hann vilji leyna þeim fyrir almenningi. Jeg er líka alveg viss um, að samviskusamleg rannsókn á rekstri togaraflotans myndi færa mýmörg gögn upp í hendur manna því til stuðnings, að endurbætur á stjórn og fyrirkomulagi togaraútgerðarinnar sjeu nauðsynlegar. Hinsvegar dettur mjer ekki í hug að ætla það, eins og Alþingi nú er skipað, að krafa um fullkomna þjóðnýtingu nái fram að ganga. Ef hv. þm. hefði verið jafnsannfærður um það eins og hann vildi láta í veðri vaka, að alt væri í himnalagi hjá útgerðarmönnum, þá hefði hv. þm. átt að geta verið með því að samþ. þessa till. ásamt okkur, því að rannsóknin hefði þá ekki orðið til annars en að sýna, hve vel væri stjórnað af þessum mönnum. Ef það er rjett, að sífeldar umbætur sjeu gerðar og ómögulegt sje að ætlast til þess með sanngirni, að togaraflotinn sje rekinn á hagkvæmari hátt en nú er, þá mundi rannsóknin sanna þetta og engum þá detta í hug að æskja breytinga. En hv. þm. er andvígur till. og vill ekki, að hún nái samþykki deildarinnar. Hann óttast, að rannsóknin sýni einmitt ágalla og annmarka á stjórn þessara manna.

Jeg held, að jeg verði að drepa hjer örlítið á nokkuð af því, sem hv. þm. sagði um, að stjórn og rekstur togarafjelaganna væri í góðu lagi. Meiri hl. ræðu hv. þm. átti að sanna það, að þetta væri í svo góðu lagi sem framast væri hægt að ætlast til. Hv. þm. játaði þó, að það mætti spara meira með því að stækka fjelögin, fækka framkvæmdarstjórum o. s. frv. Um þetta erum við þá báðir sammála; það er ómótmælanlegt, að mikið vantar á, að þessu sje svo langt komið sem hægt er, ef sú hagnýtni á að nást, sem mögulegt er. Með þessu má og spara fleira en laun framkvæmdarstjóranna; skrifstofu- og sölukostnaður og kostnaður við hús, áhöld og stöðvar myndi og minka stórlega, ef fjelögunum væri slegið saman og þetta betur hagnýtt. Þá sagði hv. þm., að í þessu efni gæti að sjálfsögðu löggjafarvaldið ekki skorist í leikinn, á meðan það viðurkendi friðhelgi eignarrjettarins, því að það væri ekki hægt að skipa manni, sem ætti skip, að láta einhvern annan mann stjórna rekstri þess. Þetta er ekki nema að litlu leyti rjett. Þessu líkt hefir fyrr verið gert; má því til sönnunar benda á lögin um einkasölu á síld, sem síðasta þing samþ. Auðvitað er hv. þm. andvígur því, að umráðarjettur hans og stjettarbræðra hans yfir þessum framleiðslutækjum sje takmarkaður, að jeg nú ekki nefni, af þeim tekinn með öllu. En þess eru ótal dæmi í löggjöf okkar og annara þjóða, að eignar- og umráðarjettur einstakra manna er mjög takmarkaður til þess að tryggja almenningsheill.

Og jeg verð að segja, að möguleiki er á því að gera þetta að talsverðu leyti og til talsverðs gagns, án þess að horfið sje að fullkominni þjóðnýtingu, sem jeg álít einu framtíðarúrlausnina á þessum málum.

Hv. 2. þm. G.-K. segir, að laun framkvæmdarstjóra útgerðarfjelaganna sjeu lág. Fáir framkvæmdarstjórar munu hafa undir 6000–10000 kr. árslaunum, og ekki eru þeir allfáir, sem kunnugt er um, að hafa miklu hærri laun.

Þá játaði sami hv. þm. því, að samsala aflans væri hagkvæmari en ef hver hokraði í sínu horni út af fyrir sig. Þetta orkar vitanlega ekki tvímælis hjá þeim mönnum, sem á annað borð bera nokkurt skynbragð á þessa hluti. En þó kom mjer þessi játning þm. kynlega fyrir. Mig minnir ekki betur en að annað væri uppi á teningnum í fyrra, er frv. um einkasölu á saltfiski var til umr. í þessari hv. d. Þá lagðist hann mjög á móti því frv. og fordæmdi það fyrirkomulag um sölu saltfiskjar, sem þar var stungið upp á. Þó var það ekki annað en samsala aflans í stærri stíl. Nú játar hann, að samsala aflans sje hagkvæm, og bætir við, að þetta hafi útgerðarmenn sjeð sjálfir, er þeir stofnuðu samlagið 1926. Það er rjett, að þá höfðu nokkrir útgerðarmenn samsölu á einhverju af sínum afla, en hún fjekk sorglegan endi. Upp á þessu samlagi var svo fitjað aftur 1927 og 1928, en um þann árangur er mjer ekki jafnkunnugt. En saga samlagsins 1926 sýnir einmitt erfiðleikana, sem eru á takmarkaðri samsölu. Þegar útgerðarmenn stofnuðu samlagið um sölu á fiski 1926, keyptu erlendir fiskkaupmenn fyrst hvern ugga, sem þeir gátu fengið utan samlagsins. Samlagið varð því að bíða með sinn fisk, og olli það ýmsum erfiðleikum og verðfalli, ætla jeg, svo að samlagsmenn urðu illa úti, og vildu sumir þeirra ekki bindast slíkum samtökum aftur. En það er ekki nema eðlilegt, á meðan frjáls samkepni ræður í þessu efni og varan fæst utan samlagsins, að fiskikaupmenn kaupi á meðan kostur er utan samlagsins, sem neyðist svo til að liggja með sína vöru von úr viti. Hinsvegar er enginn vafi á því, að þar sem um svo öfluga samsölu er að ræða, að engin vara sömu tegundar er boðin fram utan samlagsins, þá er það ómetanlegur aðstöðumunur og hlýtur að halda verðinu uppi. En samkepni um framboð hvaða vöru sem er hlýtur altaf að lækka verð hennar. Samkepni íslenskra fiskútflytjenda hlýtur að lækka verð fisksins.

Þá viðurkendi hv. sami þm., að hagnýting aukaafurða fisksins væri mikilsvert atriði fyrir útgerðina. En hann kvað útgerðarmenn hafa sjeð þetta sjálfa og gert þar á ýmsar umbætur, sem hann virtist vera harðánægður með; t. d. hefði verið að því horfið fyrir 2 árum að bræða lifrina um borð í skipunum, í stað þess að flytja hana í bræðslustöðvar í landi.

Það er að vísu rjett, að þetta er skárra en það, sem áður var. En það þarf að gera betur. Aðrar þjóðir láta sjer ekki nægja að bræða lifrina, heldur hreinsa þær lýsið og vinna úr því dýra vöru. Þess vegna finst mjer enn langt frá, að hagnýting þessara aukaafurða sje í góðu lagi, á meðan lýsið er selt óhreinsað út úr landinu.

Um hagnýting hausa og beina sagði hann, að útgerðarmenn hefðu hug á þessu máli og látið það til sín taka, en það væri enn undir rannsókn og árangur hennar ókominn. En það þarf að gera meira en að ræða um þetta og hitt sín á milli. Og það er hægt að vinna fleira en mjöl úr fiskbeinum og hausum. Það er ekki ofmælt, að við Íslendingar fleygjum miljónum króna í sjóinn árlega, þar sem hausar og úrgangur er.

Þá tók sami hv. þm. það fram, og það rjettilega, að öllum væri að verða það ljósara og ljósara, að til frambúðar þyrfti ekki að gera ráð fyrir nægilegum markaði fyrir saltfisk. Framtíðarsalan yrði því að miðast við að koma fiskinum nýjum á markaðinn, en ekki söltuðum og þurkuðum. Þetta býst jeg við, að sje rjett athugað. Eftir því sem samgöngurnar batna, munu kröfur um nýjar matvörur verða háværari og auðveldara að verða við þeim, og verða þá saltaðar vörur lítt seljanlegar, eða jafnvel óseljanlegar.

En hvað líður þá bollaleggingum útgerðarmanna í þessu efni? Úr því þeir viðurkenna, að þeir hafi heyrt rödd tímans og skilið hana, þá skyldu menn ætla, að þeir hefðu hafist handa til umbóta í þessu skyni. Enn sem komið er hafa þeir verið, að mínum dómi, alveg ótrúlega sinnulausir og tómlátir í þessum efnum. Mjer er ekki kunnugt um, að þeir hafi annað gert til þessa en að senda togarana nokkurn tíma ársins með ísfisk til Englands. Lengra hafa framkvæmdir þeirra ekki náð. Það er erlent fjelag, sem er að reisa hið stóra frystihús, sem verið er að byggja hjer við höfnina, og hygst með því að koma á rekspöl verslun með kældan fisk í Mið-Evrópulöndunum. Íslendingarnir, útgerðarmennirnir hjer, hafa látið það ógert til þessa.

Jeg get ekki neitað því, að mjer þótti dálítið broslegt, þegar hv. 2. þm. G.-K. sagði: „við útgerðarmenn höfum vakandi auga á öllum framförum í þessu efni, og þegar fylling tímans er komin og endanleg fullnaðaruppfundning í frystiaðferðum gerð, þá hefjumst við handa“. (ÓTh: Þetta sagði jeg ekki). Jeg er hræddur um, að ef bíða á eftir „endanlegri fullnaðaraðferð í frystiaðferðum“, þá geti biðin orðið nokkuð löng. Menn bæta aðferðirnar stig af stigi og ár frá ári og framfarirnar halda sífelt áfram. Fullnaðaraðferðin verður hvorki fundin upp á meðan jeg lifi eða hv. þm. En þegar talað er um að taka eitthvað nýtt upp, breyta frá gamla sleifarlaginu, þá segja útgerðarmenn æfinlega eins og hv. þm. nú: Þetta kostar of mikið; við skulum bíða eftir að annað og betra verði fundið upp. Þetta er afsökun útgerðarmanna fyrir því að breyta ekki til frá því, sem nú er, ef afsökun skyldi kalla. Ef taka á mark á slíkri afsökun, þá mundi hún eflaust endast heilan mannsaldur, og hver veit hvað lengi. En útvegurinn þolir ekki svona langa bið. Afkoma hans nú og í framtíðinni byggist á því, að útgerðarmenn skelli ekki skolleyrum við, þegar kröfur tímans kalla.

Um framangreind atriði hefir hv. 2. þm. G.-K. verið mjer að mestu sammála, um það, að eitthvað þyrfti að gera í þessa átt. Hann hefir aðeins haldið því fram, að útgerðarmenn hafi nú þegar gert alt það, sem hægt er að ætlast til af þeim og nauðsynlegt er í bili. Hann er þessum málum eflaust kunnugri en jeg. En því vil jeg halda fram, að með fullkomnu samstarfi útgerðarmanna og minna einræði, þá hefði eflaust mátt komast miklu lengra. En það er einmitt rannsóknarefni fyrir hina væntanlegu n., hvort ekki muni hægt að greikka gönguna þangað, hvort það er rjett hjá hv. þm., að gert hafi verið nú þegar alt, sem hægt og hagkvæmt sje að gera í þessum málum. Hinsvegar var hv. þm. ósammála mjer um það, að bót væri að því að hafa stöðvar víða um land, þar sem hægt væri að leggja afla togaranna á land. Hann sagði, að þetta væri ekki hægt, en ástæða hans fyrir fullyrðingunni var næsta barnaleg, þegar þess er gætt, að hún er borin fram af útgerðarmanni.

Hann brigslaði mjer um þekkingarskort, en jeg verð að segja, að rök hans eða rakaleysi sýna átakanlega þekkingarskort sjálfs hans á þessu atriði. Hann sagði eitthvað á þá leið, að af því að mikið fje væri komið í fiskstöðvar hjer sunnanlands, þá mundi það kosta alt of mikið að koma upp stöðvum fyrir austan og vestan.

Jeg skal nú upplýsa hv. þm. um það, að á Vestfjörðum yfirleitt er mjög auðvelt að koma þessu við, og það án tilfinnanlegs kostnaðar. Í flestum fjörðunum Vestanlands, öllum helstu þorpunum þar, eru bæði bryggjur, uppskipunartæki og fiskverkunarstöðvar og fleiri tæki, sem með þarf. Þar fást líka í öllum kauptúnunum kol, salt og annað það, sem útgerðin þarfnast. Og verkamenn til þess að vinna að aflanum má fá í þorpunum sjálfum, eða þá í nærliggjandi sveitum, þann tíma, sem aðrar annir kalla ekki að. Um Ísafjörð skal jeg geta þess sjerstaklega, að þar eru margar bryggjur, sem togarar geta fengið afgreiðslu við; þar er líka ávalt nóg af verkafólki og nægar birgðir af kolum og salti. Og líkt þessu mun það vera á Austfjörðum. Á Seyðisfirði, Norðfirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði eru hafskipabryggjur, og þar mun hvorki skortur á kolum eða salti. Þessi þorp eru líka talsvert mannmörg, en lítið um atvinnu í sumum þeirra. T. d. hefir mikið atvinnuleysi verið á Eskifirði undanfarin ár, sem kunnugt er.

Hv. þm. sagði, að ef horfið yrði að því ráði að leggja aflann upp fyrir austan eða vestan, þá mundi það draga mikið af fiski bæði frá Reykjavík og Hafnarfirði. Þetta má vera rjett að nokkru leyti. En benda má á það, að skip þau að austan eða vestan, sem stundað hafa veiðar hjer við Suðurland, hafa oft siglt heim til sín, er þau höfðu fylt sig. Yrði sú regla upp tekin, að skipin legðu upp aflann þar, sem styst væri til lands af fiskimiðunum, þá mundi þetta jafnast. Annars játa jeg, að það er hugsanlegt, að í byrjun gæti þetta fyrirkomulag dregið eitthvað lítilsháttar úr atvinnu hjer sunnanlands, en alt bendir til, að það mundi fljótt jafnast.

Þó að horfið yrði að þessari uppástungu minni, að leggja aflann víðar á land, þá mundi það ekki hafa nema lítinn kostnað í för með sjer fyrir útgerðina. Engin þörf á að byggja dýrar stöðvar til þess að byrja með; víðast er hægt að komast af með þau tæki, sem eru á hverjum stað. En tímasparnaðurinn orkar ekki tvímælis og að aflinn myndi aukast.

Um þá ástæðu hv. þm., að togararnir sigli alla leið vestan af Hala eða austan af fjörðum til þess, að sjómennirnir geti hvílt sig eftir túrinn, finst mjer óþarft að ræða. Jeg trúi því ekki, að hv. þm. beri hana fram í alvöru. Til þessa hefir hann ekki hugsað mikið um að tryggja sjómönnum hvíld. Og sama má segja um stjettarbræður hans flesta; þeir hafa jafnan talið eftir hvíldartíma háseta, ekki síst þegar mikið veiddist.

Þá sagði þessi sami hv. þm., að sjer virtist næsta tilgangslítið að setja nefnd til þess að rannsaka hag og rekstur togaraútgerðarinnar, og það af þeirri einföldu ástæðu — svo jeg viðhafi hans eigin orð — , að útgerðarmenn væru allra manna færastir að dæma um þetta, af því að þeir ættu þarna hagsmuna að gæta. En þm. gleymir því, að það eru fleiri en útgerðarmenn einir, sem hafa þarna hagsmuna að gæta. Þjóðin öll, og ekki síst þeir menn, sem aflann sækja í djúpið og vinna að honum í landi, þeir eiga afkomu sína undir því, hvernig þessi atvinnuvegur er rekinn. Þessum aðilum gleymir hv. þm. alveg. Honum og öðrum útgerðarmönnum er það nóg, ef þeir sjálfir hagnast. Þá er vel stjórnað, ef reikningarnir sýna gróða, góða niðurstöðu fyrir sjálfa þá.

En sjómenn og verkamenn eru aðili í þessu máli. Í þeirra augum gefst útgerðin vel, þegar afkoma þeirra er góð og atvinnan stöðug. Í augum þjóðarinnar er stjórn þessa atvinnuvegar góð, þegar fje það, sem útgerðarmenn hafa tekið að láni, er ávaxtað jafnvel eða betur en á sjer stað annarsstaðar í viðskiftalífinu fyrir þjóðarheildina, þegar þeir, sem við útgerðina vinna, fá þaðan nóg til að uppfylla þarfir sínar, og ríkissjóður skatta og skyldur. Að útgerðarmenn einir dæmi um sinn eiginn atvinnurekstur, nær vitanlega ekki nokkurri átt. Blindur er hver í sjálfs sín sök, segir máltækið, og það á eflaust ekki síður við um þessa atvinnurekendur en aðra menn.

Jeg held, að hv. þm. hafi verið mjer að nokkru leyti sammála um það, að samtök og samvinna á þessu sviði væri góð, enda skildist mjer á orðum hans, að þau væru altaf að eflast. Þetta kann nú að vera að sumu leyti rjett. Þó hygg jeg að hann eða fjelag það, sem hann stjórnar, Kveldúlfur, hafi sjerstöðu einmitt í þessu efni. Mjer er ekki kunnugt um, að hann hafi verið eða sje nokkur samvinnupostuli. Kveldúlfur er eins og kunnugt er stórt og öflugt fjelag, sem segja má kannske um, að sje sjálfu sjer nóg að ýmsu leyti fremur en hin smærri fjelögin. Það er auðveldara fyrir fjelag, sem hefir mörg skip og mikið umleikis, að standa út af fyrir sig, búa að sínu, en fyrir fjelag með eitt eða tvö skip. Kveldúlfur hefir t. d. einn ráðist í það að tryggja sjer síldveiðarnar með því að koma upp síldarverksmiðju. Þetta hefir honum reynst auðvelt, af því að hann er stórt fjelag, sem ræður yfir miklu fje og mörgum skipum, sem sjá verksmiðjunni fyrir nægu verkefni. Smærri fjelögunum hefði vitaskuld verið þetta ofvaxið með öllu.

Þá drap sami hv. þm. á það, hvernig útgerðarmenn ráðstöfuðu arði þeim, sem útvegurinn gæfi, og sagði, að yfirleitt væri það venja útgerðarfjelaganna að greiða hluthöfum engan arð, heldur safna slíku fje í varasjóð til þess að tryggja sig betur fyrir allskonar óhöppum, sem að höndum kynni að bera. Jeg vildi óska, að rjett væri frá skýrt; svona ætti það að vera. En jeg hygg, að hjer sje ekki allskostar rjett frá sagt. Jeg veit t. d. um fjelag, sem greiddi svo hundruðum þúsunda skifti í arð til hluthafanna á meðan vel gekk, en fjekk svo síðar jafnmörg hundruð þúsunda eða fleiri eftirgefin af skuldum sínum við banka og aðra lánardrotna, 85% af óveðtrygðum skuldum, ætla jeg. Og þetta og þessu líkt hefir áreiðanlega komið fyrir oftar, þó að jeg kunni ekki að skýra frá því nú. Hitt má satt vera, að Kveldúlfur hafi ekki greitt arð til hluthafa. En mjer er spurn: Hvernig er höfuðstóll Kveldúlfs, hlutafje hv. þm. og annara eigenda hans, til orðið? Er það ekki gróði þeirra af útgerðinni, sem þeir nú telja innieign hjá fjelaginu sem hlutafje? Mjer er sagt, að hlutafjeð skifti nokkrum miljónum. Hvaðan hafa hluthafarnir haft þessar miljónir, ef þær eru ekki arður af útgerðinni? Eða er hlutafjárhæðin aðeins til málamynda? Auðvitað er að sumu leyti betra, að arðurinn gangi til fjelagsins sem hlutafje, en að hann sje jetinn upp. Þá má stækka fyrirtækið og tryggja. Jeg vildi aðeins benda á, að einhversstaðar yrðu peningarnir að koma frá, og meiri hlutinn hefir komið frá togaraútgerðinni sjálfri. Væri því lítið vit í, að hluthafar væru heimtufrekir til arðs af slíku fje.

Hv. þm. sagði einnig, að fiskverkunarstöðvarnar hefðu jafnan borið sig, þó að togarafjelögin sjálf hefðu tapað á rekstrinum. Þetta er óefað rjett. (ÓTh: Um þetta sagði jeg ekkert). En það sýnir einmitt, hvernig útgerðin er skattlögð. Altítt er, að sumir hluthafar eigi verkunarstöðvarnar og leigi þær eða taki fiskinn til verkunar af togurunum. Þeir hafa oft stórgróða, þótt hluthafar, aðrir, tapi.

Þá sagði þessi hv. þm., að það væri broslegt að ætla þingnefnd að rannsaka svo margþættan atvinnuveg sem útgerðin væri, og mátti á orðum hans skilja, að hann ætlaðist til, að nefndin starfaði aðeins á meðan þetta þing situr. Jeg geri nú ráð fyrir, þó að tíminn væri ekki lengri en þetta, þá mætti þó mikið rannsaka og margt það koma í dagsins ljós, sem nauðsynlegt er, að almenningur fái vitneskju um og byggja mætti umbótatillögur á. En búist nefndarmenn sjálfir við, að þeir verði svo hlaðnir öðrum þingstörfum, að þeir geti ekki sint þessu nægilega, geri jeg ráð fyrir, að hæstv. forsetar mundu að sjálfsögðu sjá nefndinni fyrir nægilegri aðstoð launaðra manna til útreiknings og skýrslugerða. En auk þess sje jeg ekki, að samkv. 35. gr. stjskr. sje neitt því til fyrirstöðu, að nefndin haldi starfi sínu áfram milli þinga, ef ástæða þykir til þess.

Þá kom alllangur kafli í ræðu þessa hv. þm., þar sem hann vildi sanna, að kjör háseta á íslenskum togurum væru mun betri en tíðkaðist á erlendum togurum og að kjör íslenskra háseta væru betri en annara verkamanna hjerlendis.

Það er vitanlegt, að sjómenn, sem atvinnu stunda á íslenskum togurum, hafa yfirleitt sem maður segir til hnífs og skeiðar, ef vel gengur og atvinnan er nokkurn veginn stöðug, en ekkert þar umfram. Hv. þm. sagði ennfremur, að þess væru dæmi, að hásetar, sem byrjað hefðu að stunda þessa atvinnu sem einhleypir menn, hefðu á fáum árum safnað sjer allmiklu fje, komið með því fótunum undir sjálfstæðan atvinnurekstur og væru nú margir orðnir vel fjáðir menn. Jeg skal að vísu ekki neita því, að finna megi einstöku dæmi þess, að togaraháseti hafa lagt fyrir lítilsháttar fje, en áreiðanlega eru slík dæmi fá, hreinustu undantekningar, eins og hv. þm. mun vera vel kunnugt um. Alment hefir reynslan orðið sú, að togarakaupið hefir ekki gert meira en hrökkva fyrir nauðsynlegum útgjöldum. Auðvitað mætti segja, að einhleypir menn þyrftu ekki að eyða öllu kaupinu, en það er nú einu sinni svo, að þeir þurfa mörgu til að kosta, sem giftir menn gleyma. (Hlátur). Og svo þurfa þeir að safna til að reisa bú og búa sig undir hjúskap og barneignir. Ef kaupið ætti eingöngu að miða við brýnustu þarfir einhleypra manna, yrði að banna verkafólkinu að eiga börn — og hvar fengi hv. þm. þá verkafólk? — eða ríkið að taka að sjer alt uppeldi barna. Jeg hygg, að hv. þm. sje því ekki meðmæltur. Það er áreiðanlega sjaldgæft mjög, að togaramenn safni svo tugum skifti þúsunda, eins og hv. þm. orðaði það. Það mætti þó ekki vera minna en 20–30 þús., til þess að hægt væri að segja, að það skifti tugum þúsunda, og til þess að geta lagt fyrir slíka upphæð, þyrfti að minsta kosti 15 ár, og væru þó lagðar fyrir tvær þúsundir á hverju ári, og hygg jeg þess finnist varla dæmi.

Þá sagði hv. þm., að samanburður sá, sem jeg gerði á aflahlut og kaupi íslenskra og erlendra togaraháseta, væri ef til vill rjettur tölulega, en sýndi hinsvegar ekkert um, hvað útgerðin gæti borgað eða hvað sanngjarnt væri í þeim efnum. Játaði hann að vísu því, að íslenskir togarar öfluðu margfalt meira en útlendir togarar. en vildi um leið halda því fram, að þetta æti sig upp, þar sem íslensk útgerð væri miklum mun kostnaðarfrekari en útlend. Það, sem hann taldi gera rekstur hinnar íslensku útgerðar dýrari en útlendrar, var aðallega þrent: Fleiri menn á togurunum, meiri kol og veiðarfæri og loks hærri skattar. Vil jeg nú víkja nokkrum orðum að þessum ástæðum, hverri um sig.

Hvað mannahaldinu viðvíkur er þess að geta, að það skiftir engu máli fyrir útgerðina, hvort hún greiðir ákveðinn hluta af brúttóafla til fleiri eða færri manna. Það kemur t. d. í sama stað niður, hvort útgerðin greiðir 13% af brúttóafla til 15 manna eða 25 manna. Það, sem hún fær í sinn hlut, er jafnmikið í báðum tilfellum.

Um kolanotkun íslensku togaranna er mjer ekki beint kunnugt. Þó fæ jeg varla skilið, að íslenskir togarar þurfi meiri kol en útlendir, því þeir þurfa aðeins að fara inn á næstu höfn, þegar þeir eru á saltfiskveiðum, en á sama tíma þurfa útlendir togarar að sigla fyrst hingað og síðan með aflann alla leið til útlanda. Það hlýtur þó að kosta ærna kolaeyðslu fyrir erlenda togara að þurfa að sigla til Íslands og svo út aftur, þegar íslensku togararnir þurfa ekki nema að skreppa austur í Eyrarbakkabugt eða vestur á Halamið. (ÓTh: íslensku togararnir eru stærri og kolafrekari. — MG: Var ekki átt við verð kolanna?). Vitanlega fellur nokkur flutningskostnaður á kolin hingað upp, það af þeim, sem togararnir þá ekki taka um leið og þeir selja ísfisk sinn í Englandi. En jeg veit nú ekki til, að neinar kolanámur sjeu t. d. í Cuxhafen, svo að ekki losna erlendir togarar alveg við flutningskostnaðinn.

Það mun vera rjett hjá hv. þm., að íslenskir togarar slíti meiri veiðarfærum en þeir útlendu. En þetta er bein afleiðing af því, að þeir afla meira. (HK: Og eru meira að veiðum í vondum veðrum). Alveg rjett, en einmitt meiri sókn gefur meiri veiði, oftast miklu meiri en veiðarfærasliti nemur.

Hvað skattana snertir, þá get jeg fullyrt, að beinir skattar eru síst nærri hjer en annarsstaðar. Að vísu er hjer útflutningsgjald á fiski, og það losna enskir og þýskir togarar við. En þetta græðist margfalt, því að afli íslensku togaranna er miklu meiri bæði að vöxtum og verðmæti en afli útlendu togaranna, eins og áður er sagt.

Hv. þm. virðist álíta, að einmitt af því að aflinn er meiri á íslensku skipunum en þeim útlendu, þá verði hundraðshlutinn, sem gengur til að greiða kaup og fæði íslenskra skipverja, stærri. Þetta er hreinasta meinloka. Þess meiri sem aflinn er, þess minni hluta af honum þarf til launagreiðslu og þess meira verður eftir fyrir útgerðina að öðru jöfnu. Af þessu leiðir beint, að útgerðin hjer ætti að geta greitt hærra verkakaup. Að þetta sje rökrjett niðurstaða, sjest best á því, að útgerðin kemst betur af með t. d. 80% af aflaverði til annara útgjalda en hásetakaups, ef brúttóaflinn er t. d. 500 þús. kr., heldur en að fá til sömu útgjalda 10% meira, eða 90%, ef aflinn er ekki nema t. d. 300 þús. kr. í fyrra tilfellinu er rekstrarkostnaðurinn að vísu meiri, en arðurinn, og um leið getan til að greiða hærra kaup, langtum meiri. Í fyrra tilfellinu fær útgerðin 400 þús., í því síðara 360 þús. Þá drap þessi sami hv. þm. á útreikninga Alþýðublaðsins á aflahlut þýskra togaraháseta og vildi vjefengja þá í ýmsum atriðum. Jeg hefi sjeð gögn þau, sem útreikningar þessir eru bygðir á, og get því leiðrjett missagnir hv. 2. þm. G.-K.

Í fyrsta lagi er það rjett reiknað, að þýskir togarahásetar, matsveinar og kyndarar hafi fengið í kaup, premíu og hlut í aukaafurðum h. u. b. 28% af andvirði fisksins þá 3 mánuði, sem skýrslurnar ná yfir. En það er þó eigi rjett reiknað hjá hv. þm., að laun skipshafnarinnar yfir árið, annara en yfirmanna, sje um 42 þús. Rm. Enn fjær sanni er þó hitt, að íslenskir togarahásetar sjeu jafnvel launaðir og þeir þýsku. En göngum þó út frá því, að þetta sje rjett, að skipshöfnin fái 42000 Rm., og að þessi upphæð skiftist milli 9 manna, þá verður hlutur hvers ca. 4700 Rm., eða yfir 5000 íslenskar krónur. En nú ber þess og vel að gæta, að þar sem peningar eru verðmeiri í Þýskalandi en hjer (minni dýrtíð), þá mun láta nærri, að 5000 ísl. kr. í Þýskalandi sjeu jafngildi 6–7 þús. kr. hjer á Íslandi.

Hv. þm. gat þess rjettilega, að meðallaun allrar skipshafnar á íslenskum togara hafi verið kringum 100 þús. kr. fyrir þann 10 mánaða veiðitíma, sem hjer er venjulegur, og er í því talin lifur. Fullur þriðjungur þessarar upphæðar fer til yfirmanna. Þá verða eftir ca. 65 þús. kr., sem eru því laun háseta, matsveina og kyndara. Nú er venjulegt mannahald á togurum 25 manns á saltfiskveiðum og 15 manns á ísfiski. Meðaltal 20 menn. Milli þessara 20 manna ber því að skifta 65 þús. kr., og verður þá hvers hlutur í kringum 3250 kr. að meðaltali. Þessa upphæð á nú að bera saman við laun þýskra og enskra sjómanna, ef finna á hlutfallið milli launakjaranna.

Hv. þm. vildi ekki vjefengja útreikninga form. Sjómannafjelagsins hjer, sem birtir voru í Alþýðublaðinu í nóvember í haust, þar sem sagt er, að tekjur þýskra togaraháseta á mánuði hafi verið um 417 Rm., eða yfir 450 ísl. kr., og tekjur enskra sjómanna um 363 kr. Nú reiknast hv. þm. svo til, að íslenskt togarakaup sje um 440 kr., en það er langt of hátt reiknað sem meðalkaup, eins og jeg hefi sýnt fram á með hans eigin tölum. Ef meðaltal er tekið yfir allan togaraflotann, yrði 330 kr. áreiðanlega nógu hátt, ef ekki of hátt. Jafnvel þótt reiknað sje með 360 kr. meðaltekjum á mánuði þann tíma, sem skipin ganga, verða þó ensk og þýsk togaralaun mun hærri, og miklu hærri, ef það er tekið með í reikninginn, að dýrtíðin er miklu minni erlendis en hjer. Það er vitanlega ekki einhlítt að miða kaupgjald einungis við krónuupphæð, heldur verður og að taka til greina, hvort dýrtíðin er meiri í einu landi en öðru.

Þá sagði hv. þm., að íslenskir sjómenn væru best launaðir af öllum verkalýð þessa lands. Þetta er alrangt. Ekki nægir að horfa á krónuupphæðina eina. Það er ákaflega villandi. Starfshættir og vinnutími sjómanna er alt annað en þeirra, sem á landi vinna. Sjómenn eru skyldugir til að vinna, ef þarf, 16 tíma á sólarhring, jafnt nótt sem dag, helga daga sem virka. Verkamenn í landi hafa hjer 12 kr. á dag með 10 tíma vinnu. Með 300 vinnudögum gerir það 3600 kr. Þeir, sem vinna 12 tíma á dag, hafa á sama hátt 4800 kr. árstekjur. Að vísu er þetta kaup ekki alment, vegna þess að vinnan er venjulega stopulli. Hinsvegar hafa iðnaðarmenn venjulega hærri tekjur. Þó er vinnutími þeirra einatt ekki nema 8 stundir. Hafa þeir þannig hærra kaup en sjómenn, fyrir helmingi skemri vinnu þó, auk þess sem vinna þeirra er samfeld 12 mánuði.

Jeg ætla nú, þótt fáir hafi talað í þessu máli, að því verði ekki neitað, að umr. hafi gefið hv. þdm. nokkurt íhugunarefni. Hygg jeg, að því verði nú vart neitað lengur, að víða sje umbótaþörf á rekstri þessarar útgerðar. Hv. 2. þm. G.-K. viðurkennir þetta, en telur útgerðarmönnum einum treystandi til þess að gera þær endurbætur, sem þurfi. Hann vill, að hjer eftir sem hingað til hlíti bæði þjóðin og verkalýðurinn forsjá útgerðarmanna skilyrðislaust. Þeir hv. þdm., sem eru á sömu skoðun og trúa því, að útgerðarmenn einir sjeu allra manna best færir um að sjá rjett og gera rjett í þessum efnum, þeir munu að sjálfsögðu ekki sjá ástæðu til slíkrar rannsóknar og því greiða atkv. gegn till. En allir hinir, sem álíta útgerðarmenn breyska sem aðra menn, og að þeim geti og yfirsjest, þeim ætti að vera það vel ljóst, að aðeins ein hlið þessa máls snýr að útgerðarmönnum, Önnur að þjóðinni og hin þriðja að sjómönnunum og verkalýð landsins, og þeir ættu því að vera okkur flm. sammála um, að í till. felist ekki einungis rjettmæt, heldur og sjálfsögð krafa þúsunda manna, sem eiga atvinnu- og bjargarvonir sínar tengdar við rekstur þessarar atvinnugreinar, rjettmæt krafa um að fá að vita alt um rekstur og hag þessarar atvinnugreinar, sem er svo þýðingarmikil fyrir þjóðina alla.