09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Gunnar Sigurðsson:

Jeg ætla ekki að tala um málið í heild. Jeg vil þakka hv. 1. þm. Reykv. fyrir það, að hann tók undir það álit mitt, að sameina beri allar veðdeildarstofnanir. Og jeg vil átelja báða höfuðflokka þingsins fyrir það, að láta framkvæmd á ríkisveðbankalögunum hafa dregist úr hömlu.

Hv. frsm. hjelt því fram, að jeg hefði misskilið brtt. landbn. Jeg get játað, að það er að einu leyti rjett. Jeg hafði ekki athugað það, að n. leggur til, að niður falli síðasti liður 45. gr. Sá liður tel jeg að eigi ekki að falla burt. En hinsvegar get jeg verið þakklátur hv. n. fyrir það að fella burt ákvæðin um fóðurbirgðafjelögin, sem eftir upplýsingum eru aðeins 7 til í landinu og hafa því lítinn rjett að komast inn í þessi lög. Jeg gat þess lauslega áðan og vil ítreka þá skoðun mína nú, að þessi fjelög tryggja lítið fóðurbirgðir manna. Dæmi munu jafnvel vera til þess, að þau hafa verkað öfugt tilgangi sínum um ásetning. Menn hafa sett á sjálfan fjelagsskapinn. Það er annað, sem tryggir fóðurbirgðirnar betur, og það eru bættar samgöngur. Aðaláhættan við þessi lán er sú, að krefjast skuli hreppsnefndarábyrgðar sem viðbótartryggingar við lausafjeð. Þar getur margt komið til greina. Pólitískur óvilji hreppsnefndar til ábyrgðarbeiðanda getur ráðið nokkru. Er ilt, ef slíkt stendur fyrir lánum. Þá get jeg og hugsað, að þeir, sem helst þyrftu lánanna með, yrðu nokkuð óframfærnir að biðja um ábyrgð hreppsnefndar. Jeg vil því láta síðasta lið 45. gr. standa og að bankastjórnum sje heimilt að taka sem viðbótarveð veðrjett í jörðum, annaðhvort 1. eða síðari veðrjetti. í Danmörku og Noregi er sá siður, að búfje fylgi jörðinni sem veð. Ef sú till. landbn. verður samþ., að 3. liður 45. gr. falli burt og gr. að öðru standi óbreytt, þá er efni brtt. minnar fengið. Verði þetta mál ekki útrætt nú, sem óvíst er, þá getur verið, að jeg komi með brtt. um að nema algerlega burt hreppsábyrgð úr þessu frv. Jeg vil fara allar leiðir fyr en sú leið er farin.