09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Magnús Jónsson:

Hæstv. forsrh. ljet svo um mælt í ræðu sinni, að ekki væri vonum fyr, þótt einhver rödd kæmi til andmæla þessu máli. Þetta er alveg rjett athugað, enda líka ofur eðlilegt. Þegar um er að ræða að koma á fót slíkri stofnun sem þessari, þar sem fengið er einum það, sem tekið er frá öðrum, þar sem hagsmunum einnar stjettar er fórnað fyrir hagsmuni annarar, þá er ekkert sjálfsagðara og eðlilegra en að andmælum sje hreyft. En einmitt það, hve miklu gengi þetta frv. hefir enn átt að fagna í deildinni, sýnir glögt velvilja hennar í garð þeirrar stjettar, sem hjer á hlut að máli. Ella hefðu þessar raddir heyrst fyr.

Mjer virtist hæstv. forsrh. ætla í byrjun að sveigja málið inn á pólitíska sviðið, en úr því varð minna en áhorfðist. Jeg mun því einnig forðast að blanda þessu máli inn í pólitískar æsingar, enda á það þar síst heima. Hann sagði, að „straumurinn væri þungur“, þetta væri heimtað á þingmálafundum alstaðar á landinu, og þessa væri krafist leynt og ljóst, bæði í ræðu og riti. Vitaskuld! Vitaskuld er straumurinn þungur, en ef það er hin eina ástæða til þessa frv., þá gæfi jeg lítið fyrir það. Það væri ekki viðlit að gefa hinn minsta gaum að þessu máli, ef ekki lægju til þess aðrar skynsamlegri ástæður, ef málið væri ekki skynsamlegt í eðli sínu. Það er altaf hægt að fá eina stjett til þess að heimta eitthvað og eitthvað. Við skulum hugsa okkur, hvernig á það væri litið, ef verslunarmenn eða kaupmenn heimtuðu sjerstakan banka, sniðinn einungis eftir þeirra þörfum og hagsmunum. Það er enginn vandi að fá menn til að heimta og gera ávalt meiri og meiri kröfur. En slíkt eru engar ástæður, engin rök fyrir neinu máli. Þingið verður að skera úr, hvort slíkar kröfur eigi rjett á sjer eða ekki og hvort hægt sje að sinna þeim. Það verður að líta á slíkar kröfur frá sjónarmiði heildarinnar og frá skynsamlegu sjónarmiði. Það hefir þegar verið gerð ein tilraun til þess að fullnægja þessum kröfum bænda um aðgang að lánsfje bankanna. Bankaútibúið á Selfossi var stofnað einungis til að sinna þessum kröfum, enda hefir það veitt stórfje til bænda á Suðurlandsundirlendinu. Árangurinn hefir nú ekki orðið glæsilegri en svo, að þetta peningaflóð varð til hins mesta hallæris fyrir bygðarlagið, svo mikils, að varla hefði hafís gert öllu meira tjón. Það er nú svo, að ekki er altaf gott að láta undan kröfum manna meðaukið lánsfje, því að þar fylgir sá böggull skammrifi, að slík lán þarf að endurgreiða og skila af þeim vöxtum. Þó var alls ekki um óskilvísi að ræða í sambandi við Selfossútibúið, heldur einungis það, að sveitímar risu ekki undir að ávaxta lánsfjeð. Nei, í slíkum stórmálum kemur enginn þungur straumur til greina; það er þingið með stjórnina í broddi fylkingar, sem á að meta, hvað sje rjettmætt og hvað sje kleift, og ekkert annað á að koma til greina.

Nú er það fjarri mjer að amast við því, þótt smáatvinnurekendur, bændur og bátaútvegsmenn, fái lán til að stunda atvinnu sína. Jeg er hlyntur öllum tilraunum í þá átt, sjeu þær á viti bygðar og forsjá. Það var slík tilraun, sem rekstrarlánafrv. í fyrra átti að stofna til. En þá fanst mjer anda köldu gegn þeirri sjálfsögðu tilraun, og menn glottu og hristu höfuðin og urðu samtaka um að drepa frv. Nú er þetta frv. á góðum vegi að komast í kring, meðfram og meðal annars fyrir minn lítilsverða atbeina. Þó er það einungis lítill hluti af starfsemi bankans, sem snertir rekstrarlánin, enda gæti Landsbankinn vel dugað til þess. Annars hefi jeg verið þeirrar skoðunar, enda þótt jeg geti viðurkent, að margir hafi betra vit á þeim efnum en jeg, að til þess að efla landbúnaðinn íslenska sje miklu heppilegra að veita verðlaun og beina styrki til ræktunar og búnaðarframkvæmda heldur en að veita honum lán, sem hann ekki er fær um að ávaxta. Besta ráðstöfunin í þessum efnum eru óefað jarðræktarlögin. Þau hafa þegar gert stórmikið gagn, og eiga eftir að gera meira. Landbúnaðurinn á erfitt með að rísa undir miklum lánum eins og nú standa sakir. Fyrst þegar búið hefir verið í haginn með bætt skilyrði, svo sem meira ræktað land, þá er fyrst tími til þess að tala um að lána stórfje til þessarar atvinnugreinar. Þá fyrst getur komið til mála, að landbúnaðurinn fái risið undir stórfeldum lántökum.

Þá stendur það enn óhaggað, sem jeg sagði áðan um áhrif þessarar ráðstöfunar á peningamarkað og peningamál landsins. Hæstv. forsrh. svaraði aðeins því, að ekki væri ástæða til að ætla, að Búnaðarbankinn gæti ekki aukið lánsfjeð, en jeg get ekki sjeð, hvernig hann vill rökstyðja þetta. Jeg get ekki skilið, hvaða möguleika bankinn hefir til að afla fjár. Hæstv. ráðh. sagði, að verðbrjef trygð í jarðveði væru betri en — hjer beygði hann af — betri en nokkur önnur stofnun! Ja, hvaða stofnun? Við skulum bara halda okkur við efnið og segja t. d. betri en veðdeildarbrjef Landsbankans. Jeg vil stórlega efa það. Jeg held, að t. d. verðbrjef trygð með húseign í Reykjavík sjeu alveg eins góður pappír. Ef menn halda, að ríkisábyrgðin geti hjálpað bankanum til að komast að góðum kjörum, þá gæti það að vísu náð átt, ef þetta væri hin eina stofnun, sem ríkið ábyrgðist. En ríkisábyrgð verður lítils virði, ef henni er dreift niður á margar slíkar stofnanir. Hæstv. forsrh. sagði, að það yrði að veita meira fje inn í landbúnaðinn, en það verður einnig að gefa gaum að þeim afleiðingum, sem slíkt hefir í för með sjer. Um leið og eftirspurnin eykst, en ekki er nóg fje fyrir hendi, þá hlýtur það að hafa vaxtahækkun í för með sjer. Þetta er hættan af því að kljúfa bankastarfsemina og skapa nýja lánsþörf. Slíkt má alls ekki gera nema veita um leið erlendu fjármagni inn í landið. Þegar rætt hefir verið um stofnun nýs banka að undanförnu, þá hefir það altaf verið talið sjálfsagt, að útvegað væri útlent fje, til þess að geta fullnægt lánsþörfinni og eftirspurninni. Sama var og gert þegar Íslandsbanki var stofnaður. Þetta er ekki gert hjer og af því getur auðveldlega stafað stór hætta, og jeg vil benda hv. þdm. á það til frekari athugunar.

Mjer þótti vænt um, að hæstv. forsrh. talaði vingjarnlega um smábátaútveginn og játaði, að hann hefði orðið útundan hingað til hvað lánsstofnanir snerti. Ef ætti nú að setja upp lánsstofnun fyrir smábátaútveginn, yrði hún að hafa ríkisábyrgð að baki, til þess að njóta svipaðrar aðstöðu sem lánsstofnun landbúnaðarins, en slík ótakmörkuð ríkisábyrgð á öllum helstu peningastofnunum landsins færi þá að verða lítils virði fram af því. Hæstv. forsrh. sagði, að sá atvinnuvegur, sem væri svo öruggur, að ekkert af lánsfje, sem til hans rynni, tapaðist, ætti heimtingu á betri vaxta- og lánakjörum en aðrir atvinnuvegir stopulli. Þetta er öldungis rjett, en þetta á aðeins ekki við íslenskan landbúnað. Það hefir að vísu ekki verið lánað fje til landbúnaðarins í stórum stíl, en það mun veitast örðugt að fá það fje alt inn aftur. Og bankastjórnirnar munu finna það, að nokkrum örðugleikum er það bundið að fá inn löng og stór lán, sem lánuð hafa verið til sveitabúskaparins. Að öðru leyti skal jeg ekki karpa við hæstv. forsrh. um, hvort meira hafi tapast á sjávarútveg eða landbúnaði, en ef landbúnaðurinn hefir lítið fengið af lánsfjenu, eins og margtekið hefir verið fram af hæstv. forsrh. og fleirum, þá er engin furða, þótt ekki hafi mikið tapast. Og jeg læt það ósagt, hvort töpin á sjávarútveginum hafa verið hlutfallslega meiri en á landbúnaðinum, og mjer þykir það jafnvel ósennilegt. Annars er hjer um að ræða slíka voðatíma, að varla hafa slíkir komið í manna minnum.

Þá hjelt hæstv. forsrh., að jeg mæti bankaráð Landsbankans minna og treysti því síður nú, þar sem jeg væri nú ekki í því sjálfur. Jú, alveg rjett; sjálfs er höndin hollust og flestir munu svo gerðir, að þeir treysti betur sjálfum sjer en einhverjum og einhverjum. En jeg vísa þeirri aðdróttun á bug, að jeg vantreysti bankaráðinu einungis vegna þess, að jeg á þar ekki sæti. Hitt nær engri átt, að segja, að það geri bankanum ekkert til, þótt hann sje sviftur verulegum hluta starfsfjárins. Hæstv. ráðherra vildi ekki ganga inn á, að ríkisábyrgð væri minna virði þótt hún væri látin ná yfir Búnaðarbankann í viðbót. En þegar einn banki hefir þegar slíka ábyrgð og öðrum er bætt við með sömu ábyrgð, þá er það augljóst, að ábyrgðin verður ljelegri fyrir þann banka, sem hafði hana einn áður. Hæstv. ráðh. virðist misskilja þetta atriði algerlega.

Jeg skal svo ekki deila þetta mál frekar við hæstv. ráðh., en teldi það ólíkt skynsamlegri leið að fela banka þeim, sem ríkið þegar á, þessa starfsemi. Í stað þess að stofna sjerstakan banka, sem ekki hefir betri skilyrði, hvorki fjármagn nje annað, heldur en þessi Búnaðarbanki, sem nú er í ráði að koma á fót. Að bankastjórnin vill losna við þetta, er mjög skiljanlegt, því flestir vilja hafa minna að gera en meira, og auk þess gefur þetta bankanum lítið í aðra hönd. En ef það yrði Landsbankastjórninni um megn að annast um þessi mál, þá er opin leið að bæta við manni eða mönnum til þess að standa fyrir þeim. Þessi leið væri ólíkt heppilegri, auk þess sem hún væri ólíkt kostnaðarminni.

Jeg er sammála hæstv. forsrh. um það, að gott er að fá reynslu. En það, sem skilur á milli okkar, er, að hann vill stofna til hennar, en jeg vil það ekki. Mjer er það ljóst, að slík reynsla getur orðið helst til dýrkeypt. Jeg hefði helst kosið, að þetta mál væri afgr. með rökstuddri dagskrá, en annars mun jeg láta nægja að sýna með atkvæði mínu afstöðu mína til málsins.