15.03.1929
Neðri deild: 23. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (3836)

34. mál, rannsókn á rekstri togaraútgerðarinnar

Ólafur Thors:

Það er nú svo langt síðan þessari umr. var frestað, að mjer er áreiðanlega sumt það úr minni liðið, sem jeg hefði viljað svara í síðustu ræðu hv. 1. flm. Jeg hefi líka talað áður allítarlega í þessu máli, og tel því eigi þörf á að víkja að nema nokkrum hluta þess, sem hv. flm. færði fram máli sínu til stuðnings.

Hv. flm. sagði, að ekkert væri því til fyrirstöðu, að löggjöfin skyldaði einstaka útgerðarmenn til að fela öðrum mönnum stjórn þeirra fyrirtækja, sem þeir hafa eignarumráð yfir. En mjer er eigi ljóst — og jeg hygg, að honum sje það eigi ljóst heldur —, með hverjum hætti sú ráðstöfun megi verða. Þessari till. var í vetur varpað fram í stjórnarblaðinu „Tíminn“, í grein eftir ritstjóra þess blaðs. Við, hv. flm. og jeg, lögðum þá báðir fyrirspurnir fyrir ritstjóra Tímans út af þessu og komumst að raun um, að hugmynd hans var helber vitleysa og annað ekki. Nú skilst mjer, að hv. flm. hafi skift um skoðun og sje farinn að trúa á þessa hugmynd. Vildi jeg því óska frá honum skýringa á því, hvernig hann nú hugsar sjer að koma henni í framkvæmd, því hv. þm. hlýtur að skilja, að sitt er hvað samsala afla eða lögþvingaður samrekstur togaranna.

Hv. flm. benti á, að það væri hagur fyrir útgerðarmenn að vera í fjelagi um sölu afurðanna. Jeg tók vel á þessu í síðustu ræðu minni og gaf hv. flm. þær upplýsingar, að slík samsala hefði einmitt átt sjer stað meðal útgerðarmanna í 3 ár. Af þeim orðum mínum dró hv. flm. þá ályktun, að jeg væri hlyntur einkasölu á saltfiski. En því fer fjarri, eða er hv. þm. svo illa að sjer, að hann þekki ekki muninn á einkasölu og samsölu? Jeg held, að sá munur sje svo kunnur hv. deild, að óþarft sje að tala mikið um hann. Í samsölu ráða framleiðendurnir sjálfir stjórn og rekstri verslunarinnar. En stjórn einkasölu er skipuð af löggjafarvaldinu, og ræður þeirri skipun oft annað meir en hæfileikar. (HV: Hvernig var það um útflutningsnefndina?). Hv. þm. spyr kannske um þetta af því að maður, mjer venslaður, átti sæti í útflutningsnefnd, en engin regla er án undantekninga, og það sannar ekkert um ágæti fyrirkomulagsins, þótt hægt sje að benda á, að slík skipun hafi ekki æfinlega tekist illa. — Val manna í stjórn einkasölu getur tekist vel einstaka sinnum. En það er aldrei nein trygging fyrir því, að það takist vel.

Þá talaði hv. flm. um hagnýting lifrarinnar. Nú sem stendur er lifrarbræðsla á skipsfjöl. En hv. flm. vill láta hreinsa lýsið. Jeg get nú frætt hv. þm. um það, að útgerðarmenn hafa í hyggju að koma upp lýsishreinsunarstöð, og hefði líklega verið ráðist í það á síðastl. ári, hefði fje verið fyrir hendi. — Það er annars býsna skemtilegt, að öll þau úrræði, sem hv. flm. er að bollaleggja til hagsmuna fyrir útgerðarmenn, hafa þeir sjálfir fundið fyrir löngu og eru annaðhvort búnir að framkvæma þau eða í þann veginn að gera það.

Mjer þykir líklegt, að hv. þm. viti þetta, þótt hann látist fáfróður. Till. sínar hefir hann því lært af útgerðarmönnum, og er það að líkum, að hann geti lært af þeim, þó hann geti ekkert kent þeim.

Næst talaði hv. flm. um vinslu á skipsfjöl á beinum og öðrum fiskúrgangi. Staðhæfingar hans um það efni voru á miklum misskilningi bygðar. Hann heldur, að litlu útgerðarfjelögin sjeu þess eigi megnug að koma á slíkri vinslu vegna smæðar sinnar. En möguleikarnir til hennar eru ekkert undir því komið, hvort útgerðarfjelögin eru stór eða lítil. Það er alveg jafnt hægt að koma vjelum fyrir í skipinu, hvort sem fjelagið, sem á það, er stórt eða lítið. Það, sem á veltur, er stærð skipsins, en ekki fjelagsins. Framkvæmdir hjer stranda eingöngu á því, að íslensku skipin eru of lítil.

Þá sagði hv. flm., að íslensku útgerðarmennirnir væru smátækir í framförum. Þetta hygg jeg vera af lítilli athugun mælt. Íslenska togaraútgerðin er ekki nema 20 ára gömul. Nú eru íslensku togararnir um 40. Fyrir tveim tugum ára stunduðu Íslendingar fiskveiði á smáskipum eingöngu. Nú eru togararnir íslensku í röð hinna bestu í heimi. Frakkar eiga að vísu stærri skip, en að öðru leyti taka þau ekki fram okkar skipum. Útgerðarmennirnir hafa komið upp bræðslustöðvum. Þeir hafa stofnað fisksölusamlag. Nýjar markaðsleiðir hafa þeir troðið. Þeir hafa komið upp samtryggingu fyrir flotann, og margt fleira mætti nefna. Hv. flm. mælir af vanefnum, þegar hann segir, að íslenskir útgerðarmenn hafi verið smálækir. Hitt er rjett, að þeir þurfa að fara varlega, og þá fyrst og fremst af fjárhagsástæðum. En þess mundi ríkið þurfa, eigi síður.

Þá kem jeg að frystivjelunum. Hv. flm. hafði það eftir mjer, að við útgerðarmenn ætluðum að bíða eftir því, að einhver betri tæki yrðu fundin upp en þau, sem nú þekkjast, og kvað hann þetta gamla viðbáru þeirra, sem ekkert vildu aðhafast. Jeg sagði aldrei, að við værum að bíða eftir nýjum tækjum. En hitt er rjett, að ennþá er ekki fengin einhlít reynsla á neinni þeirri aðferð, sem nú eru að ryðja sjer til rúms. Engin þeirra hefir ennþá hlotið viðurkenningu fram yfir aðra. Eitt árið er þessi aðferðin talin best, næsta ár önnur o. s. frv. Og það er beinlínis skylda íslenskra útgerðarmanna að leggja ekki út í miljónafyrirtæki, nema vissa sje fyrir því, að tjaldað sje lengur en til einnar nætur.

Þá hefir hv. flm. og mig mjög greint á um það, hvort hagkvæmt væri fyrir útgerðina að hafa fiskverkunarstöðvar á Austur- og Vesturlandi. Hefi jeg áður fært full rök að því, að hv. flm. talar þar ekki af nægri þekkingu, og skal því ekki fara mörgum orðum um það atriði nú. Ein af þeim rökum, er hv. flm. bar fram þessari uppástungu sinni til málsbóta, var það, að fiskverkunarstöðvarnar væru þarna áður til. Það er að vísu rjett, en þær stöðvar voru bygðar áður en togaraflotinn kom til sögunnar og eru því ekki miðaðar við þá þörf, sem nú er fyrir hendi. Ef einnig ætti að nota þessar stöðvar til verkunar á afla togaranna, yrði að stækka þær að miklum mun, og auk þess þyrfti þar nærtækan mannafla í ríkari mæli en nú er. En á hvorutveggja eru mikil vandkvæði. Hitt get jeg tekið undir, að úr þessu mætti bæta, ef floti Vestfirðinga og Austfirðinga hefði bækistöð sína hjer einhvern hluta árs. Hugsar hv. þm. sjer eflaust að stýra vjelbátunum vestfirsku hingað suður, en togurunum vestur. Sjest glögt, að hjer er þjóðnýtingareinvaldurinn að tala.

Þá þótti hv. þm. það hin mesta meinloka að rugla saman útgerðarmönnum og útgerð. Jeg er nú svo barnalegur að halda það, að á meðan útgerðarmenn eiga skipin, sje hagur sjómanna mjög háður getu og afkomu útgerðarmanna. Jeg minni aðeins á, að við samninga á milli sjómanna og útgerðarmanna 1923 var það viðurkent af báðum aðiljum, að kaup sjómanna mætti í rauninni ekki lækka frá því, sem það var, en hinsvegar þyldi útgerðin ekki svo hátt kaup. Gjaldgetan var ekki meiri en svo, og fjellust þá báðir aðilar á kauplækkun. (SÁÓ: Þetta man jeg ekki). Jeg hefi áður mint á þetta á opinberum fundum, og hefir hv. þm. þá munað eftir því, en til þess að hv. þm. geti glöggvað sig betur á þessu, skal jeg geta þess, að sú kaupdeila, er jeg gat um, var til lykta leidd af þáverandi forsrh., núv. hv. þm. Dal.

Þá spyr hv. þm., hvaðan miljónir Kveldúlfsfjelagsins hafi komið. Það kemur þessu máli ekkert við, en við skulum hugsa okkur, ef um miljónir væri að ræða, að arði þessa fjelags hafi verið varið til þess að stækka hlutafjeð. Það verður í reyndinni hið sama og ef varasjóðirnir hefðu verið efldir. (HG: En hjer er um einkaeign hluthafanna að ræða). Já, en hv. þm. hlýtur þó að skilja, að hlutafje er ábyrgt fyrir skuldbindingum hvers hlutafjelags, alveg án tillits til þess, hver er eigandi hlutabrjefanna.

Jeg hefi bent á, að rannsókn þessara mála væri óþörf og hún mundi ekki leiða til þess að tryggja sjómönnum lífvænlegri kjör. Sjómenn á togurunum eru yfirleitt betur launaðir en nokkur önnur vinnandi stjett í landinu; þeir eru betur launaðir en stjettarbræður þeirra erlendis og vinna skárri vinnu en margir aðrir sjómenn. Sannast þetta best með aðsókninni, sem er að þeirri vinnu.

Þá lýsti jeg það einnig rangt í fyrri ræðu minni, er hv. flm. hjelt því fram, að sjómenn hafi aðeins til hnífs og skeiðar. Margir þeirra hafa aflað sjer nokkurra sjóða, sem síðar verður þeim undirstaða til sjálfstæðs atvinnurekstrar. Sömuleiðis er það rangt hjá hv. flm., að þýskir sjómenn hafi hærra kaup en íslenskir sjómenn. Íslenskir sjómenn eru talsvert hærra launaðir en erlendir stjettarbræður þeirra.

Alt, sem hv. þm. sagði um kaupgjald, miðað við hundraðshluta af afla, bar vott um óskýra hugsun í miklu ríkari mæli en venja er til um þennan hv. þm. Mig hafði hann misskilið, og sjálfan sig skildi hann sýnilega heldur ekki. Í fyrri ræðu sinni taldi hann nefnilega, að hár hundraðshluti af andvirði afla væri sönnun um hátt kaup. En nú segir hann: „Þess meiri sem aflinn er, þess minni hluta af honum þarf til launagreiðslu.“ Þetta er alveg rjett og ekkert við það að athuga, annað en það, að nú, þegar hv. þm. er kominn á mína skoðun, lætur hann sem hann sje að andmæla mjer.

Jeg sje, að ef jeg á að svara öllu því, er hv. þm. hjelt fram, yrði þetta nokkuð karpkent, en það vil jeg forðast, að svo miklu leyti sem hægt er.

Jeg gat þess í fyrri ræðu minni, að aðalkrafa hv. flm. væri þessi: Reikningana á borðið. Jeg benti á, að reikningar Eimskipafjelags Íslands hefðu legið á borðinu. Hv. flm. sagði, að þeir hefðu sýnt, „að glæpsamlegt hefði verið að stöðva skipin vegna þeirra fáu þúsunda, sem á milli bar“. En ef það er glæpsamlegt, að stjórn fjelags, sem í mörg ár hefir þurft að lifa á styrk frá ríkissjóði, veigrar sjer við að gjalda hærra kaup en sá keppinautur, sem hæst kaup greiðir, er það þá ekki miklu fremur glæpsamlegt af forkólfum sjómanna að gera slíka kröfu til fjelagsins?

Hv. flm. lætur sem einhver óvenjuleg leynd hvíli yfir afkomu útgerðarinnar. Þó er það svo, að reikningar sumra fjelaganna eru árlega prentaðir. En auk þess er yfirleitt óhugsandi, að afkoma útgerðarinnar sje almenningi hulin, meðal annars vegna þess, að hluthafar í útgerðarfjelögunum skifta hundruðum.

Reikninganna er heldur ekki krafist í þeirri von, að þeir í raun og veru gefi ný gögn í málinu, en þó vakir það fyrir sósíalistum að greiða götu þjóðnýtingar. Þeir vita, að sem stendur tekur enginn mark á fullyrðingum þeirra um útgerðarmálin, en halda, að ef þeir fái að hnýsast í reikningana, geti þeir betur talið mönnum trú um, að þeir hafi vit á útgerð.

Sje tilgangurinn sá, að taka afleiðingum af þeim fróðleik, sem felst í reikningum útgerðarinnar, hafa þeir lögin um vinnudóm. Þar er gert ráð fyrir, að reikningarnir sjeu lagðir á borðið (HG: Hvaða borð? — Ekki borð almennings). Jú, einmitt borð almennings. Dómsniðurstaðan er vitneskja um gjaldgetu útgerðarinnar. Aðra eða meiri vitneskju um útgerðina á almenningur enga kröfu á — varðar yfirleitt ekkert um.

Krafan um reikningana á borðið byggist á lönguninni til að taka reikningana í þjónustu blekkinganna. En ef sósíalistar álíta sundurliðaðar upplýsingar um afkomu útgerðarinnar þjóðarnauðsyn, af hverju kaupa þeir þá ekki togara sjálfir, gera hann út, safna sjer óyggjandi fræðslu og birta hana almenningi til hagsbóta? Þeir geta ekki barið við getuleysinu. Margir þeirra eru vel efnum búnir, eiga mikið í stórum fyrirtækjum og njóta mikils lánstrausts. Með þessu gætu þeir gert margt í senn. Ausið upp auðnum, sem þeir sýknt og heilagt öfunda okkur af, trygt almenningi þessa bráðnauðsynlegu vitneskju um afkomuna, en sjálfum sjer þann fróðleik, sem þá nú vanhagar svo um.

Ef till. um rannsókn fellur — og það gerir hún áður en lýkur — verða sósíalistar að kaupa og gera út skip. Geri þeir það ekki, sýnir það og sannar, að þeir trúa ekki á gróðann að þeir skilja þrengingar útgerðarinnar og óar við misærinu, skattabyrðunum og kauphæðinni, og að þeir hagsmunir, sem vitneskjan um afkomu útgerðarinnar á að færa alþýðumönnum, er þeim ekki hjartfólgnari en svo, að þeir þora ekki að hætta sinni eigin buddu til að öðlast hana.

Ætla sósíalistar að kaupa togara, eða ætla þeir að gerast berir að óheilindum?