09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil segja, að það er ekki vonum fyr, að rödd kemur fram til andmæla þessu frv. En sú rödd heyrðist nú frá hv. 1. þm. Reykv. Jeg hefi ávalt átt von á slíkri rödd frá einhverjum fulltrúa úr kaupstöðum landsins. Og það er langt frá því, að sú kveðja, sem hv. þm. flutti áðan, væri borin fram með meiri hörku og kulda en búast mátti við. Þvert á móti var hún flutt rólegar en vænta mátti. Það kom greinilega fram í ræðu hv. þm., að hann áleit strauminn of þungan fyrir þessu máli, og straumurinn er áreiðanlega orðinn of þungur til þess að þeir, sem hugsa eins og hv. 1. þm. Reykv., geti staðið á móti honum. Því til sönnunar, að straumurinn sje orðinn of þungur, vil jeg aðeins minna á það, sem hv. 1. þm. Reykv. hlýtur að hafa rekið sig á, að hvarvetna af landinu og frá hverjum þingmálafundi í sveitunum, jafnvel f kjördæmum þar sem Íhaldsflokkurinn er í meiri hluta, berast nú einróma áskoranir um, að þingið afgreiði þetta mál.

Þetta frv. er líka alveg sjerstaklega vel undirbúið og hefir verið sent til margra manna úti um land, til þess að þeir gætu tekið afstöðu til þess og borið fram umbótabreytingar. Þar við bætist, að það hefir verið tekið til rækilegrar meðferðar á þingi bændanna sjálfra, Búnaðarþinginu. Og þaðan hefir borist til Alþingis einróma áskorun um að samþ. frv. og nú hefir hv. landbn. þessarar deildar einum rómi og án tillits til flokka lýst yfir fylgi sínu við málið og lagt til, að þetta ráð yrði upp tekið.

Jeg vil því aftur undirstrika þau ummæli, að straumurinn sje svo þungur í þessu máli, að ekki heyrist nema þessi eina rödd hjer í deildinni til andmæla, og að jeg er ekki einusinni viss um, að allir fulltrúar kauptúnanna vilji taka undir þá rödd. Jeg er meira að segja viss um, að sumir samþm. hv. 1. þm. Reykv., og það sá, sem næst honum stendur, lítur á þetta mál alt öðrum augum en hann.

Jeg skal svo víkja að þeim athugasemdum, sem komu fram í ræðu hv. þm.

Hv. þm. benti á, og það rjettilega, að þessi banki mundi verða til þess að auka búnaðarstarfsemina í landinu og veita bændum betri aðgang að lánsfje. Þetta er alveg rjett. Einmitt þess vegna er þetta frv. fram borið, og það er gert í öruggu trausti þess, að það verði til að efla og styrkja landbúnaðinn og bæta hag bændastjettarinnar og veita þar með fleira fólki viðunandi lífsskilyrði í sveitum landsins. Hin einhliða fjölgun fólksins við sjóinn nú hin síðari ár má vera þeim áhyggjuefni, sem hugsa fram í tímann um andlega og líkamlega hreysti þjóðarinnar á komandi tímum. Þetta frv. er því líka borið fram í trausti þess, að sveitirnar byggist og fólkinu fjölgi þar líka í sömu hlutföllum og í kaupstöðunum. Frv. er því flutt í öruggu trausti þess, að með því sje lagður sá grundvöllur, sem heilbrigt þjóðlíf og framtíð þessa lands byggist á.

Þá vil jeg benda á annað atriði, sem hv. þm. taldi, að af þessu mundi leiða. Hv. þm. hjelt því fram, að stofnun Búnaðarbankans mundi verða til þess að auka eftirspurn eftir lánsfje, án þess lánsfje væri aukið. En þetta er nú ekki að öllu leyti rjett. Það er að vísu satt, að eftirspurn eftir lánsfje mun aukast, enda er það í samræmi við tilgang frv. En að ekki sje hægt að auka lánsfjeð, hygg jeg að sje ekki rjett. Það er alment álit fjármálamanna, bæði hjer og erlendis, að veðdeildarbrjef, sem trygð eru með jarðarveði eða hafa jarðeignirnar á bak við sig og ætluð eru til landbúnaðarframkvæmda, sjeu einhver hin öruggustu verðbrjef, sem fáanleg eru. Og í fjármálaheiminum eru þau talin miklu tryggari en verðbrjef stofnana, sem lána til verslunar, útgerðar eða iðnrekstrar. Jeg er ekki í vafa um það, að miklu hægra er að fá útlent lánsfje til banka, sem ver fje sínu til búnaðarframkvæmda, heldur en til þeirra stofnana, sem verja því til lána til ýmsrar annarar starfsemi. Eins mun hjer innanlands þykja örugt að ávaxta fje sitt í þessari stofnun. Jeg tel því, að þetta sje ekki nema að nokkru leyti rjett hjá hv. þm. Og þó það væri rjett, að lánsfje ykist ekki, þá á samt að samþ. þetta frv. Og það segi jeg út frá þeirri skoðun minni og fleiri manna, að það sje ekki þjóðinni holt, að hinn einhliða vöxtur við sjóinn haldi áfram. Þau skifti hafa áður verið gerð á lánsfjenu, að mestur hluti þess hefir gengið til að byggja upp og skapa fólki lífsskilyrði við sjávarsíðuna. Jeg veit ekki hvort hv. þm. (MJ) lítur svo á, að rjett sje, að því skuli haldið áfram. Jeg álít það hættulegt og vil veita nokkru af lánsfjenu til landbúnaðarins, jafnvel þótt engin lánsfjáraukning yrði, því það er ekki rjett, að landbúnaðurinn sje lengur hafður eins afskilinn um lánsfje og verið hefir. En jeg held nú, að skoðun hv. þm. á þessu sje ekki rjett. Jeg held, að þessi stofnun verði til þess að draga hingað til lands nýtt lánsfje, og það með aðgengilegri kjörum en annars mundu fást.

Þá vjek sami hv. þm. að því, hvort það væri rjett, að setja skuli á fót nýja stofnun fyrir sjávarútveginn. Gat hann þess, að hann hefði fylgst vel með við 2. umr. þessa frv. og spurði því um þetta. — Það var ekki talað um nýja stofnun fyrir sjávarútveginn alment, heldur aðeins vegna smábátaútgerðarinnar. Jeg hefi nú að vísu ekki eins mikla þekkingu á þörfum þessa atvinnurekstrar eins og á nauðsyn landbúnaðarins. En eftir minni þekkingu, þá hygg jeg, að nokkuð líkt megi segja um smábátaútveginn og landbúnaðinn, að hann hafi einnig orðið útundan við skiftingu lánsfjárins og verið olnbogabarn lánsstofnananna undanfarna tíma. Sú stefna er líka óholl, og smábátaútgerðin er máske einhver allra farsælasti þátturinn í útgerðinni. Álít jeg því, að sjerstakar ráðstafanir beri að gera honum til hjálpar, líkt og landbúnaðinum. Er nú komið fram hliðstætt frv., sem ganga ætti fram í líkri mynd og þetta. Og jeg hefi í samtali við 2 menn nú nýlega lagt nokkur drög til þess að víða að efni til undirbúnings þessari löggjöf.

Þá vjek sami hv. þm. að töpum bankanna undanfarið, í sambandi við lánskjör þau, sem bændum eru ætluð eftir frv. En mjer finst ekkert meira en sanngjarnt, að vaxtakjör þessa atvinnuvegar, landbúnaðarins, sjeu í beinu hlutfalli við það, hvernig hann stendur í skilum með lán sín. Hv. þm. sagði, að allar forsendur vanti fyrir þeim dómi, er jeg hefði kveðið upp á skiftingu á töpum bankanna til landbúnaðar og annarar starfsemi. Jeg vil nú ekki játa því, að allar forsendur vanti fyrir þeim dómi. Jeg þykist hafa talsverðar forsendur. Jeg hefi sjálfur starfað sem endurskoðandi annars bankans um nokkur ár. Og jeg hefi lagt talsverða vinnu í það, að athuga, hvernig töp bankans hafa skiftst á atvinnuvegina. Og jeg hefi falið hinum stjórnskipaða bankaendurskoðanda hins bankans að athuga þetta í þeim bankanum. Hefir hann gefið mjer skýrslu um það. Er þá dómur minn á þessum rökum bygður, um það hvernig töpin hafa skiftst.

Þá sagði hv. þm. ennfremur, að hann sæi ekki, að hægt væri að beina nýju fjármagni til landbúnaðarins, nema þá um leið að þrengt verði að kauptúnunum. Jeg hefi nú svarað þessu að nokkru áður. Og jeg get endurtekið það, að rjett sje að þrengja nokkuð að kauptúnunum, ef ekki er hægt að sjá fyrir lánsþörf sveitanna á annan hátt. Þær hafa hingað til orðið útundan. Og ef ekki verður bætt úr þörfum þeirra á annan hátt en þrengja að kaupstöðunum, þá verður að fara þá leið. En jeg er nú að vísu sannfærður um, að þess ætti ekki að þurfa svo verulegu nemi.

Þá kom kafli í ræðu hv. þm., sem var um það, hver aðstaða þessa banka og Landsbankans yrði hvor til annars. Og hann talaði um, hvort ekki væri rjett að fela Landsbankanum að fara með þessa stofnun. Taldi hv. þm. stofnun þá, sem í frv. þessu felst, bein fjörráð og frumhlaup gagnvart Landsbankanum. Hv. þm. svaraði sjer nú að vísu sjálfur. Því hann minti á það, að n. sú, er hafði þetta frv. til meðferðar hjer, hefði sent fyrirspurn til bankans um álit hans á þessu frv. En hvorki bankastjórnin nje bankaráðið hafði neitt að athuga við stofnun þessa nýja banka, og benti ekki á neitt, sem talist gæti fjörráð við Landsbankann. Er brjef það, sem álit þetta er í, að vísu frá bankaráðinu, en mun vera gert í fullu samræmi við álit bankastjórnarinnar. Hv. þm. telur að vísu ekki mikið á þessu áliti að byggja. Veit jeg ekki, af hverju hann dregur þá ályktun, nema ef það er af því, að hv. þm. var sjálfur í bankaráðinu áður, og telji sig síðan þá hafa reynslu fyrir því, að álit bankaráðsins sje ekki mikils virði. En jeg fyrir mitt leyti met meira umsögn bankastjórnar og bankaráðs Landsbankans heldur en ummæli hv. 1. þm. Reykv.

Þá þótti mjer skraf hv. þm. um ríkisábyrgð á væntanlegum Búnaðarbanka næsta undarlegt. Hv. þm. taldi, að ríkisábyrgðin yrði lítils virði, ef nú væri bætt við einni nýrri peningastofnun, sem ríkið ábyrgist. — Jeg verð nú að vera á alt annari skoðun um þetta. Jeg álít, að Búnaðarbankinn muni verða langtryggasta lánsstofnun í landinu, og jeg er viss um, að sú ábyrgð mun ekkert rýra tryggingu þá, sem felst í ábyrgð ríkisins á Landsbankanum, þótt stofnun þeirri, sem sjerstaklega á að styðja landbúnaðinn, sje bætt við. Og jeg álít, að ríkið eigi að leggja fram hið besta, sem það getur, til þess að hlúa að þessari stofnun.

Hv. þm. byrjaði þennan fyrri hl. ræðu sinnar á því að spyrja um, hvaða áhrif þetta mundi hafa á peningamálin í landinu, og endaði hann með því að segja, að þau áhrif yrðu mjög óheppileg. En eins og jeg hefi áður sagt, þá er jeg sannfærður um, að þau áhrif verða gagnstæð. Jeg held, að rekstur öflugs búnaðarbanka muni hafa heppileg áhrif á peningamál og atvinnulíf í landinu. Jeg held jafnvel, að þetta sje farsælasta sporið, sem stigið hefir verið í peningamálum landsins nú um langan tíma.

Síðari atriðum ræðu hv. þm. hefi jeg að nokkru svarað áður. Sumpart um það, hvort þetta sje árás á Landsbankann og muni verða til þess að draga frá honum. Því hefi jeg nú svarað áður. En sumpart vildi hann halda því fram, að rjettast hefði verið að fela Landsbankanum stjórn þessarar stofnunar. Hjer eru nú á ferðinni fyrir þinginu tvö frv. viðvíkjandi fiskiveiðasjóðnum. Og samkvæmt till. hv. sjútvn. þessarar hv. deildar, þá á Landsbankinn að hafa forstöðu hans. Jeg hefi ekki átt kost á að sjá skjöl þessa máls. En mjer er sagt, að bankastjórn Landsbankans hafi mjög eindregið færst undan því að taka þetta að sjer. Enda munu þeir líka hafa mikið að gera, sem og er skiljanlegt, þar sem bankinn er nú í þann veginn að taka við allri seðlaútgáfu landsins, ásamt margþættri starfsemi annari. Enda ekki efasamt, að bankastjórar Landsbankans hafa allra manna mest að gera hjer á landi. Jeg veit, að hvorki bankaráðið eða bankastjórnin óskar eftir því að taka þetta að sjer. Jeg veit, að þeim er það ljóst og verður æ ljósara, að sá straumur er orðinn svo þungur, að landbúnaðurinn heimti sína sjálfstæðu peningastofnun, að móti því verður ekki staðið. Og jeg hygg, að stjórnir Landsbankans hyggi gott til samvinnu við þá stofnun.

Að síðustu get jeg verið sammála hv. þm. um það, er hann sagði í niðurlagi ræðu sinnar. Hv. þm. bjóst við því, að þetta frv. gengi fram, og hann sagði, að það væri nú máske ekki svo ilt, því það gæti verið gott að fá því slegið föstu, hvort fje tapast á landbúnaði eða ekki. Jeg get tekið undir það með hv. þm., að það sje gott, að þessi lög fái að sýna sig — meðal annars til að slá þessu föstu. Og jeg vil fastlega taka undir það, að þetta mál nái fram að ganga. Og það geri jeg í öruggu trausti þess, að það leiði til framfara og blessunar fyrir land og lýð í framtíðinni.