19.04.1929
Efri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í C-deild Alþingistíðinda. (3914)

60. mál, einkasala á lyfjum

Frsm. minni hl. (Jóhannes Jóhannesson):

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, er einn hlekkur í þeirri einokunarkeðju, er hv. jafnaðarmenn bera fram á þessu þingi og vilja fá samþykt. Jeg hefi nú ekki getað sjeð nje sannfærst um, að nokkur þau rök hafi verið fram borin fyrir rjettmæti þessa frv., að jeg geti sjeð ástæðu til þess að breytt sje núverandi fyrirkomulagi á sölu á lyfjum. Hin eina ástæða, sem við einhver rök kann að styðjast og færð hefir verið fram sem ástæða til breytingar á skipulaginu nú er sú, að lyfin sjeu nú seld of háu verði. En bæði álit læknafjelagsins og lyfsalafjelagsins, sem prentuð eru með nál. meiri og minni hl. sýna ljóslega, að því má hæglega kippa í lag á annan hátt en þann, að taka einkasölu á lyfjum. Og óvíst er, að þótt sett væri ríkiseinkasala á lyfin, að sá tilgangur næðist að lækka þau í verði. Og eins og stjórn læknafjelagsins bendir á, þá hefir reynsla sú sem fengin er um einkasölu á vini og bóluefni ekki orðið svo glæsileg, að ástæða sje að taka einkasölu á öðrum lyfjum. Einkasalan á áfengi hefir verið hið mesta okur, að dómi læknafjelagsins.

Um hið háa verð lyfjanna er það að segja, að stjórn læknafjelagsins telur það stafa af því, að heilbrigðisstjórnin hafi ekki vandað svo verk sitt sem skyldi um samningu lyfjataxtans, hafi yfirleitt tekið upp danska taxtann án fullrar athugunar á því, hvað hjer væri hæfilegt verð. En eins og jeg gat um áður, þá þarf enga fyrirkomulagsbreytingu á sölu lyfja til að lagfæra þetta, og ætti það að vera fyllilega fært. Engin útgjöld við sölu lyfja sparast við einkasölufyrirkomulagið, svo það ætti að nást eins lágt verð með óbreyttu fyrirkomulagi. Ef ríkið tekur að sjer söluna, þá þarf það að launa duglegum sjerfræðingi. Það þarf mikið og gott húsrúm, sem það hefir ekki nú til umráða. Og það þarf rekstrarfje, sem jeg veit ekki af að til sje handbært. Að vísu heimilar frv. ríkisstjórninni að taka lán til þessarar starfrækslu. En það er áreiðanlega hægt að beina lánsfje landsins til nauðsynlegri fyrirtækja en þessarar starfrækslu.

Þá má draga það í efa, að hægt verði að reka þessa einkasölu undir stjórn áfengisverslunar ríkisins, eins og hún er skipuð nú. Þótt einhver unglingur með lyfsalaprófi starfi þar nú, þá er sjáanlegt, að ekki er fært að fela honum forstöðu slíkrar verslunar. Ef sá maður, sem þá forstöðu hefir, á jafnframt að vera eftirlitsmaður við lyfjabúðir, þá þarf það að vera reyndur og ráðsettur maður, kunnugur öllum ástæðum.

Að þessum ástæðum öllum athuguðum hefi jeg lagt það til, að hv. deild felli þetta frv. Jeg get ekki sjeð neina þörf á því. Jeg verð að taka undir það með hv. 5. landsk. (JKr), sem hann sagði við 1. umr. þessa máls, að hjer sje um skollafingur að ræða, sem hv. stjórnarflokk sje ætlað að grípa í frá jafnaðarmönnum. En sá flokkur hefir nú nýlega sýnt það í öðru máli, að hann vill ekki taka um þeirra skollafingur, og vona jeg að eins fari um þetta frv., að það verði felt.

Máske hefði það verið rjett að koma fram með sjerstaka þál. till. um það, að heilbrigðisstjórnin færi verð á lyfjum svo niður, að það verði hæfilegt. En slíkt má taka upp síðar.

Hv. þdm. hafa nú átt kost á að kynna sjer nál. mitt og þau fskj., sem nál. meiri og minni hl. fylgja. Er nóg í að vísa til þeirra. Jeg get þó tekið fram það, að jeg sje ekki betur en að álit læknafjelagsins sje eindregið móti þessu frv. Það telur að vísu verðið á lyfjum of hátt nú, en telur að það megi lagfæra án skipulagsbreytingar. Virðist augljóst, að í því felst engin trú á það, að bót verði ráðin á því, þótt þetta frv. verði samþ. Umsögn landlæknis, sem hv. frsm. meiri hl. lagði allmikið upp úr, er þess eðlis, að ekki er alt of mikið upp úr henni leggjandi. Það vill nú svo til, að landlæknir er í raun og veru faðir þessa frv. — Nú vill enginn bera út börn sín, og þá hann heldur ekki þetta fóstur sitt. En mjer finst þó skína út úr umsögn hans, að hann muni líta nokkuð öðrum augum á þetta mál nú en hann gerði þá. Er það og skiljanlegt þegar á það er litið, að allar ástæður hafa breyst síðan. Þá voru erfiðleikar og byltingar stríðsins öllum í fersku minni, og menn voru hræddir um, að skortur yrði á lyfjum og vildu fyrirbyggja það. Þá var og því frv., sem fram var borið, ætlað að gefa drjúgan skildinga í ríkissjóð. Var síst af öllu vanþörf á því 1921. En þrátt fyrir það, þótt miklu fleiri ástæður mæltu þá með frv. en nú, þá sá þessi hv. þd. sjer þó ekki fært að afgreiða það frv. Það komst til nefndar og var aldrei afgr. frá henni.

Nú eru þessar ástæður, sem þá voru fyrir hendi, fallnar. Trúi jeg ekki, að aðrir en hv. jafnaðarmenn hjer verði með þessu frv. Jeg veit að þeir verða með því, en það gera þeir ekki vegna þess, að þeir búist við því, að lyfin verði ódýrari, heldur vegna þess, að stefna þeirra er einokun og ríkisrekstur á öllum sviðum.