13.03.1929
Neðri deild: 21. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í D-deild Alþingistíðinda. (3867)

49. mál, almannatryggingar

Jóhann Jósefsson*):

*) Ræðuhandr. óyfirlesið. Það eru bara örfá atriði, sem jeg ætla að minnast á. Hv. flm. benti á það, að mjer virtist þetta verkefni vera ofvaxið n., af því að jeg álít, að það megi ekki dragast að koma á nauðsynlegustu tryggingum. Sjúkra-, elli-, mæðra- og slysatryggingar hangir alt saman, en jeg álít, að mest liggi á sjúkra- og ellitryggingum. Jeg vildi minna á, hvort ekki væri hugsanlegt, að í sambandi við skyldutryggingarnar væru tryggingadeildir, þar sem menn gætu trygt sjer til dæmis sjúkrastyrk eða meiri ellistyrk en lögin ákveða.

Síðasta atriðið í till. hv. flm. er um lífsábyrgðarstofnun, sem starfaði í sambandi við tryggingastofnun ríkisins. Sú till. er þess verð, að hún sje vandlega athuguð. Jeg veit ekki, hversu mikið fje fer árlega út úr landinu fyrir líftryggingar, en mjer er óhætt að fullyrða, að það sje mjög mikið, og væri æskilegt, ef hægt væri að tryggja sig fyrir það fje í landinu sjálfu. Samt sem áður álít jeg varhugavert, að sú stofnun hefði einkarjett á tryggingum. En þó að til væri stofnun, sem starfaði á grundvelli frjálsrar samkepni, hugsa jeg, að margir landsmenn vildu heldur tryggja sig hjá stofnun ríkisins, því að það hefir komið fyrir, að menn hafa mist fje sitt hjá slíkum stofnunum. Þegar fram í sækti, mundi áreiðanlega vera tryggari sú stofnun, sem ríkið ætti, í Danmörku starfar ennþá „Statsanstalten“. Það er stofnun, sem er undir sjerstakri vernd ríkisins, og í þeirri stofnun hafa flestir embættismenn þessa lands verið trygðir, alt þar til stofnaður var lífeyrissjóður embættismanna.

Um atvinnuleysistryggingarnar ætla jeg ekki að fjölyrða. Jeg skaut því fram — og jeg veit, að margir eru mjer sammála —, hvort ekki væri heppilegra, að reynt væri að stuðla að atvinnubótum en að koma upp sjóðum, sem beinlínis greiða framlag til atvinnuleysingja. Annars býst jeg við, að mjer gefist kostur á að ræða þetta mál síðar.