03.05.1929
Efri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

121. mál, sjúkrasamlög

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er komið frá hv., Nd. og fór í gegnum þá d. án breyt. Tilefnið til þessa frv. er það, að með lögum nr. 42, 4. júní 1924, voru hækkuð þau hámarkslaun, er hluttækir fjelagar í sjúkrasamlögum mættu hafa, og er svo fyrir mælt þar, að þau megi vera 3000 kr., auk dýrtíðaruppbótar á þau laun.

Þegar þessi takmörk voru samþ., var dýrtíðaruppbótin 52% , en nú er hún ekki nema 34% Það má kannske segja, að þetta breyti ekki miklu, vegna þess að dýrtíðaruppbótin fer lækkandi, eftir því sem ódýrara verður að lifa; en það mun vera svo, að hlutfallið milli dýrtíðaruppbótar og verðlags á nauðsynjavörum sje ekki það sama og var áður, með öðrum orðum, sú vísitala, sem dýrtíðaruppbótin er reiknuð eftir, sje ekki samkvæm verði á vörunum. Að öðru leyti má líka geta þess, að um þá menn, sem hafa föst laun og ekki dýrtíðaruppbót, hefir svo farið, að þeir, sem voru hluttækir árið 1924, þeir eru það ekki lengur, því samkv. l. frá 1924 var hægt að reikna hluttæka menn í sjúkrasamlögum þá, sem ekki höfðu yfir 4560 kr. En þótt þetta hafi ekki raskað beinlínis hjá þeim, sem hafa 3000 kr. í föst laun og enga dýrtíðaruppbót, þá er þetta ekki svo um þá, sem hafa föst laun, vegna þess að nú er hámarkið komið niður í 4120 kr. Það, sem virðist hafa vakað fyrir flm. þá, sýnist hafa verið það, að hámarkið verði sett fast. En jeg verð að segja það, að eftir því sem jeg skil sjúkrasamlögin, þá tel jeg ekki rjett að útiloka þá menn frá hluttöku í fjelögunum, þótt þeir hafi alt að 4560 kr. laun; jeg held, að maður verði að minsta kosti að álíta enn sem komið er, á meðan tryggingarmálin eru ekki lengra á leið komin hjá okkur, þá sjeu sjúkrasamlögin þó eina leiðin, sem menn hafa til að tryggja heilsu sína. Þess vegna er það, að allshn. Ed. hefir fallist á að mæla með, að þetta frv. gangi fram. Jeg vil hjer geta þess, að n. hefir, síðan hún skilaði áliti sínu, borist umsögn um málið frá formanni Læknafjelags Íslands, þar sem hann leggur heldur á móti því, að þessi breyt. verði á gerð. En jeg get ekki sjeð, að hans ástæður sjeu fullnægjandi, og breyta þær því ekki neitt afstöðu minni til málsins. Jeg held, að öllu athuguðu, að þá sje það rjett og sanngjarnt, að þetta frv. gangi fram, því að tilfellið er, að sjúkrasamlögin eiga víðast hvar heldur erfitt uppdráttar, og það má gera ráð fyrir því, að þess betri lífskjör, sem meðlimir sjúkrasamlaganna hafa við að búa, þess minni hætta stafi fjelögunum af sjúkrakostnaði þeirra. Mjer virðist það að öllu leyti hagur fyrir sjúkrasamlögin, að hámarkslaun hluttækra fjelagsmanna sjeu færð upp. En af þessari breyt. getur leitt örlitla hækkun á þeim styrk, sem ríkissjóður veitir sjúkrasamlögunum, en úr því að það telst rjettmætt, að ríkissjóður styrki þau, þá verð jeg að líta svo á, að það sje ekki síður rjett, þegar um þátttöku þeirra fjelagsmanna er að ræða, sem búast má við, að fjelögunum verði sjerstakur styrkur að. Vona jeg því, að hv. d. fallist á, að þetta frv. sje til bóta og samþ. það.