18.05.1929
Neðri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í D-deild Alþingistíðinda. (3886)

126. mál, þjóðaratkvæðagreiðsla um samkomustað Alþingis

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Mjer er tekin upp sama aðferð og stundum undanfarið, sem sje að hefja málþóf til þess að tefja fyrir og aftra afgreiðslu málsins. En þegar nú er ákveðið, að þingi verði slitið í dag, þá er sjáanlegt, hvert stefnir með þessa till. Jeg hefi undanfarið setið að mestu hjá við umr. og ekki látið það á mig fá, þó stundum hafi verið nokkuð kuldalega að mjer vikið. Hefi jeg gert það til flýtis öðrum málum og með þeirri von að fá því fremur tíma til að sinna þessu máli. Sje jeg nú að vísu — og um seinan —, að tími vinst hjer eigi til afgreiðslu.

Jeg mun nú ekki svara orði til orðs þeim andmælum, er fram hafa komið í þessu máli. Þeir munu alls 5, er tekið hafa til máls og mælt gegn till. Hafa mótmæli þeirra aðallega verið bygð á því þrennu, að þingflutningur mundi valda ókleifum kostnaði, að stjórnarsetrið yrði að flytja jafnframt þinginu, en það mundi ógerningur, og að flutningurinn færi í bága við stjórnarskrána. Þetta er alt utan við efnið hjá andmælendum. Hjer er aðeins um það að ræða að gefa þjóðinni færi á að greiða atkv. um það, hvort hún vill flytja Alþingi til Þingvalla eða ekki. Þá fyrst, er úrslit þeirrar atkvgr. eru kunn orðin, er ástæða til þess að gera áætlanir um kostnað, ef atkvæði falla fleiri með flutningi en móti. Hitt, að stjórnarsetrið þurfi að flytja jafnframt Alþingi, er hjákátleg firra, á engu bygð. Og að því er snertir ákvæði stjskr. um samkomustað þingsins, þá kemur fyrst til breytinga á þeim, ef þjóðin með atkvæðagreiðslu krefst þingflutnings.

Að jeg mintist á kostnað við byggingar á Þingvöllum, var vegna þeirra áætlana um hann, sem fram komu 1926 og sem voru hófi nær en fjarstæðurnar hjá hv. 1. þm. Reykv., sem áætlar miljónir til bygginga. 1926 miðuðu mótmælendur máls þessa við ½ milj.

Vegna þess, hve mjer er skamtaður tæpur tími, get jeg ekki vikið að einstökum atriðum mótmælendanna frekar. Mótmælendurnir hafa að mestu tekið sömu orðin hver eftir öðrum. Aðeins 1. þm. Reykv. var dálítið víðförull og get jeg reyndar dáðst að því, hve vel hann hefir flegið kött og farið gegnum sjálfan sig í þessu máli. Jeg hafði vænst þess, að hv. þm. myndi sína fortíð og hrifninguna frá 1923. Hver, sem les Eimreiðargrein hans frá 1923 og ber saman við ræðu hans í dag, mun veita sinnaskiftunum eftirtekt, og þau eru alger endaskifti á sannfæringu mannsins.

Auðvitað má skilja þetta og skýra. Hv. þm. mun nefnilega ekki hafa verið orðinn þm. Reykvíkinga, er hann reit greinina. (MJ: Jeg varð þm. 1921, en greinin birtist 1923). Jæja, hún hefir þá legið svona lengi í skrifborðshólfinu hjá hv. þm. áður en hún birtist. En engum getur hjer leynst kjósendaáhrifin og lýðskrumið.

Jeg verð að segja, að mjer fanst talað af lítilli virðingu um Jónas Hallgrímsson, Tómas Sæmundsson og aðra Fjölnismenn af hv. 2. þm. Reykv., er hann komst svo að orði, að hjer væri aftur verið að vekja upp gamlan draug frá dögum Jóns Sigurðssonar. Þarna lýsir sjer þjóðerniskend, sem rætur sínar á í úthverfum stórborganna, og skal ekki frekar um hana rætt.

Út af því, sem sagt hefir verið um vilja Jóns Sigurðssonar í þessu máli, skal jeg geta þess, að til eru skýr rök fyrir því, að Jón vildi líka hafa þingið á Þingvöllum, ef landsmenn hefðu haft kjark og efni til að krefjast þess. En hann var hygnari en svo, að hann vildi stofna málinu í voða með slíkri kröfu, er alt skorti, sem til þurfti.

Jeg verð nú að láta máli mínu lokið. En það vildi jeg að lokum sagt hafa út af framkomu hv. þm. Barð. í þessu máli, þar sem hann hefir nú vikið frá flutningi till. og mælt móti henni, þótt meðflutningsm. sje, að mjer þykir honum eigi drengilega farast. Vil jeg þó óska honum þess, að ekki hrífi hann svo iðrunin yfir fráhvarfi þessu, að hann fylgi dæmi Júdasar Ískariots og fari af heiminum með líkum hætti sem hann. Og í þeirri von, að hv. þm. sjái sig enn einu sinni um hönd, ætla jeg hjer að ljúka máli mínu. Jeg veit nú, hver verða forlög málsins í þetta sinn og sje því ekki ástæðu til þess að svara frekar mótmælunum. En ekki er ómögulegt, að öðru sinni gefist færi að hreyfa því og svara öfgum mótmælenda.