18.05.1929
Neðri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í D-deild Alþingistíðinda. (3880)

126. mál, þjóðaratkvæðagreiðsla um samkomustað Alþingis

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg veit, að till. þessi um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna samkomustaðar Alþingis vekur umrót í hugum margra manna, og jeg veit, að út af henni muni hervæðast andstæð öfl til sóknar og varnar. Við þessu er ekki hægt að gera. — Öll stórfeld og örlagarík nýmæli vekja baráttu, en barátta, sem drengilega er háð og af hreinum hvötum, á að leiða til heillavænlegrar niðurstöðu.

Auðvitað er þetta mál öðrum þræði tilfinningamál og er vandfarnara með það fyrir þá sök, en svo víðtæk áhrif hefir það á kjör og menningu þjóðarinnar á komandi tímum, að skylt er og sjálfsagt að fara með það og afgreiða með fylstu alvörugefni.

Að vísu felur till. í sjer það eitt, að gefa þjóðinni færi á að lýsa yfir ósk sinni um það, hvar Alþingi skuli háð í framtíðinni; en flestir munu líta svo á, að þá ósk, sem fram kemur við atkvgr., beri að taka til greina, á hvorn veg sem hún fellur.

Í sjálfu sjer er hjer ekki um nýmæli að ræða, heldur um gamla, óuppfylta ósk mikils hluta þjóðarinnar, sem oft hefir látið til sín heyra, þótt hljótt hafi verið um hana nú um skeið. Fyrir og eftir 1810 var spurningin um samkomustað Alþingis alvarlegt ágreiningsmál. Fjölnismenn og þorri landsbúa kaus Þingvöll, en ástæðurnar, eins og þær voru þá, kjarkleysið, örbirgðin og vantraustið um mátt og getu þjóðarinnar aftraði því að óskin rættist. Jón Sigurðsson, sem sannanlega hylti hugmyndina um Öxarárþing í hjarta sínu, beitti sjer þó fyrir því, að þingið yrði endurreist í Reykjavík. Hann lagði, eins og eðlilegt var, alla áhersluna á það, að fá þingið endurreist og sá vel, að deilan um samkomustaðinn mátti ekki tefja framkvæmdirnar. Eins og þá var ástatt, gat varla um annað verið að ræða en setja þingið niður í Reykjavík. Flest skorti, sem þörfin krafði. Húsaskjól vantaði alveg fyrir þingið, og það var ekki hægt að fá nema hjer. Ekki svo mikið sem vaðmálsdúkarnir ofan af lögrjettunni fornu voru til að skýla því með. Fjárráð öll voru á þeim tíma í höndum útlendrar stj. og fátækt landsmanna var svo mikil vegna fellivetra, óárunar, útlendrar stjórnar og langvinnrar áþjánar, að enginn vegur var til þess að byggja yfir þingið. Þess vegna var lotið að lægsta boðinu og þinginu holað inn í latínuskólann gamla, þar sem það varð að hýrast nær 40 ár. Landsmenn beygðu sig fyrir nauðsyninni, og alla stund síðan Alþingi var endurreist og fram til 1918 hafa hugir landsmanna framar öllu öðru snúist um endurheimt þess ríkisrjettar, sem til varð með stofnun Alþingis 930, en sem um aldaraðir hafði verið í járngreipum útlendra þjóða.

Það er fyrst eftir 1918, er sjálfstæðisbaráttunni lauk, að verulega fer að bóla af nýju á ósk Fjölnismanna um Öxarárþing og hún hefir síðan orðið háværari með ári hverju. Ritgerðir hafa birtst í tímaritum og blöðum, sem nær allar hafa hnigið í eina átt og hvatt til þingflutnings og endurreisnar Öxarárþings. Ýmsir hinna ritfærustu manna hafa fylkt sjer um málið og ritað um það snjallar hugvekjur, og skal jeg, eftir minni, nefna nokkrar þeirra.

Með þeim fyrstu, sem þögnina rufu um þetta, má nefna prófessor Magnús Jónsson, hv. 1. þm. Reykv., og ritaði hann um þingflutninginn í Eimreiðina 1923 mjög vel og einarðlega. Í sama tímariti hefir einnig birtst tilþrifamikil ritgerð um þingflutning eftir ritstjóra Svein Sigurðsson, og önnur eftir dr. Björn Þórðarson, sem þó að mestu snertir hátíðahöld á Þingvelli 1930. Þá ræðir Jónas ráðh. Jónsson um Öxarárþing í ritinu „Komandi ár“ og hvetur til flutnings. Ennfremur hafa þeir Hákon Finnsson bóndi í Borgum í Tímanum og Steinn K. Steindórsson í Íslandi ritað af mikilli alvörugefni um þingflutninginn. Loks nefni jeg Jóhannes skáld úr Kötlum, sem næstliðið haust birti í Iðunni erindi um þingflutning til Þingvalla, fult af fjöri og áhuga. Hefir hann einnig í því sambandi bent á annarskonar stofnun, sem rísa ætti við Öxará á næstu árum og vinna um ókomnar aldir í þágu íslenskrar menningar, stofnun, sem meiri rjett á á sjer en bygging leikhúss eða gildaskála í Reykjavík.

Fleiri hafa stutt þetta mál í blöðum, þótt jeg hafi ekki litið eftir fleiri nöfnum. Hitt er víst, að á dagskrá hefir það víða verið á mannfundum, og minnist jeg sjerstaklega skörulegs fylgis við það af hendi Kristins E. Andrjessonar kennara á Hvítárbakka. Hefir hann unnið einarðlega að þessu máli, haldið um það fyrirlestra og vakið hreyfingu því til fylgis í nærsveitum skólans. Yfirleitt hefir þessi hreyfing fylgi um alt land, svo fremi jeg veit, og hefir hún óðfluga útbreiðst síðan 1926.

Nokkrar hjáróma raddir hafa að vísu heyrst, sem mælt hafa móti þingflutningi, en einhliða hafa rök þeirra verið, svo sem síðar mun sýnt.

Jeg skal játa það, að alt frá æsku, er jeg las Fjölni og kyntist skoðun þeirra Fjölnismanna um þingstaðinn, hefir þingflutningur vakað fyrir mjer eins og glæsilegur framtíðardraumur, en aldrei hefir sá draumur heillað mig eins mikið og nú síðustu árin, árin, sem jeg hefi á þingi verið og kynst mest skuggahliðum þingstaðarins núverandi.

Mig minnir, að það væri haustið 1919, að jeg fyrst hreyfði opinberlega þessu áhugamáli mínu á landsmálafundi nokkurra þingmanna hjer í Reykjavík, og var með fám orðum um þetta getið rjett á eftir í Tímanum, ásamt öðrum till. fundarmanna. Afleiðingin varð sú, að rjett á eftir kom út í Ísafold hvatvísleg ádeila til mín fyrir þá ofdirfsku að hreyfa slíku máli. Valdi blaðið mjer ýms hnjóðsyrði og lagði megináhersluna á þá lítilsvirðingu, sem höfuðstaðnum væri sýnd með till. um burtflutning þingsins. Jeg mun hafa svarað þessari hlálegu gagnrýni með nokkrum spaugsyrðum, en man ekki, hvar þau voru birt. Hitt man jeg, að nokkru síðar birtust sumar ritgerðir þær um þingflutning, er jeg áður nefndi, og ýttu þær víða undir hreyfinguna, enda kom málið fram á nokkrum þingmálafundum 1924 og 1925, og fjekk það hvarvetna góðar undirtektir, að minsta kosti í Múlaþingi, og svo hefir verið ætíð síðan.

Eðlilegt framhald af fyrnefndum ritsmíðum og undirtektum þingmálafundanna var svo það, að fram var borin hjer í hv. Nd. 1926 till. til þál. sama efnis og sú, sem nú liggur fyrir. Hana flutti ásamt mjer hæstv. deildarforseti (BSv) og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Afdrif hennar urðu svo sem grg. þessarar till. ber með sjer, að hún fjell með 14:12 atkv., en hún var ekki gleymd að heldur.

Átta mánuðum síðar, eða á öndverðu ári 1927, birtist í nokkrum blöðum Varðar allþung ádeila til stuðningsmanna till. eftir Einar Kvaran rithöfund, og snerist hún fyrst og fremst að frsm. Þessi rithöfundur fann enga skynsamlega ástæðu fyrir þingflutningi í umr. um málið á þingi og taldi þær, sem fram voru bornar, „rómantískt“ tilfinningahjal og fornaldardýrkun, en áleit hugmyndina um þingflutning eiga rætur í óvild til Reykjavíkur. Hinsvegar virtist honum, að þinghald í Reykjavík mundi hafa bæði holl og mentandi áhrif á einstaka þm. og þingið í heild sinni.

Þessi málsvörn sór sig öll í ætt við ádeiluna í Ísafold, sem jeg hefi áður um getið, er málinu var hjer fyrst hreyft. Miðdepill alls átti að vera Reykjavík, hvað sem liði óskum og þörfum annara landsmanna. Þessari Varðargrein mun aldrei hafa verið svarað beinlínis, en óbeint hefir svarið birtst í nýrri sókn þeirra, er þingflutnings óska, og aldrei þó svo eindregið sem nú.

Um 30 áskoranir liggja nú fyrir þinginu um þjóðaratkvgr. vegna þingflutnings, sumpart í þingmálafundargerðum, sumpart í skeytum eða skriflegum erindum frá ungmennafjelögum víðsvegar af landinu.

Um rök með eða móti þingflutningi má að sjálfsögðu margt segja, þótt ekki liggi það beinlínis fyrir að þessu sinni. Hjer er um það eitt að ræða að gefa þjóðinni færi á að láta óskina um þingflutning í ljós, eða hafna honum, og vissulega væri óviðfeldið að neita þjóðinni um atkvgr., eftir að hennar hefir svo alment verið óskað.

Færi atkvgr. fram með þeim hætti, að fleiri mæltu móti flutningnum en með, myndi máli þessu lokið um langan tíma. Færi hinsvegar svo, að fleiri óskuðu flutnings en móti mæltu, yrðu að sjálfsögðu rökin vegin með og móti og úrslitum hagað eftir því.

Opinber mótmæli gegn þingflutningi hafa fá önnur verið en þau, sem jeg hefi nefnt. Þó hefir nýlega birtst í Verði ritstjórnargrein til mótmæla, en hún er lítið annað en endurtekning á Varðargrein Einars H. Kvarans um fornaldardýrkun og óvild til Reykjavíkur, auk nokkurra óvenju fátæklegra umbúða um þessi gömlu slagorð. Þann skiljanlega metnað höfuðstaðarins, sem Ísafoldargreinin fyrnefnda lagði svo mikla áherslu á, kunna víst flestir að meta. En hollustu- og menningaráhrifin, sem þingið njóti af verunni í Reykjavík eftir kenningu Varðarhöfundarins frá 1927, hygg jeg, að fáir utan Reykjavíkur vilji viðurkenna.

Vegur höfuðstaðarins og skynsamlegur metnaður á að vera vel trygður, þótt Alþingi sje á brautu flutt, með öllum opinberum stofnunum, sem í Reykjavík eru og verða. Að krefjast þess, að hagsmunir og óskir alls þorra landsmanna lúti í lægra haldi fyrir hagsmunavonum og metnaði nokkurra höfuðstaðarbúa er fjarstæða, sem hefnir sín sjálf fyr eða síðar. Það verður hvort sem er ljósara með ári hverju og áþreifanlegra, að vera þingsins í Reykjavík er því og þjóðarheildinni enginn ávinningur. Þeirrar skoðunar verður jafnvel ósjaldan vart í fjarlægum landshlutum, að áhrif bæjarins á þingið sjeu því skaðvænleg. Öfugmælin hjá Varðarhöfundinum um holl og mentandi áhrif höfuðstaðarins á þingmenn og þingið í heild verða tæpast tekin alvarlega, enda hafa þau vissulega fáa sannfært.

Það er lýðum ljóst, að virðingu þingsins er hætta búin af sambýlinu við bæinn. Um þingið er talað og ritað í höfuðstaðnum eins og það væri fjelag stigamanna eða ræningjabæli. Hver óvalinn kaffihúsagestur og götudrós getur leyft sjer átölulaust að óvirða það í orðum og einstaka þm. Þarf enga fjölvitringa til að sjá og skilja, hve banvæn slík sambúð er og fjarri því að færa hollustu, hvort heldur er þingmönnum eða bæjarbúum.

Um menningargildi bæjarins fyrir þm. er það að segja, að það mundi engu minna, þótt Alþingi flyttist á brautu og losnaði að einhverju leyti við þann ófagnað, sem sukki og rekistefnu bæjarmanna fylgir. Þm. hafa ærin störf og vandasöm og um þingtímann geta þeir ekki að ósekju öðru sint. Jafnvel viðkynningin við þá mörgu fræði- og andans menn, sem í bænum dvelja, verður oftast að litlu liði vegna annríkis, en götulíf bæjarins, lýðskrum, skrípisháttur, kröfugöngur o. fl., sem jeg hirði ekki að telja, getur hvorki orðið til menningarauka eða sálubótar fyrir oss gömlu sveitakarlana nje heldur, að minni hyggju, þá yngri kynslóð. Og jeg held því hiklaust fram, að þau illu, tefjandi, lamandi og truflandi áhrif, sem bærinn hefir á þm. og þingstörfin, yfirgnæfi margfaldlega þá kosti, sem sambýlið hefir að bjóða.

Um þá ógeðslegu tilgátu Varðarhöfundanna, að óvild til Reykjavíkur sje undirrót kröfunnar um þingflutning, þarf eigi margt að ræða. Óvild eða kala til bæjarins verður að skilja eins og óvild eða kala til Reykvíkinga. Slík getsök er hvorki viturleg eða góðgjarnleg, þótt handhæg kunni að vera í rökþrotum, þegar slæman málstað á að verja, og hún verður að hreinni fjarstæðu, þegar þess er gætt, að krafan er annarsvegar borin fram af íbúum Reykjavíkur og innfæddum Reykvíkingum. Auk þess eiga víst flestir stuðningsmenn till. þeirrar, sem fyrir liggur, vini og frændur í Reykjavík, sem þeir mundu alls góðs unna. Varðarhöf. frá 1927 hefir vissulega mistekist um tilgátu þessa, og verð jeg að segja, að mjer þykir fyrir því, að hann, sem jeg met svo mikils vegna andlegs atgervis, mannkosta og þjóðnýtrar starfsemi, skyldi villast út í þessar fjarstæður.

Ummæli hans um fornaldardýrkun eru hinsvegar meinlaus og ljettvæg tilraun til að andmæla þingflutningi, en kraftlítil er hún og verður. Slagorð eins og fornaldardýrkun má nota um alla viðleitni manna til að geyma fornan menningararf þjóðarinnar, svo sem starf Konráðs Gíslasonar og Jónasar Hallgrímssonar að leiða forntunguna aftur til öndvegis í íslenskum bókmentum sem líkasta þeim forna búningi hennar. Líka mætti á sama hátt kalla fornaldardýrkun rannsókn fornra fræða og rústa, alt, sem lýtur að varðveislu þeirrar þjóðlegu menningar. En það verða þeir að muna, sem nota vilja orðið „fornaldardýrkun“ um slíka hluti, eða eins og hnjóðsyrði, að það lætur ekki vel í eyrum þeirra, sem meta kunna slík fræði.

Jeg ætla ekki að eyða fleiri orðum að röksemdum þessara gömlu andmælenda í Ísafold og Verði. Óneitanlega hafa þeir framar öllu öðru borið hag og metnað höfuðstaðarins fyrir brjósti, og má vel vera, að þetta verði þeim til rjettlætingar talið á dómsdegi, þótt lítt sje metið hjer.

Í umr. um þetta mál 1926 var ein höfuðröksemd borin fram gegn því, sem öllu öðru átti að vera máttugri, og var það kostnaðurinn, sem af flutningnum mundi leiða. Úr honum og erfiðleikunum var gerð sú grýla, sem ekkert átti að hrökkva við. Talað var um þinghúsbyggingu fyrir hálfa miljón króna og margvíslegan aukakostnað og erfiðleika, sem þjóðinni mundi ofviða. Svipaðar viðbárur hafa síðan heyrst hjá þeim fáu mönnum, sem andmælt hafa flutningi Alþingis, og í nýútkominni Varðargrein er kostnaðaráætlunin færð upp í nokkrar miljónir.

Um erfiðleikana við þinghald á Þingvöllum er allsendis óþarft að tala. Með samgöngutækjum nútímans eru þeir hverfandi litlir í samanburði við erfiðleika fyrri tíðar, sem yfirstignir voru þó um 900 ár, og það á meðan öll samgönguskilyrði voru margfalt erfiðari en nú gerist. Kostnaður við þinghúsbyggingu á Þingvelli, með nauðsynlegum aukabyggingum þingsins vegna, hygg jeg að muni eigi mjög óvarlega áætlaður um 500 þús. kr. Með þeirri fjárhæð hygg jeg, að sjeð sje fyrir byggingarþörf þar, og 500 þús. kr. er ekkert fjárhagslegt Grettistak og þjóðinni engin ofraun, og síst af öllu þegar þess er gætt, að núverandi þinghús getur þá fullnægt þörfum háskólans og losað ríkissjóð við dýra byggingu háskólans vegna.

Að sjálfsögðu mundi þingflutningurinn hafa nokkurn kostnað í för með sjer vegna ferðalaga milli Reykjavíkur og Þingvalla, en önnur aukin gjöld er ástæðulaust að meta mikils. Enda er það mála sannast, sem hv. þm. V.-Ísf. sagði 1926, er um kostnað vegna þingflutnings var deilt, að til eru þeir hlutir, sem ekki hæfir að meta til peninga. Það á hvergi betur við en hjer. Enginn reynir að meta starf þingsins til peninga, enginn telur í verðlagsskrá andlega eða líkamlega heilbrigði þjóðarinnar, gáfur hennar, þrótt eða menningu, og engum kemur til hugar að meta til peningaverðs uppeldisáhrif góðs heimilis á æskumanninn eða hjúkrun móður við barn. Alt er þetta hafið yfir mat og getur aldrei orðið metfje. Líkt er því farið um þá stofnun, sem öll velfarnar þjóðarinnar styðst við, að öryggi hennar verður ekki metin í aurum, álnum eða fiskum. Aðeins andleg afstyrmi eða aurasjúkar smásálir geta í alvöru miðað störf og starfhæfi Alþingis við álnir eða fiska, en svo virðist mjer þó þeir gera, sem einblína á aurana eins og það allra helgasta, þegar um þingflutninginn er að ræða.

Jeg hefi haldið því fram, og geri það enn, að líkurnar bendi sterklega til þess, að árlegur þingkostnaður yrði minni á Þingvöllum en í Reykjavík, og það byggist fyrst og fremst á því, að þingið mundi standa skemur og tíminn notast betur. Auðvitað er ekki hægt að sanna þetta án reynslu, en hver, sem þekkir þingstörfin eins og þau venjulega ganga hjer, með kjósendaræðum dag eftir dag vegna pallbúa og annara tilheyrenda, lýðskrumi einstakra manna og milliburði erinda milli utan- og innanþingsmanna, mun geta farið nærri um tímaeyðsluna, sem af þessu stafar. Þó er enn verri sú sífelda truflun, sem bæjarsukkið og vafningar um allskonar bæjarerindi valda, og sem á öllum tímum draga hugann frá þeim störfum, sem einmitt þarf að njóta næðis við.

Eftir þeirri reynslu, sem jeg hefi fengið um þingstörf, og kynnum þeim, sem jeg hefi af starfhæfi einstaklinganna, virðist mjer efunarlaust, að Reykjavík sje lakasti staðurinn, sem hægt er að velja þinginu, ef miða á við starfhæfi þess og greiðlega og góða afgreiðslu málanna. Hvern annan stað sem væri á landi hjer mundi jeg heldur kjósa því þeirra hluta vegna. Hitt er annað mál, að vegna þess að stjórnarsetrið er og verður fyrst um sinn að vera í Reykjavík, þá leiðir af því, að samkomustaður þingsins verður helst að vera þar, sem tiltölulega er auðvelt að ná til Reykjavíkur, og eins fyrir það, þótt stjórnarskrifstofa yrði höfð opin á þingstaðnum um þingtímann.

Það er út af fyrir sig mikið lán, að ekki þarf að deila um samkomustað þingsins, ef flutt verður. Það er ómetanlega mikilsvert, að allir geta orðið sammála um staðinn og að hann uppfyllir flest eða öll bestu skilyrði fyrir hentugan samkomustað þings og er í svo hæfilegri fjarlægð frá Reykjavík, að engum verulegum erfiðleikum valda nauðsynlegar milliferðir að sumri.

Það er ómetanlegt, að yfir Þingvöllum hvílir sú helgi í hugum alls þorra þjóðarinnar, að hún vill vernda staðinn eins og dýrmætt hnoss og minningarnar, sem við hann eru tengdar. Þess vegna er líka ósk hennar um að flytja landsins dýrstu allsherjarstofnun á þennan stað auðskilin og eðlileg. Óskin er annarsvegar bygð á skynsamlegri ályktun um haldkvæmi staðarins, en hinsvegar á þeirri trú, að þinginu farnist þarna betur en annarsstaðar, og sú trú á engu minni rjett á sjer en aðrar trúarsetningar. Sú trú er líklegri til að styrkja alla góða viðleitni þingsins í að inna vel af hendi sitt vandastarf en vantraust þjóðarinnar á sambýlinu við Reykjavík.

Mjer kemur ekki á óvart, þótt lýðskrumarar bæjarins ypti öxlum og kalli þetta fornaldardýrkun. Þeim er auðvitað sá mikli vandi á herðar lagður að gæta hagsmuna bæjarins, og þeir eru margháttaðir. Sjónhringur sumra þeirra manna virðist eigi ná út fyrir bæinn og bærinn er sá gullkálfur, sem þeir dansa um.

Auðvitað er þinghaldið bænum og bæjarbúum nokkur uppspretta atvinnu og tekna, og hún mundi ekki alveg þorna, þótt það flyttist austur um heiði, en að sjálfsögðu mundi hún minka. Hitt er aftur víst, að róður þyngdist fyrir þeim bæjarmönnum, sem nota vilja nálægð þingsins til að ota fram einkahagsmunum og sjerstökum erindum einstakra manna og fjelaga hjer. Aðstaða bæjarins yrði þá lík og annara hjeraða og bæja landsins, og þingið um leið óháðara nágrenninu.

Hjer er yfirleitt ekki ástæða til að fara að rökræða öll þau mörgu atriði, sem til greina geta komið við flutning þingsins, eða að telja upp alt, sem mælir með honum eða móti, enda yrði það efni seintækt. Höfuðatriðin eru þau: Fyrst, að þingið er illa sett hjer, annað, að þingflutnings er mjög alment óskað, þriðja, að hvorki kostnaðurinn eða aðrir erfiðleikar við þingflutninginn eru neitt fráfælandi, og fjórða, að bersýnilegt er, að Alþingi á Þingvöllum verður miklu frjálsara og óháðara dægurþrasinu en hjer getur orðið, og þá um leið afkastameira og kostnaðarminna.

Marga aðra kosti þingflutnings mætti telja og hefir oft verið á þá bent, bæði af höf. þeim, sem jeg áður nefndi og um málið hafa ritað, og öðrum, sem það hafa rætt, en með því að komið er svo að segja að þinglausnum, ætla jeg ekki að tefja tímann við að skýra frekar skoðanir þeirra og tillögur.

Eins og aukaatriði, sem þó er mikilsvert, skal jeg þá nefna samneyti og sambúð allra þm. á Þingvöllum, ef þingið yrði flutt og heimavist allra á einum og sama stað. Jeg veit ekkert líklegra til að draga hugi þeirra saman og laða þá til bróðurlegrar samvinnu og skyldurækni en slíka sambúð. Fyrir öll störf þingsins mundi það einnig til mikils ljettis og öryggis, að allir þm. væru líkt settir um aukastörf og heimilisumhyggju. Hvorki mundu þá embættisstörf eða heimilis að neinu ráði grípa inn í þingstörfin. Og í stað þess að stuðla að langri þingsetu, eins og heyrst hefir stundum, að einstakir þm. búsettir í Reykjavík gerðu, mundu allir verða samtaka um að vanda þingstörfin og hraða þeim eftir föngum, til þess meðal annars að geta komist til heimila sinna í tæka tíð.

Um þau heilsusamlegu, örvandi og göfgandi áhrif hins fríða umhverfis þingstaðarins forna við Öxará ætla jeg ekki að ræða. Sá þáttur þessa máls er þó ekki sá ómerkasti, en hann verður aldrei rjettilega metinn af þeim, er skoða framtíðina í ljósi þeirrar erlendu sníkjumenningar, sem flæðir yfir Reykjavík frá stórborgum Evrópu og gagnsýrt hefir bæi og kauptún þessa lands.

Munurinn á fegurð og tign fjallahjeraðsins við Öxará verður ætíð í huga mínum og mikils fjölda landsmanna eins og uppspretta ljóss og lífs, sem ekkert á hliðstætt í erli og tískuglaumi fjöldans á götustjettum bæjarins. Og undarlega má þeim mönnum vera farið, sem ekki finna áhrif náttúrufegurðar á slíkum stað og geta notið hennar í starfi sínu eins og eggjunar og orkugjafa.

Jeg ætla nú ekki að lengja mál mitt að ráði úr þessu. Þó verð jeg áður lýkur að nefna nokkur erindi, sem þessu þingi hafa borist um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna flutnings Alþingis til Þingvalla, en mjer hefir ekki unnist tími til að lesa þau öll. Eins og áður er nefnt, eru þau um 30, þar af tvö, sem jeg man eftir í þingmálafundargerðum úr Múlaþingi, en þau, sem hjer skulu talin, eru frá U. M. F. ýmsra hjeraða. Þessi hefi jeg lesið:

Frá U. M. F. Ársól í Eyjafirði,

— — — Stjarnan í Dalasýslu,

— — — Dagsbrún í Höfðahverfi,

— — — Reykhverfinga,

— — — Höfðahverfis,

Samb. þingeyskra ungm.fjel.,

Frá U. M. F. Þröstur á Skógarströnd,

— — — Þórsmörk,

— — — Eyrarbakka,

— — — Vestur-Kollsvíkur,

— — — Vorblóm Ingjaldss.,

— — — Akraness,

— — — Smári Strandasýslu,

— — — Holtshr. Fljótum,

— — — Þorsteinn Svörfuður,

— — — Máni Skaftafellss.,

— — — Vísir Skaftafellss.,

— — — Vísir Hvalfj.strönd,

— — — Ólafur Pá Búðardal,

— — — Vísir Arngerðarevri,

— — — Biskupstungna.

Mjer kemur ekki á óvart, þótt einhverjir vilji líta á óskir ungmennafjelaganna eins og barnaskap eða marklítið hjal reynslulausra manna, og jeg myndi ef til vildi líta líkt á málið, ef jeg vissi ekki, að mikill fjöldi reyndra og ráðinna manna styður af heilum hug þessar óskir æskumannanna. Jeg veit vel, að margir bæjarbúar, einkum hjer í Rvík, andæfa þessum óskum og halda þær sprottnar af undirróðri og fljótfærni, en það er helber misskilningur. Óskirnar eru sprottnar af ást og velvild til niðjanna og umhyggju fyrir velfarnan þeirra. Hvatirnar eru þess vegna svo hreinar og óeigingjarnar sem mannlegar hvatir geta verið. Óskirnar eru komnar frá öllum landshlutum og bæði ungir og gamlir bera þær fyrir brjósti.

Þessi alda er nú þegar risin svo hátt, að hvorki er hyggilegt nje holt að neita þjóðinni um þann tillögurjett, sem atkvæðagreiðslan veitir, rjett, sem hún á fulla heimting á og sem er eina rjettláta aðferðin til að skera úr þessu máli, og jafnframt sú viturlegasta.