18.05.1929
Neðri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í D-deild Alþingistíðinda. (3884)

126. mál, þjóðaratkvæðagreiðsla um samkomustað Alþingis

Hákon Kristófersson*):

*) Ræðuhandr. óyfirlesið. Eins og sjá má á þskj. 355, er jeg einn af flm. þáltill. þeirrar, sem hjer er til umr. Þessi till. hefir þegar sætt allmikilli mótspyrnu hjer í deildinni, og kemur okkur flm. það ekki á óvart. Skal jeg einnig játa, að jeg sje nú galla á till., sem mjer duldust í fyrstu. Einkum tel jeg það galla, að till. skuli vera borin fram í Nd., en ekki í Sþ., eins og beinast hefði við legið.

Jeg vil í fáum orðum skýra frá mínu sjónarmiði, hvað meint er með till. Hv. aðalflm. skýrði svo frá, að tilætlunin væri að gefa þjóðinni kost á að segja álit sitt um þetta mál. Jeg vildi gera þessum merka þm. það til geðs að flytja till. með honum, en jeg gat þess þegar í upphafi, að jeg væri andvígur þeim flutningi Alþingis, sem till. fer fram á að þjóðaratkvæði verði greitt um, enda þótt jeg sæi ekki ástæðu til þess að vera á móti því, að þeir, sem óska eftir slíkri breyt., fengju að sjá, hvort meiri hl. þjóðarinnar væri með eða móti.

Jeg álít, að ekki sje hægt að mæla á móti því, að hv. aðalflm. flutti mörg rök fyrir máli sínu um það, að æskilegt væri, að þingið væri haldið á Þingvöllum. Þó virtist mjer sem aðalástæðan væri trygð við þennan fornhelga sögustað, en ekki kröfur tímans, enda má benda á, að ekki ómerkari maður en Jón Sigurðsson taldi þann þingstað óhentugan. Jeg vil þó á engan hátt gera lítið úr röksemdum hv. aðalflm., því að jeg veit, að hann hefir frá upphafi verið einlægur í þessu máli; því tel jeg hvorki mig nje aðra hafa rjett til þess að taka framkomu hans í þessu máli illa upp eða gera lítið úr henni.

Hitt verð jeg að telja miður viðeigandi hjá hv. flm., að um leið og hann rökstuddi álit sitt á málinu, gerði hann gys að skoðun þeirra, sem eru þingflutningnum andvígir. Sagði hann, að það væru einungis einstaka hjáróma raddir, sem á móti væru. Verð jeg að segja, að jeg tel hv. þm. hafa tekið þar fulldjúpt í árinni. Jeg játa það, að bæjarlífið kunni að einhverju leyti að hafa spillandi áhrif á þingið, en jeg held, að hjá þeim áhrifum yrði ekki komist með sumarþinghaldi á Þingvöllum. Gæti jeg trúað, að hv. aðalflm. þætti sem nokkrum fölskva brygði á hinn fornhelga stað, er hann færi að sitja þar á sumarþingum, og að hann sæi, að þingið væri ekki laust við bæjaráhrifin, þótt það væri ekki lengur í Reykjavík.

Það hefir verið bent á það hjer, og framhjá þeim rökum verður ekki komist, að hjer í Reykjavík er höfuðstaður landsins og hjer eru menn og gögn samankomin, sem þingið verður ávalt að styðjast við í störfum sínum. Sje jeg ekki, að hjá því verði komist, að stj. flytji sig til Þingvalla meðan á þingi stendur.

Jeg get trúað því, að ef margar álíka ræður eru fluttar fyrir þessu máli og sú, er hv. aðalflm. flutti hjer, verði hægt að koma allmörgum óþroskuðum og breytingagjörnum mönnum á þá skoðun, að þingflutningurinn sje nauðsynlegur. Má vel vera, að stjórnarskrárbreyting verði afleiðingin, en það tel jeg vera aukaatriði, því að hjer er ekki um það að ræða, hvenær þessi flutningur eigi að komast í framkvæmd, og þótt till. verði samþ., er ekki hætta á, að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram á næsta ári, því að eins og hv. 1. þm. Skagf. sagði, þarf kostnaðaráætlun að vera fyrir hendi, áður en atkvgr. fer fram. (PO: Hví gera flm. ekki ráð fyrir því ?).

Það er rjett, að flm. hafa ekki komið fram með kostnaðaráætlun, en það stafar af því, að það hefir aðallega vakað fyrir flm. að fá vitneskju um það, hvort meiri eða minni hl. landsbúa væri flutningnum hlyntur. Mjer fyrir mitt leyti hefir aldrei dottið í hug, að meiri hl. atkv. fengist með þingfærslunni. Því að auk þess, að ekki yrði með henni sýnt fyrir þá galla, sem voru á því að halda þing hjer, yrði bændum jafnframt gert erfitt eða ómögulegt að sitja þingið, sem þá yrði að sjálfsögðu sumarþing.

Það þykir nú máske undarlegt að flytja till. og vera ekki hlyntari henni en þetta. En minn stuðningur við málið stafar eingöngu af kurteisi við hv. aðalflm., þar sem jeg vildi ekki setja mig upp á móti því, að hann fengi álit þjóðarinnar um þetta óskabarn sitt. (HStef: Þess stuðnings þurfti ekki með). Það getur rjett verið, en jeg hjelt, að hv. 1. þm. N.-M. kæmi það ekki við, þó að jeg vildi votta hv. aðalflm. samúð mína. Mjer er satt að segja spurn um það, hvort það er hjartans meining hv. 1. þm. N.-M., að þessa till. eigi að samþ. Jeg held satt að segja, að sumir flm. kunni að hafa sömu skoðun um málið og jeg, enda þótt þeir sjeu ekki svo hreinskilnir að kannast við það. Jeg man það að vísu, að Jónas Hallgrímsson kallaði þingið hjer í Rvík „hrafnaþing kolsvart í holti, fyrir haukaþing á bergi“. En hvaða litur sem er á þinginu, held jeg að hann breyttist lítið, þótt það yrði flutt.

Jeg þykist þá hafa gert grein fyrir afstöðu minni í þessu máli. Meðan engin kostnaðaráætlun liggur fyrir, tel jeg ótímabært að ræða málið, og vildi jeg því mælast til, að hv. aðalflm. vildi taka till. aftur að þessu sinni. En eins og jeg hefi þegar sagt, tel jeg alveg ómaklegt að álasa hv. aðalflm. fyrir framkomu hans í þessu máli, því að jeg veit, að skoðun hans um það hefir verið hin sama frá því fyrsta. Ekki vil jeg þó gera þau orð hans að mínum orðum, að þingið sje óvirt hjer af hverjum kaffihúsagesti og götudrós. Jeg veit ekki, hvaða heimild hv. þm. hefir til að flokka fólk þannig niður, og satt að segja held jeg, að það sjeu fleiri en Reykvíkingar, sem ekki fara sem virðulegustum orðum um þingið, þó að jeg vilji nú álíta, að þingið eigi sjaldnast þá dóma skilið. (MJ: Það er sjálfsagt misjafnt, hve mjög þetta fólk leitar á þm.). (Hlátur). Jeg veit, að ekkert af þessu fólki hefir gert árásir á mig.

Mjer þótti það einkennilegt, að þrátt fyrir hinar mörgu óskir frá ungmennafjelögunum um slíka atkvgr., hafa ekki borist tilmæli um hana nema frá tveim þingmálafundum. Bendir það ef til vill til, að það sjeu einkum hinir yngri og óreyndari, sem eru flutningnum hlyntir. Hinsvegar geri jeg ráð fyrir, að fæstir flm. hafi ákveðið afstöðu sjálfra sín til flutningsins, en vilji aðeins taka tillit til þeirra óska, er fram hafa komið um þjóðaratkvgr.

Hinsvegar mótmæli jeg því, að nokkur ljettúð liggi á bak við þetta mál. Og það liggur í augum uppi, að það getur á engan hátt verið eiginhagsmunamál hv. aðalflm.