22.02.1929
Neðri deild: 5. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (4)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Gunnar Sigurðsson:

Jeg get látið í ljós ánægju mína yfir því, að frv. þetta er fram komið.

Þegar lög um ríkisveðbanka Íslands voru sett 1921, var jeg einn af ákveðnustu stuðningsmönnum þeirra. Jeg taldi, að þau lög hefðu átt að komast til framkvæmda löngu fyr, og legg það til ámælis báðum flokkum, að svo varð ekki. Jeg hefi jafnan talið það hina mestu nauðsyn, að lánum til landbúnaðarins væri komið í tískuhorf, þannig að vextir yrðu hæfilegir og lánin nógu löng. Í fyrra hafði jeg ásett mjer að bera fram þál. í þessa átt, en hvarf frá því, þar sem hæstv. forsrh. hjet frv. um þetta efni.

Jeg vil hjer við þessa umr. benda á það, hvort ekki sje hægt að koma öllum veðdeildum fyrir í sama banka, þannig að veðdeildir Landsbankans yrðu lagðar til þessa banka. Jeg tel, að hægra yrði að selja veðdeildarbrjefin á þann hátt. Með skiftingu á veðdeildunum er um svo lítið fjármagn að ræða á hverjum stað, að erlendir fjármálamenn líta naumast við því.

Þá tel jeg lánstímann tæpast nógu langan. Þessar framkvæmdir eru vitanlega lengi að borga sig. Lánstíminn til húsagerðar mætti naumast vera styttri en 50 ár, eða lengri.

Þá tel jeg lán gegn tryggingu í búfje sjálfsögð og tel ekki að nein sjerstök áhætta fylgi því. En heppilegra hefði jeg talið, að búfjeð fylgdi jörðinni, eins og annarsstaðar er, t. d. í Danmörku. — Jeg geri að vísu ráð fyrir því, að fyrir Böðvari Bjarkan hafi vakað, að leiguliðar hefðu sömu aðstöðu og sjálfseignarbændur, en vegna þeirra hefði þá mátt gera undanþágu. Jeg tel lánstímann, 10 ár, of stuttan, einkum með tilliti til þess, að ekki er lánað nema út á helming bústofns eftir verðlagsskrárverði, en það mun jafnan vera eigi alllítið lægra en söluverð.

Hjer er úr brýnni þörf að bæta, og vona jeg, að lög þessi verði sem best úr garði gerð, svo þau megi koma bændum að tilætluðum notum.