13.03.1929
Neðri deild: 21. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í D-deild Alþingistíðinda. (3866)

49. mál, almannatryggingar

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Mjer þykir vænt um þessar góðu undirtektir, sem till. þessi hefir fengið, en verð þó að svara hv. þm. Vestm. nokkrum orðum. Hv. þm. taldi slysa- og ellitryggingar nauðsynlegastar, en jeg hygg, að örðugt sje að skera úr því, á hverri þessara trygginga sje mest þörf; jeg fyrir mitt leyti get ekki gert mun á þeim. Eru ekkna- og mæðratryggingar minna áríðandi en slysa- eða ellitryggingar? Jeg get engan mun gert þar á. Okkur getur að vísu borið á milli í einstökum atriðum, og þá einkanlega hvað viðvíkur atvinnuleysistryggingunum, en í rauninni er þetta alt saman einskonar atvinnuleysistryggingar, og því má ekki heldur fella þær burt. Enginn mun geta neitað því, að alt er þetta náskylt hvert öðru. Hv. þm. benti einnig á það, að að því er virtist ætti meginþungi iðgjaldanna að hvíla á atvinnuvegunum. Það er líka skoðun okkar, sem að till. þessari stöndum, enda mun það í fullu samræmi við skoðanir manna alment. Það er enginn efi á því, að hver atvinnuvegur verður að rjettu lagi að bera alla þá áhættu, sem honum er samfara; annars á hann ekki rjett á sjer.

Þessir fjórir aðilar greiða nú og hljóta jafnan að greiða allan kostnað við opinbera forsjá: ríkið, hjeruðin, verkamenn og atvinnurekendur. Það er aðeins fyrirkomulagsatriði, hvernig kostnaðinum er jafnað niður. Jeg get nú raunar sagt það, að það skiftir ekki afarmiklu máli þjóðhagslega sjeð, hvort menn greiða tillög sín sem skatta til hins opinbera eða í beinum iðgjöldum til tryggingarstofnunarinnar, þar eð fjeð kemur alt frá borgurunum, hvort sem heldur er. Jeg get hinsvegar ekki látið því ómótmælt, sem hv. þm. sagði um atvinnuleysistryggingarnar. Hann hjelt því fram, að ef atvinnulausir menn fengju styrk, þá gæti svo farið, að þeir kysu heldur að fá þennan „ríflega“ styrk en að taka þá vinnu, er þeim byðist og sem þeir fengju máske ekki hærri laun fyrir en atvinnuleysisstyrknum næmi. Nefndi hann einkanlega landbúnaðinn í þessu sambandi og að hann myndi ekki geta staðist samkepnina við tryggingarnar. Jeg verð nú að segja það, að mönnum innan þessarar hv. d. virðist ákaflega ant um landbúnaðinn, en jeg hygg, að ástæðulaust sje fyrir þá að óttast þetta.

Styrkurinn verður tæplega ákveðinn svo ríflega, og flestir vilja heldur vinna fyrir kaupi en að sitja auðum höndum, jafnvel þótt þeir fái nokkurn styrk. Hitt skal jeg taka fram strax, að það er ekki tilætlun okkar flm., að hægt sje að skipa þeim, sem atvinnulausir eru og styrks njóta, að vinna verk undir venjulegu kaupgjaldi. Slíkt væri óhæfa. Aftur á móti á það opinbera að sjá um atvinnubætur. Það er ekki óvíða, sem nokkur hluti tryggingafjárins er lagður til atvinnubóta sem lán. Í Danmörku er til dæmis nokkru af fjenu varið sumpart sem lánum til ýmissa verklegra framkvæmda, til þess að bæta úr atvinnuleysi, og sumpart sem lánum til atvinnuleysissjóða.

Jeg held, að það sje ekki fleira, sem ástæða er til að taka fram að svo stöddu. Jeg get vel felt mig við till. hæstv. forsrh. um, að málinu sje vísað til allshn. En jeg geri það ekki að neinu kappsmáli, hvort það fer til allshn. eða fjhn.

Út af því, sem hv. þm. Vestm. mintist á, að torvelt mundi vera að ljúka af smíði svo mikils lagabálks fyrir næsta þing, vildi jeg mega segja það, að hv. þm. hefir vaxið þetta óþarflega í augum. Jeg er ekki viss um, að það sje miklu erfiðara eða meira verk að semja einn heildarlagabálk um þetta efni en að semja lög um sjúkratryggingar, ellitryggingar og örorkutryggingar. Mikið af þeim rannsóknum, sem gerðar eru um einstakar tryggingagreinar, má nota fyrir hinar jafnframt.