09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Magnús Jónsson:

Jeg vil með nokkrum orðum gera grein fyrir atkvæði mínu í þessu máli. Jeg mun greiða atkvæði á móti því eins og það liggur nú fyrir, fyrst og fremst af því, að jeg tel það vera dæmalausa ósanngirni og skort á samræmi að fella till. landbn. í þá átt, að smábátaútvegurinn fái að njóta þessarar stofnunar. Það er þó ekki af þeirri ástæðu einni, sem væri í mínum augum ærið nóg til þess að vera á móti frv., heldur af því að jeg tel málinu sjálfu ekki heppilega til lykta ráðið samkv. frv. En jeg hefi ekki viljað þreyta hv. deild með umræðum um málið, af því að mjer hefir virst straumurinn vera svo sterkur með því í þinginu.

Það eru aðallega tvær ástæður, sem jeg hefi fram að færa gegn frv. Hin fyrri er sú, hver áhrif þessi bankastofnun getur haft á peningamálin í landinu yfirleitt. Eins og kunnugt er, þá hafa áður komið hjer fram á Alþingi mismunandi skoðanir um það, hvort heppilegt væri, að ríkið ræki almenna bankastarfsemi samhliða seðlaútgáfunni. Ýmsir þingmenn vildu hafa sjerstakan seðlabanka, og vildu jafnvel, að ríkið ræki ekki aðra bankastarfsemi. Jeg gat ekki fallist á þetta, og þar sem ríkið átti banka, sá jeg ekki, að nein hætta gæti af því stafað, þó að hann væri látinn taka við seðlaútgáfunni. Auðvitað breyttist þetta nokkuð við þá breyting á Landsbankalögunum, sem gerð var á síðasta þingi; áhættan jókst þegar ákveðið var, að ríkissjóður skyldi bera ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans, af því að búast mátti við, að það myndi auka starfsrekstur Landsbankans.

Nú er með þessu frv., sem hjer liggur fyrir, farið fram á, að ríkið eignist annan banka og beri einnig fulla ábyrgð á öllum hans skuldbindingum, svo sem sparifje. Hjer er farið fram á að kljúfa sundur bankastarfsemi landsins í tvent. En það er bersýnilegt, að verði stofnaður nýr banki fyrir landbúnaðinn, þá leiðir það til aukinnar bankastarfsemi og útlána. Hjer á að gera bændum hægara fyrir um það að fá lán, og veita með því meira fje til þeirra. En á hinn bóginn er ekkert dregið úr lánsþörf annara, nje heldur aukið lánsfjeð.

Hvað er verið að gera með þessu frv.? Það er verið að auka eftirspurn eftir lánsfje, án þess að auka láns- eða rekstrarfje í landinu jafnframt. Starfsemi Landsbankans minkar ekkert, eftirspurn eftir lánum til Landsbankans verður jafnmikil eftir sem áður. En með því að auka þannig lánsþörfina og eftirspurn lána án þess að auka lánsfjeð, þá getur það ekki leitt til annars en þess, að útlánsvextir bankanna hækki. Aukin eftirspurn eftir lánsfje, sem bankarnir geta tæplega fullnægt, hlýtur að hækka vextina. Það er viðskiftalögmál, sem ekki lætur að sjer hæða, að aukin eftirspurn hækkar verð vörunnar. Aukin útlán og óeðlileg starfsþensla er byrjun að „inflation“, sem bankinn verður að berjast á móti með auknum útlánsvöxtum.

Jeg hefi heyrt það haft eftir hæstv. forsrh., að hann hafi lýst því yfir í þessum umr., að hann væri því meðmæltur, að smábátaútvegurinn fengi sínum þörfum fullnægt á svipaðan hátt og landbúnaðurinn með þessu frv. Þá á líklega að stofna sjerstakan banka fyrir sjávarútveginn, annan klofning út úr Landsbankanum, að líkindum einnig með ríkisábyrgð: enda væri ekki með sanngirni hægt að neita banka annars aðalatvinnuvegarins um þá ábyrgð, sem hinum er veitt.

Þá má gera ráð fyrir, að hinar ungu og unnrennandi iðnaðargreinar hjer á landi biðji um bankastofnun fyrir sig, eða sjerstök lánskjör, sem þau hafa fulla þörf fyrir. Og ef tilgangurinn er annar en sá, að veita aðeins einni stjett sjerstök lánskjör eða hlunnindi, sem jeg vil álíta að sje, þá má búast við, að hver atvinnuvegur komi á eftir öðrum með sínar kröfur. Og ef ekki verður gert neitt til þess að útvega nýtt lánsfje til starfsrekstrar í landinu, þá hækka útlánsvextirnir.

Jeg er alls ekki að amast við því, að fundnar verði leiðir til þess að landbúnaðurinn og bátaútvegurinn fái hentug rekstrarlán. Og á þinginu í fyrra var stungið upp á einni aðferð til þess að bæta úr því, að tilhlutun Íhaldsflokksins. Hjer er í því frv., sem fyrir liggur, bent á aðra leið, og hefði sjálfsagt mátt gera nokkra úrbót og hæfilega fyrir landbúnaðinn án þess að stofna þetta bankabákn.

Það virðist vera orðin trúarsetning innan vissra flokka, að óhætt sje að veita lán í sveitirnar, af því að bankarnir tapi ekki fje hjá landbúnaðinum. Hæstv. forsrh. sagði, að af ca. 30 milj. kr. töpum bankanna undanfarin ár hefðu aðeins 2 milj. kr. tapast á landbúnaðinum. (Forsrh.: Jeg sagði 2%). Nú, það er þá enn miklu minna, sem á að hafa tapast á lánum til landbúnaðarins. Mjer sýnist nú, að það vanti allar forsendur fyrir þessum dómi hæstv. ráðh. Og þegar það er athugað, hvað landbúnaðurinn hefir fengið lítið af lánsfje bankanna, þá á að reikna tapið í % af því fje. Annars má það vel vera, að útlánsvextir megi vera lægri til landbúnaðarins. Þetta á þó ekki við um veðdeild Landsbankans, því að fullar upplýsingar liggja fyrir um það, að hún hefir ekki neitað bændum um veðlán þegar lánsskjölin hafa verið í lagi, heldur hafa lánbeiðnir þeirra verið látnar ganga fyrir öðrum. Hvaða meining er þá í því að stofna aðra veðdeild við Landbúnaðarbankann og skifta fasteignaveðslánsstofnunum á milli kaupstaða og sveita? Máske það sje gert til þess að kaupstaðirnir verði þá frekar fyrir lánsfjárskortinum, en að sveitunum og landbúnaðinum verði á þennan hátt fleytt framhjá því skeri? Jeg vil benda á það til viðbótar því, sem hv. 2. þm. Rang. sagði, að það er best og tryggast fyrir kaupstaðina, að ein sameiginleg veðlánastofnun sje í landinu. Það er mjög óheppilegt að kljúfa veðdeildina í marga flokka, og alveg gagnstætt því skipulagi, sem t. d. Danir eru að koma á hjá sjer í þessum efnum, þar sem þeir eru að setja sínar veðlánastofnanir undir einn hatt. Að hafa 4-5 tegundir vaxtabrjefa til sölu á peningamarkaðnum fyrir lánsstofnanir hjer á landi, er ákaflega óhyggilegt. Það sýnast ekki vera líkur til, að hinn væntanlegi búnaðarbanki geti útvegað nýtt fje á öðrum peningamarkaði en þeim, sem veðdeild Landsbankans hefir sama tækifæri til að fá. Það er hægðarleikur að bæta lánskjörin fyrir sveitirnar með sjerstökum ákvæðum í reglugerð, þar sem veðdeild Landsbankans væri heimilað að lána ríflega út á jarðaveð. Jeg sje því enga skynsamlega ástæðu til þess að stofna þessa nýju veðdeild; en ef til vill er það meiningin, að kaupstaðirnir eigi að líða fyrir sveitirnar, og þá hlýt jeg að vera á móti þessari ráðstöfun.

Um sparisjóðs- og rekstrarlánadeild bankans, sem á að reka almenna bankastarfsemi, er það að segja, að hún er beinlínis grímuklædd árás á Landsbankann. Það má að vísu segja, að þetta geri ekki til, þar sem bankarnir eru í höndum sama aðila — ríkisins; en þó er þetta undarleg ráðstöfun.

Ef það á að stofna sjerstaka rekstrarlánadeild, þá finst mjer haganlegra, að hún sje rekin í sambandi við Landsbankann heldur en að búa um hana sem sjerstakan banka í öðru húsi, aðeins til þess að flytja peninga úr henni til lánsfjelaga. Það er öllum ljóst, að því fylgir miklu meiri fyrirhöfn og kostnaður. Mjer þykir það mjög undarlegt, að bankaráð Landsbankans skuli hafa mælt með þessu frv. Að vísu á það að hafa hag landsins alls fyrir augum. En það á þó sjerstaklega að gæta þess, að ekki sjeu framin fjörráð gagnvart Landsbankanum.

Ef haldið verður lengra áfram á þessari braut, þá liggur ekki annað fyrir en að Landsbankinn verði aðeins seðlabanki og annist hlaupareikningsviðskifti og yfirfærslur, og jeg veit ekki, hvort bankaráðið álítur Landsbankann við því búinn að missa öll önnur viðskifti. Það nær ekki nokkurri átt að ætla að hafa almenna bankastofnun fyrir hvern atvinnuveg; og það, sem bankaráðið segir í áliti sínu um stofnun Búnaðarbankans, er að mestu leyti slúður. Bankaráðið heldur því fram, að hin nýja bankastofnun geri Landsb. engan skaða, og bætir því við, að Landsb. hafi fult vald á sparifje þjóðarinnar með vaxtakjörunum. Já, bankinn getur náttúrlega haldið því frá sjer. Annars er mjer þetta óskiljanlegt. Jeg sje ekki, hvaða ráð Landsbankinn hefir til þess að draga að sjer sparifje landsmanna, fremur en hinn bankinn. Þeir hafa báðir sömu aðstöðu að því er ríkisábyrgð snertir. En þegar ríkið fer nú að taka ábyrgð á hverjum bankanum eftir annan, eins og þegar gálausir menn skrifa upp á hvern víxil, þá fer að verða lítið gagn að ríkisábyrgðinni. Hún getur gert mikið gagn einni lánsstofnun, en þegar um er að ræða fleiri banka, sem keppa hver við annan, þá verður ríkisábyrgðin minna virði.

Jeg skal ekkert um það segja, hvort slík árás á Landsbankann, sem felst í þessu frv., er rjettmæt, en mjer þykir mjög undarlegt, að bankaráðið skuli veita því meðmæli með algerlega meiningarlausum rökstuðningi.

Hin höfuðástæða mín til þess að vera á móti þessu frv. er sú, að það hefir ekki verið athugað, hvort þörf væri á þessari stofnun. Má ekki fela Landsbankanum alla starfsemi sparisjóðs- og rekstrarlánadeildarinnar, sem gert er ráð fyrir í frv.? Mjer virðist það mjög einfalt mál. En um Ræktunarsjóðinn og Byggingar- og landnámssjóðinn er það að segja, að þær stofnanir eru nú til og breytast ekkert við þetta frv. Ef menn á hinn bóginn vilja sameina þær, þá mætti alveg eins leggja þær undir Landsbankann. Hinar deildirnar, sparisjóðs- og rekstrarlánadeildin og veðdeildin, eru báðar teknar af Landsbankanum. En hvers vegna mega þær ekki vera áfram undir einum hatti? Er það gert til þess að fá tækifæri til að skipa nýja bankastjórn og byggja nýtt hús yfir þennan væntanlega banka?

Þá er aðeins eftir að minnast á bústofnslánadeildina; en hún er ekki stórt fyrirtæki og mætti sjálfsagt koma henni líka fyrir í Landsbankanum. Ef ekki má trúa bankastjórn Landsb. fyrir þessari starfsemi allri, þá mætti skipa sjerstakan trúnaðarmann yfir þá deild. Það er yfirleitt miklu eðlilegra að skifta þeirri starfsemi, sem hjer er um að ræða, í deildir í Landsb. heldur en að stofna annan banka. Jeg er ekki í nokkrum vafa um það, að ef einn einstakur maður ætti Landsbankann og vildi svo bæta við þeirri starfsemi, sem hjer er um að ræða, hvernig hann myndi ráða þessu máli til lykta. Hann myndi ekki stofna nýjan banka, heldur fjölga starfsdeildum í Landsb., vegna þess að af því stafar minni hætta fyrir peningamálin í landinu, ef bankastarfsemi þess er óskift, og rekstrarkostnaðurinn yrði miklu minni.

Jeg hefi verið að velta því fyrir mjer, hvernig stendur á þessum undarlegu veðrabrigðum gagnvart Landsbankanum. Hæstv. forsrh. og Framsóknarflokkurinn hefir altaf verið að hossa og kjassa Landsbankann á undanförnum þingum. En þetta frv. er hið mesta frumhlaup, sem Landsb. hefir orðið fyrir síðan hann var stofnaður. Jeg skal ekki leita að skýringum á þessum veðrabrigðum stjórnarinnar og Framsóknarflokksins. Það væri þá helst, að stjórn Landsb. hafi ekki verið nógu eftirlát, en viljað stjórna bankanum eftir öðrum reglum en pólitískum veðrabrigðum á Alþingi.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um málið. Jeg þykist vita, að það verði ekki stöðvað, heldur fari það í gegnum þessa hv. deild, með allri þeirri ósanngirni og skammsýni, sem því fylgir, og þó að lánsheimildin til smábátaútvegsins hafi verið niður feld. Einn kostur er þó við þetta. Jeg hefi ekkert á móti því, að sú trúarsetning, að bankarnir geti engu tapað hjá landbúnaðinum, fái að prófast í eldi reynslunnar. Jeg er hræddur um, að landbúnaðurinn geti átt erfitt með að endurgreiða stór lán, og býst við, að seint gangi að innheimta þau. Jeg geri ráð fyrir, að eftir 20 ár finnist stjórn Landbúnaðarbankans trúarsetningin vera farin að dofna.