18.05.1929
Neðri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í D-deild Alþingistíðinda. (3883)

126. mál, þjóðaratkvæðagreiðsla um samkomustað Alþingis

Magnús Guðmundsson:

Jeg varð hissa á því, að hv. aðalflm. skyldi halda eins langa ræðu og hann hjelt nú á síðasta degi þingsins. Jeg hygg, að þessi ræða hafi verið ætluð til birtingar annarsstaðar en hjer. Þótt ræða hv. 1. þm. S.-M. væri löng, saknaði jeg þó þess, sem nauðsynlegast var, og það er kostnaðaráætlunin. Hv. þm. skaut henni til hliðar með þeim orðum, að heilbrigði þjóðarinnar yrði ekki metið til fjár. Ef hjer væri um að ræða heilbrigði þjóðarinnar, væri þetta kannske rjett, en jeg hygg, að hv. þm. muni reynast örðugt að sanna það. Hinsvegar geri jeg ráð fyrir, að erfitt yrði að búa til nákvæma og sundurliðaða kostnaðaráætlun. Eins og hv. 2. þm. Reykv. benti rjettilega á, þarf til þessa stjórnarskrárbreytingu, og svo er annað atriði, sem miður fer, og það er, að samkv. skoðun hv. 1. þm. S.-M. á þingið að vera á sumrin, því að þá telur hann öll verk vinnast betur en á veturna. Þegar þetta er tekið með í reikninginn, má fastlega gera ráð fyrir því, að margir þingbændur verði mótfallnir þessu. Þeir vilja yfirleitt alls ekki sumarþing. Það hefir verið rætt hjer um ýmsar byggingar, sem þyrfti að reisa, ef Alþingi yrði flutt, en ein hefir ekki verið nefnd, og það er prentsmiðja. Þá yrðu ríkisprentsmiðjurnar að vera tvær, því að varla yrði hægt að taka Gutenberg upp með rótum. Þá verður stj. og stjórnarráðið að flytjast á Þingvöll sökum þess, að ómögulegt er fyrir ráðh. að gegna störfum sínum á báðum stöðum, þótt ekki sjeu nema 60 km. á milli. Mjer virðist óumflýjanlegt að gera kostnaðaráætlun, og það er bæði hægt að athuga það í n. og hjá stj., og enda þó að jeg sje ekki vanur að vera fylgjandi því, að málum sje vísað til stj., mun jeg þó vera það í þetta sinn, af því að jeg veit, að stj. er ósamdóma um málið, og mun því mega gera ráð fyrir, að það verði rannsakað frá öllum hliðum. Jeg geri því það að till. minni, að málinu verði vísað til hennar, að loknum umr.